13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

203. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. gerir nokkrar brtt. við þetta frv. Í fyrsta lagi er þess að geta, að nefndin er sammála um að styðja að því, að frv. nái fram að ganga. En við 6. gr. gerir nefndin þá breytingu, þ.e. varðandi stjórn verksmiðjunnar, að í staðinn fyrir 5 komi 7. Og í öðru lagi, að 4 stjórnarmenn þurfi til þess að skuldbinda verksmiðjuna í staðinn fyrir 3, eins og er í frv. Að athuguðu máli taldi nefndin rétt að gera þessa brtt., en varð ekki sammála um, á hvern hátt stjórnin yrði kosin. Meiri hl. n. leggur til, að stjórnin verði öll kosin hlutbundinni kosningu í sameinuðu Alþingi, en minni hl. hefur lagt til, að stéttarsamtök bænda tilnefni tvo menn í stjórnina.

Ég lít svo á, að öllu réttlæti sé fullnægt, ef fram fer hlutbundin kosning um stjórnina, og tel það öllu eðlilegra heldur en að stéttarsamtökin hafi þar þau forréttindi fram yfir aðrar stéttir að kjósa eða tilnefna 2 menn í stjórnina, þar sem þetta mál varðar alla þjóðina og ekki neitt endilega sérstaklega bændastéttina. Ég ætla, að það séu nógir möguleikar til þess að koma fulltrúum bænda inn í stjórnina með þessum hætti, þar sem þingflokkarnir vilja að sjálfsögðu, a.m.k. sumir og sennilega allir, stuðla að því, að hlutur bænda verði ekki fyrir borð borinn í þessu né öðru.

Þá er annars að geta, að við nánari athugun á frv. eftir að við skiluðum nál. kom í ljós að breyta þurfti nokkrum gr. frv. til samræmis við það, að það er öllu seinna á ferðinni heldur en gert var ráð fyrir í upphafi og tímatakmörk því umliðin, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. 1. maí. Og ég vil leyfa mér að leggja hér fram skriflega brtt. til þess að leiðrétta þetta. Landbn. ræddi þetta atriði í morgun á fundi sínum og leggur til:

Í fyrsta lagi við 3. gr., fyrir orðin „til 1. maí 1969“ komi „hinn 1. júlí 1969“. Og við 13. gr. fyrir „30. apríl 1969“ komi „30. júní 1969“. Og fyrir „hinn 1. maí 1969“ komi „hinn 1. júli 1969“. Við 14. gr., upphaf gr. orðist svo: „Til I. júlí 1969 falla hlutabréf verksmiðjunnar“ o.s.frv. Og við 15. gr. enn fremur, að fyrir orðin „frá 1. maí 1969 til greiðsludags“ komi „frá 1. júlí 1969 til greiðsludags“.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. og óska, að hann taki hana fyrir og leiti afbrigða fyrir henni.