29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Brtt. sú, sem hér liggur fyrir frá hv. fjhn. á þskj. 577 um heimild til þess að taka að láni allt að 1 millj. d. kr. vegna viðgerðar á húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, er flutt að beiðni þingforseta og í samráði við hæstv. fjmrh. Leyfi ég mér að þakka ráðh. og n. góðar undirtektir við málið. Jafnframt vil ég nota þetta tækifæri til þess að efna loforð, er ég gaf hv. 1. þm. Norðurl. v. nýlega í Sþ., um að gera þingheimi grein fyrir helztu atriðum þessa máls.

Eins og kunnugt er bjó Jón Sigurðsson í húsinu við Östervoldgade 12, sem kallað er á íslenzku Austurveggur 12, í Kaupmannahöfn frá árinu 1852 til dauðadags árið 1879, eða í 27 ár. Húsið er á ákjósanlegum stað í borginni og í fögru umhverfi. Þegar Jón Sigurðsson flutti í það var húsið alveg nýtt og á þeirrar tíðar vísu með glæsilegri íbúðarhúsum. Varð þar fljótlega mjög gestkvæmt á heimili forsetans, og kemst Páll Eggert Ólason svo að orði í ævisögu hans, að húsið við Austurvegg hafi um ævi Jóns verið höfuðból alls félagslífs með Íslendingum í Kaupmannahöfn, háum sem lágum.

Nú eru liðin um 120 ár síðan saga þessa húss hófst. Á þeim tíma hefur margt breytzt. M.a. hefur farið af húsinu sá glans, sem á því hefur verið um daga Jóns Sigurðssonar, en staðurinn, sem það stendur á í borginni, og umhverfi þess er eftir sem áður hið ákjósanlegasta. Rétt hjá því eru húsakynni tækniháskólans. Úr gluggum á 3. hæð, þar sem Jón Sigurðsson bjó, er ágætt útsýni yfir fagran trjágarð.

Húsið er fjórar hæðir, sem leigðar hafa verið út til íbúðar. Í kjallara hefur verið ýmiss konar iðnaður, m.a. reiðhjólaverkstæði, svo sem kunnugt er af gamalli mynd. Nú síðast var þar beykisverkstæði. Umgangur leigjenda hefur verið misjafn og viðhald ófullnægjandi, þannig að um langan tíma hefur húsið við Austurvegg 12 verið ósköp venjulegt gamalt hús, traustbyggt hið ytra, en hrörlegt að innan, og langt frá því að fullnægja nútímakröfum um ýmis þægindi í íbúðarhúsum. Það eina, sem minnir á veru Jóns Sigurðssonar í húsinu, er koparplata utan á því, þar sem þess er getið, að forsetinn hafi átt þar bústað. Húsgögn Jóns Sigurðssonar eru, svo sem kunnugt er, í Þjóðminjasafni okkar. Hinn merki maður Tryggvi Gunnarsson á heiðurinn af því að hafa forðað þeim munum frá glötun.

Grunnflötur lóðarinnar er 177 fermetrar, en grunnflötur hússins er 157 fermetrar. Á hverri hæð er mjór gangur meðfram bakhlið, lítið kamers, tvær stofur, tvö svefnherbergi, vatnssalerni, eldhús og búr. Auk aðaluppgangs er eldhúsuppgangur á allar hæðirnar. Rafmagn í húsinu er eingöngu til ljósa. Til eldunar er notað gas.

Skal ég nú víkja að því, hvernig húsið við Austurvegg 12 komst í eigu Carls Sæmundsens stórkaupmanns, sem síðan gaf það íslenzku þjóðinni. Carl Sæmundsen er fæddur 14. febrúar 1886. Foreldrar hans voru Pétur Júlíus Jósefsson Sæmundsen, verzlunarstjóri á Blönduósi og kona hans, Magdalena Margrét Eðvarðsdóttir Möller. Hann lauk stúdentsprófi hér í Reykjavík 1905 og hélt að því loknu til Danmerkur, þar sem hann hugðist læra augnlækningar. Lauk hann cand. phil. prófi árið 1907, en hvarf þá frá háskólanámi og innritaðist í Brochs Handelsskole og lauk þaðan prófi í verzlunarfræði. Síðan hefur hann rekið eigin fyrirtæki og oft greitt fyrir sölu íslenzkra afurða erlendis, og jafnan haldið við vináttu og viðskiptasamböndum hér heima. Hann starfar enn við fyrirtæki sín, þrátt fyrir háan aldur, og ferðast mikið.

