19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

87. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. var til l. umr. hér í þessari hv. þd. í gær, og fylgdi þá hæstv. menntmrh. því úr hlaði. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fjölyrða um efni frv., en í stuttu máli er það það að víkka hóp þeirra, sem geta átt aðild að lánum úr Lánasjóði íslenzkra námsmanna, og þá miðað við það, að það séu nemendur, sem við bætast, sem hafa að baki námsferil, sem svarar til náms á 1. ári í Háskólanum hér eða við erlenda háskóla og erlenda tækniskóla.

Menntmn. hefur athugað þetta frv., og eins og fram kemur í nál. á þskj. 205, mælir n. með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér hins vegar rétt til þess að flytja brtt. við frv. og að fylgja brtt., sem fram kunna að koma.