12.05.1969
Efri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Hér er um mjög viðamikið og tæknilegt frv. að ræða, og því miður hefur sá tími, sem n. hefur verið ætlaður til þess að athuga þetta frv., svo vel sem æskilegt hefði verið, verið of naumur, til þess að henni hafi verið það mögulegt. Málið hefur hins vegar fengið rækilegan undirbúning, og m.a. þegar málið var til meðferðar í hv. Nd., var það sent til umsagnar öllum þeim aðilum, sem talið var, að sérstakra hagsmuna hefðu að gæta í sambandi við málið. Þessar umsagnir voru svo aftur sendar þeim embættismönnum fjmrn., sem málið höfðu undirbúið, og hefur fjhn. Nd. tekið tillit til allra þessara athugasemda, eftir því sem æskilegt var talið, og í Nd. hefur frv. í þeirri mynd, sem það er nú, hlotið í meginatriðum samhlj. afgreiðslu. Með tilliti til þessa, svo og þess, að æskilegt er, að nýjar reglur verði um þetta settar, ákvað fjhn. því að afgreiða málið frá sér, og eins og nál. á þskj. 701 ber með sér, þá mæla allir þeir nm., sem viðstaddir voru á þeim fundi, sem málið var afgreitt á, en við vorum 6, með því, að þetta frv. verði afgr. með einni smávægilegri brtt., sem n. flytur á þskj. 702, en hún hljóðar svo með leyfi hv. forseta, að aftan við 37. gr. 1. bætist: „heimilt er þó ráðh. að greiða uppboðsandvirði vöruleigu fyrir geymslu hennar í einn mánuð frá komu hennar til landsins“.

Er þessi brtt. flutt til þess að koma á móts við óskir skipafélaganna um það, að heimilt sé a.m.k. innan áðurgreindra takmarka að víkja frá þeirri reglu, að tollar hafi forgangsrétt fyrir geymslugjaldi. Ég býst að vísu við, að skipafélögin telji þetta ekki fullnægjandi lausn á þessu máli, en n. taldi sér ekki fært að svo stöddu að ganga lengra til móts við þetta.

Herra forseti. Samkv. því, sem ég hef sagt, leggur fjhn. til, að frv. verði samþ. með áðurgreindri breytingu.