25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

203. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá Ed. og var samþ. með einni breyt., er snertir endurskoðendur í fyrirtækinu. Gert var ráð fyrir í frv. upphaflega, að 2 endurskoðendur væru skipaðir af landbrh., en Ed. breytti því ákvæði þannig, að einn skyldi skipaður af landbrh., annar af fjmrh. og sá þriðji af Búnaðarfélagi Íslands, eða tilnefndur af þessum aðila. Að öðru leyti var frv. ekki breytt í hv. Ed.

Frv. þetta gengur út á það að gera Áburðarverksmiðjuna h.f. að hreinu ríkisfyrirtæki. Hlutafé Áburðarverksmiðjunnar er 10 millj. kr. Upphaflega kostaði verksmiðjan um 130 millj. Ríkissjóður á meiri hluta hlutafjárins, eða 6 millj. kr., en einstakir hluthafar 4 millj. Alþ. hefur kosið 3 menn í stjórn, en hluthafar aðrir 2 menn. Segja má, að verksmiðjan hafi verið rekin eins og ríkisfyrirtæki að undanförnu, þótt það heiti hlutafélag.

Samkv. lögum um Áburðarverksmiðjuna h.f. er ekki heimilt að borga meiri arð en 6% af hlutafénu. Í þau 15 ár, sem Áburðarverksmiðjan hefur starfað, mun hafa verið greiddur arður sem svarar annað hvert ár. Það hefur þess vegna ekki verið mjög arðvænlegt fyrir hluthafa að eiga hlutafé í verksmiðjunni. Nú stendur fyrir dyrum stækkun verksmiðjunnar, sem mun kosta á 3. hundrað millj. kr. Ef verksmiðjan ætti að halda áfram að starfa í hlutafélagsformi, yrði að auka hlutaféð og það verulega. Að öðrum kosti gæti það ekki heitið hlutafélag áfram og að öðrum kosti væri tæpast hægt fyrir hlutafélag að ráðast í svo mikla fjárfestingu, sem fyrir liggur. Það er og vitað mál, að einkahluthafar mundu ekki vitja bæta við hlutafé í verksmiðjuna eins og sakir standa með þeim skilyrðum, sem sett eru í lög um arðgreiðslur. Þess vegna hefur það orðið að ráði og varð að ráði á síðasta þingi, að samþ. voru lög um það að heimila ríkisstj. að kaupa hlutabréf í einkaeign á allt að fimmföldu verði. Í samræmi við þá heimild var hluthöfum skrifað á s.l. sumri og þeim boðið að selja hlutabréfin á fimmföldu verði með þeim skilyrðum, að hlutaféð yrði greitt með jöfnum afborgunum á 5 árum og venjulegum fasteignavöxtum. Flestir hluthafanna hafa svarað játandi. Af þessum 4 millj. hlutafjár, sem eru í einkaeign, eru hluthafar, sem eiga hlutafé að upphæð kr. 40 þúsund, sem ýmist hafa ekki svarað eða neitað. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að taka eignarnámi þann hluta hlutafjárins, sem ekki fæst keyptur með frjálsu samkomulagi.

Hlutverk Áburðarverksmiðjunnar verður áfram það sama og það hefur verið, eins og frv. ber með sér. Það er gert ráð fyrir, að Áburðarverksmiðjan selji áburðarefni og önnur efni, sem tengd eru áburðarvinnslú, að verksmiðjan hlíti sérstakri stjórn samkvæmt þessum lögum undir yfirstjórn landbrh. Þá er gert ráð fyrir því, að rekstri verksmiðjunnar verði jafnan hagað þannig, að hún sé þess tæknilega og fjárhagslega umkomin að gefa áburðarnotendum kost á eins góðum og ódýrum áburðarefnum og frekast er völ á. Þá er gert ráð fyrir því, að Áburðarverksmiðjan taki við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum Áburðarverksmiðjunnar h.f. 1. maí n.k. og kemur þá að öllu leyti í hennar stað. Það má vera, að það þurfi að breyta þessari dagsetningu með tilliti til þess, hversu stutt er til I. maí. Þá er gert ráð fyrir því, að hlutafélagið Áburðarverksmiðjan verði jafnframt leyst upp, miðað við sama tíma, og hlutabréf, sem þá verða í eign annarra aðila en ríkisins, tekin eignarnámi samkv. ákvæðum 13. og 14. gr. þessara laga. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi Áburðarverksmiðju ríkisins til sem stofnfé hlutafé Áburðarverksmiðjunnar h.f. og ríkissjóður leggi ennfremur til stofnfjárframlag, eins og ákveðið kann að verða í fjárl.

Þá er gert ráð fyrir því, að að því leyti, sem stofnfé hrekkur ekki til greiðslu stofnkostnaðar, verði verksmiðjunni heimilað að taka fé að láni innanlands og utan, enda samþykki ríkisstj. lántökuna samkv. sérstakri heimild í fjárl. hverju sinni.

Þá verði verksmiðjunni heimilað að taka lán og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum til þarfa fyrirtækisins, annarra en stofnkostnaðar. Gert er ráð fyrir, að stjórn verksmiðjunnar verði skipuð 5 mönnum. en í hv. Ed. kom fram tillaga um það, að stjórnarnefndarmenn yrðu 7, þar af 2 tilnefndir, annar af Búnaðarfélagi Íslands og hinn af Stéttarsambandi bænda. Þessi till. var felld í hv. Ed., og sýnist það vera eðlilegt í ríkisfyrirtæki, að ef til þess kæmi að fjölga stjórnarnefndarmönnum, þá yrðu þeir allir kosnir í Alþ., og væri þá vitanlega sjálfsagt og eðlilegt, að þar væru fulltrúar frá landbúnaðinum sérstaklega valdir af þeim flokkum, sem þess óska. Þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að verksmiðjan ráði framkvæmdastjóra fyrir verksmiðjuna, sem hafi prókúruumboð fyrir hana. Að öðru leyti er þetta frv. að mestu leyti eins og lögin um Áburðarverksmiðjuna eru nú, þegar frá er talin sú breyting, að hlutafélagi er breytt í ríkisfyrirtæki, og tel ég út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að rekja frv. nánar.

En við stækkun verksmiðjunnar er gert ráð fyrir því, að verksmiðjan framleiði fjölbreyttari áburð en hún nú gerir og fullnægi áburðarþörf landsmanna, bæði að gæðum og magni. Þess vegna er það, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar sneri sér til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands og óskaði eftir till. frá þessum aðilum um það, hvers konar áburð skyldi framleiða í hinni nýju Áburðarverksmiðju. Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélagið hafa skilað sameiginlegu áliti um það, hvaða áburðartegundir mundu henta íslenzkum landbúnaði bezt, og verður stækkunin gerð með tilliti til þess, að unnt verði að framleiða þann áburð, sem talinn er æskilegastur og beztur fyrir íslenzkan landbúnað. Stefnt er að því að byrja á stækkuninni á þessu ári, og má þá vænta þess, að henni verði lokið snemma á árinu 1971.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svo komnu að hafa fleiri orð um þetta frv., svo kunnugt sem það er hv. alþm., en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.