17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að ræða hér verkfallsmálin, né hver það er sem þar sýnir ofbeldi eða ofbeldi ekki. Það getur víst verið töluvert mikið álitamál, hverjir eru fremstir í því. Ég held, að það þjóni engu góðu á þessu stigi, á meðan þau mál eru til meðferðar, að vera að ræða um það hverjir eigi sök á því, að framleiðsla stöðvist og hverjir ekki. Hitt er allt annað mál, að það er alveg rétt og styður það sem ég áðan sagði, að vegna þeirrar miklu óvissu, sem er í sambandi við framleiðslumálin og framleiðslustöðvanir, þá er ákaflega erfitt um vik að gera nokkra viðhlítandi spá á þessu stigi um það, hvernig þróunin verður í ár. Það er margt, sem bendir til þess, eða hefur bent til þess, að þróunin í ár yrði eitthvað betri en á síðasta ári, ef friður gæti haldizt í þjóðfélaginu, þannig að ég held, að það sé ekkert efamál, að þjóðin eigi mikið undir því, og á því geti raunar framtíð hennar næstu árin oltið, að það takist friðsamlega að leysa þau deilumál, sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Það væri mikil þjóðarógæfa, ef það ekki tækist og raunar skylt, að allir velviljaðir menn leggi sig fram um það að leysa þann vanda alveg öfgalaust og með því að viðurkenna þær staðreyndir, sem við blasa, en falli ekki í þá freistni að láta löngun til þess að fiska á gruggugu vatni og reyna að slá pólitískar keilur í því ástandi, sem er, verða ráðandi um afstöðu sína. Hér veltur á allt of miklu fyrir þjóðina til að það megi gerast. Ég ætla því ekki hér að fara að taka þátt í neinu karpi við þennan hv. þm. um það, hver eigi sök á einu eða öðru í þessu efni, þó að það væri vissulega fróðleikur í því að gera sér grein fyrir því, og verða vafalaust tækifæri til þess síðar. En þetta allt veldur því, að það er mjög erfitt um vik, eins og ég áðan sagði, að gera hér heildarframkvæmdarspá, fjárfestingarspá, fyrir árið, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Það er hins vegar sjálfsagt, ef þau mál skýrast, að Alþ. verði gefin, svo fljótt, sem verða má, grg. um þau efni. Það skal ekki standa á mér að gera það eða ræða þau mál. eftir því sem tilefni gefast til.

Varðandi greiðslubyrðina af erlendum lánum er ég hv. þm. algerlega sammála um það, að hún er geigvænlega þung, og hún hefur, eins og oft hefur verið tekið fram, vegna þeirra áfalla, sem þjóðin hefur orðið fyrir, næstum tvöfaldazt á 2 árum. Það er ekki vegna skuldasöfnunar, heldur vegna þess að tekjurnar, sem eiga að standa undir þeirri greiðslubyrði, hafa minnkað. Nú er ákaflega erfitt að gera um það greiðsluspá fram í tímann. Það má auðvitað hugsa sér framleiðsluna eitthvað í svipuðu horfi og hún er nú, en í sannleika sagt þá vona allir, að úr þessu rætist, þannig að tekjur okkar aukist verulega, ef útgerð og önnur framleiðslustarfsemi fær að ganga með eðlilegum hætti, þannig að það væri erfitt, og ég segi nánast hörmulegt, ef við þyrftum að gera ráð fyrir því, að framleiðsla okkar yrði ekki meiri á næstu árum og verðlag hennar ekki hærra en svo, að greiðslubyrðin héldi áfram að vera svona þung. Það sem gerzt hefur síðan þessar staðreyndir lágu fyrir er, að tekin hafa verið 3 erlend lán, eins og hv. þm. réttilega einnig sagði, og hef ég síður en svo við það að athuga, ef menn vilja ræða það mál, og ég er algerlega sammála honum um það, að það þarf að athuga hvert skref, sem stigið er í þessum efnum. Þessi lán eru fyrst og fremst vegna Norðurlands- og Vestfjarðaáætlunar frá Viðreisnarsjóði Evrópu og voru tekin nú um áramótin. Um það voru, að ég hygg, allir hv. þm. sammála eftir atvikum, að eins og málsatvik stæðu, og vegna þeirrar miklu nauðsynjar einmitt að efla atvinnulíf á Norðurlandi og ljúka samgöngukafla Vestfjarðaáætlunar, þá yrði ekki framhjá þessari lántöku komizt, eins og aðstæður væru. Þetta held ég, að hafi verið sameiginlegt mat allra hv. þm. Í annan stað er svo þýzka lánið, sem nú hefur verið tekið til tvenns konar meginþarfa, annars vegar til þess að standa straum af því lánsloforði, sem gefið var í sambandi við samkomulag ríkisstj. við vinnuveitendur og verkalýðssamtök um eflingu atvinnulífsins hér á landi nú og á næsta ári og hins vegar til þarfa Framkvæmdasjóðs ríkisins. Eru þá hafðar í huga beinlínis framkvæmdir, sem eru gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi, og einnig að „konvertera“ stuttum erlendum lánum, þannig að hér gæti ekki orðið um verulega þyngingu á greiðslubyrði að ræða. Þriðja lántakan er sú, sem felst í þessu frv., sem þyngir ekkert greiðslubyrðina með óeðlilegum hætti, vegna þess að hér er um vörukaupalán að ræða, þannig að hér er um nauðsynjavöru að ræða, sem flutt er til landsins, en um það samið, að í stað þess að greiða þessa vöru aftur nema að nokkru leyti, þá skuli meginhluti verðsins standa hér eftir og megi endurlánast hér innanlands. Þetta er sá samningur, sem gerður var við Bandaríkjastjórn samkvæmt PL-480 láni. Hér er því ekki hægt að segja, að hér sé um þyngingu greiðslubyrðar að ræða, þó að þetta lán sé tekið, því að vitanlega þarf að flytja inn þessa vöru og nota til þess erlendan gjaldeyri.

Þetta held ég, að sé það sem ég vildi sagt hafa í tilefni af ræðu hv. þm., en ég get staðfest það, að það er rétt, og algerlega í samræmi við mína skoðun, sem hann sagði, að það er ekki hægt, eins og sakir standa nú, að horfa á það eitt, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að leggja í einar eða aðrar framkvæmdir í landinu og við þurfum þess vegna að taka til þess erlend lán. Við verðum að takmarka lánsfjáröflun okkar við það, sem styrkir gjaldeyrisstöðu okkar. Það er ekkert hættulegt að auka greiðslubyrði okkar með þeim hætti, því það er ekki þar með sagt að hún aukist, heldur á hún þá miklu fremur að léttast þegar frá líða stundir. Það er það meginsjónarmið, sem verður að hafa nú á næstu árum við töku erlendra lána. Um þetta held ég, að þurfi ekki að verða neinn ágreiningur, og ég persónulega er nákvæmlega þessarar sömu skoðunar.