29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. þetta er hliðstætt frv., sem hér hafa verið flutt á þingi nokkur undanfarin ár í sambandi við svonefnda framkvæmdaáætlun ríkisins. Ég tel þann galla vera á í þessum efnum nú, eins og ég hef minnzt á hér áður, að ég teldi hið eðlilega vera, að sú framkvæmdaáætlun, sem hér er rætt um og ráðgert að afla fjár til, hefði í rauninni átt að liggja fyrir sem heild. En þó að gert sé ráð fyrir því í þessu frv., að þeim fjármunum, sem þar er rætt um, verði ráðstafað eins og segir í frv. og það eitt nægi út af fyrir sig sem sæmileg skýring á því, hvað á að gera við þetta fé, sem um er að ræða, þá verður þó að taka tillit til þess, að hér er aðeins um hluta af þessari svonefndu framkvæmdaáætlun að ræða. Og ég vil finna að þessu nú, eins og ég hef gert hér áður, því að ég tel, að þetta sé verulega gallað. Þá vil ég lýsa þeirri afstöðu minni, að ég er andvígur ákvæðum, sem fram koma í bæði 2. og 3, gr. varðandi hin svonefndu spariskírteinalán, sem ríkið hefur verið að gefa út á undanförnum árum og nú er enn óskað eftir heimild fyrir. Út af fyrir sig er ég ekki á móti því, að ríkissjóður geti fengið rétt til þess að gefa út spariskírteinalán, en þau lánakjör, sem ákveðin hafa verið í þessum efnum, eru með þeim hætti, að ég tel, að þetta lánsútboð sé mjög óeðlilegt, enda er enginn vafi á því, að greiðslur ríkisins af þeim lánum, sem tekin hafa verið með þessum hætti á undanförnum árum, eru orðnar gífurlega miklar, miklu meiri en yfirleitt er greitt í vexti og afborganir af lánum. Þá er ákvæði í 3. gr., þar sem rætt er um það, að þessi spariskírteini skuli vera undanþegin framtalsskyldu, það tel ég mjög gallað ákvæði. Það er enginn vafi á því, að það opnar möguleika til skattsvika og ég ætla, að það sé viðurkennt fullkomlega af öllum yfirmönnum skattamála í landinu, að þannig er því varið. Ég tel því, að þetta ákvæði ætti að taka breytingum, og ég mun verða á móti 3. gr. frv. nú, eins og ég hef verið áður, þegar um sambærileg mál hefur verið hér að ræða.

Ég er sammála skiptingunni á þeim fjármunum, sem hér er um að ræða í þessu frv. og fram kemur í 7. gr., í ýmsum atriðum eða mörgum liðunum, en hins vegar er ég ekki sammála því að verja þessu fé að öllu leyti eins' og segir í þessari gr. Ég fyrir mitt leyti tel margt annað meira aðkallandi hjá okkur nú en taka sérstakt lán til þess að halda áfram byggingu lögreglustöðvarinnar í Reykjavík til viðbótar við þá fjármuni, sem veitt hefur verið á fjárl. í því skyni. Ég er andvígur því að verja þessu lánsfé á þennan hátt. Og fleiri liðir eru þarna nefndir, sem ég fyrir mitt leyti mundi ekki leggja áherzlu á að ráðstafa lánsfé ríkissjóðs í, eins og nú er ástatt.

Þá er einnig þess að geta, að ég tel, að það væri full ástæða til þess, að ríkið tæki lán til þess að sjá um vissar framkvæmdir í landinu, sem nú hafa dregizt óeðlilega aftur úr, eða ekki hafa fengið hvorki fjárveitingu á fjárl. né fyrirgreiðslu um lánsútvegun, en séu þó mjög aðkallandi mál, og því hef ég leyft mér að flytja hér brtt. við frv., þar sem gert er ráð fyrir viðbótarheimild handa fjmrh. til lántöku í ákveðnu augnamiði. En till. mín verður að flytjast hér sem skrifleg till. og vil ég vænta þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni og hún geti komið hér undir atkv. við þessa umr., en till. er á þessa leið:

„Á eftir 6. gr. komi ný gr. svohljóðandi: Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán innanlands eða utan allt að 40 millj. kr., sem varið verði a) til Byggingarsjóðs verkamanna, kr. 20 millj., b) til Félagsheimilasjóðs, kr. 20 millj.“

Ég veit, að allir hv. alþm. þekkja það, að Byggingarsjóður verkamanna hefur verið í mikilli fjárþröng nú um langan tíma, hefur dregizt stórkostlega aftur úr með að geta sinnt fyrirliggjandi lánabeiðnum, og ég tel, að það sé mjög illa farið, að þeim sjóði sé ekki sinnt a.m.k. til jafns við aðra byggingalánasjóði, sem ríkið hefur með að gera. Af þessum ástæðum legg ég það til, að ráðh. fái heimild til þess að taka lán fyrir þennan sjóð, sem nemur 20 millj. kr. Þá er það ekki síður kunnugt, hvernig ástatt er hjá Félagsheimilasjóði með hans fjárskuldbindingar og í sambandi við þau verkefni, sem hann hefur með að gera. Það mál var rætt á Alþ. fyrir stuttu, og ég efast ekki um, að allir hv. alþm. viðurkenni, að það er brýn þörf á því að afla þeim sjóði nýrra tekna eða möguleika til þess að geta haldið uppi þeim fjárgreiðslum, sem hann hefur raunverulega tekið að sér að sjá um. Ég legg því til, að ráðh. fái heimild til þess að taka lán fyrir Félagsheimilasjóð, sem nemur 20 millj. kr., og ég dreg enga dul á það, að ég tel, að hér sé um miklu þýðingarmeiri mál að ræða, sem meiri ástæða sé til að afla fjár til en til ýmissa þeirra liða, sem taldir eru upp í 7. gr. frv., þar sem ríkisstj. hefur ráðstafað eftir sínum geðþótta 225 millj. kr. til ýmiss konar framkvæmda, margra mjög þarfra en annarra að mínum dómi heldur vafasamra.

Mín afstaða til þessa frv. er því þessi. Ég flyt þessa brtt. við frv. um viðbótarheimildir, og hef fyrirvara um afstöðu til 2. og 3. gr. frv. Svo vildi ég vænta þess, að hæstv. forseti leitaði afbrigða fyrir þessum skrifl. till. mínum.