Þessi ágæti Íslendingur, sem nú er á níræðisaldri, stefndi að því í 50 ár að eignast hús Jóns Sigurðssonar með það fyrir augum að gefa það síðan íslenzka ríkinu. Honum tókst um síðir að festa kaup á húsinu, en markmið hans var að afhenda húsið skuldlaust. Hélt hann þess vegna áfram að leigja það, eins og fyrri eigendur höfðu gert, en jók til mikilla muna viðhald þess og forðaði því frá frekari niðurníðslu. Carli Sæmundsen hefur alla tíð verið það mikið hjartans mál, að Austurveggur 12 yrði varanlegt minnismerki um Jón Sigurðsson og störf hans. Einnig hefur hann talið, að þar væri rétti staðurinn til þess að upplýsa Dani um, hvað hefur gerzt og er að gerast á Íslandi eftir að landið fékk sjálfstæði. Álítur hann mikilvægt og í anda Jóns Sigurðssonar, að milli Íslendinga og Dana ríki gagnkvæm vinátta á jafnréttisgrundvelli og vill, að húsið sé tákn um samúð og samstarfsvilja þjóðanna.

Að því kom svo á áttræðisafmæli Carls Sæmundsens þann 14. febrúar árið 1966, að hann tilkynnti sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, að hann hefði ákveðið að bjóða íslenzka ríkinu húsið að gjöf. Sendiherrann, Gunnar Thoroddsen, óskaði þess þá, að svar við þessu höfðinglega boði yrði sent samdægurs. Urðu forsetar Alþingis við þeirri ósk, að höfðu samráði við formenn þingflokkanna og svohljóðandi fréttatilkynning var gefin út frá Alþingi um málið þennan sama dag: „Tilkynning frá Alþingi.

Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Carli Sæmundsen stórkaupmanni þar í borg: „Á 80 ára afmælisdegi mínum er mér ljúft að staðfesta, að ég hef ákveðið að gefa íslenzka ríkinu (Alþingi) húseign mína, Östervoldgade 12. Í því húsi bjó Jón Sigurðsson forseti um langt árabil. Var þar þá samkomustaður Íslendinga og athvarf fyrir íslenzka menningu: Ef íslenzka ríkið þiggur þessa gjöf, er mér ljúft að ræða sem fyrst nánar um form afhendingarinnar.“

Forsetar Alþingis hafa í dag sent gefandanum eftirfarandi skeyti:

„Alþingi árnar yður heilla á áttræðisafmælinu, og þiggur með þökkum hina stórhöfðinglegu gjöf yðar, sem ætluð er til að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og minna á Ísland og íslenzka menningu í Kaupmannahöfn. Er þess vænzt, að bráðlega gefist tækifæri til að ráðgast við yður um það, á hvern hátt þessu markmiði verði bezt náð.“

Þann 17. júní 1966 afhenti svo Carl Sæmundsen Alþingi afsal fyrir húsinu skuld- og kvaðalausu. Hálfrar aldar draumur hans hafði þar með rætzt, og húsið við Austurvegg 12 í Kaupmannahöfn var orðið eign íslenzku þjóðarinnar fyrir atbeina hans og þrotlaust starf. Ég hef kynnzt Carli Sæmundsen í sambandi við þetta mál og haft mikla ánægju af þeim kynnum. Hann er sannur Íslendingur, minnugur og margfróður og ungur í anda. Íslenzka þjóðin stendur í þakkarskuld við hann fyrir að bjarga húsi Jóns Sigurðssonar frá gleymsku og eyðileggingu.

Sú spurning vaknaði að sjálfsögðu um leið og húsið var gefið, hvernig því yrði bezt ráðstafað þannig, að tilgangi gefandans yrði náð. Hefur það mál síðan stöðugt verið til umr. milli þingforseta og sendiráðsins annars vegar, en Carls Sæmundsens hins vegar. Ýmsar till. hafa komið fram um þetta og verið athugaðar, en áður en ég vík að þeim vil ég með fáeinum orðum skýra frá, hvað gera þurfti, áður en unnt væri að taka endanlegar ákvarðanir um viðgerð á húsinu og framtíðarnotkun þess.

Eins og fyrr segir var húsið allt í leigu, þegar Carl Sæmundsen gaf það. Húsaleigulög eru ströng í Danmörku. Óheimilt er að segja upp leigjanda, nema honum sé útveguð önnur íbúð jafngóð og með hliðstæðum leigumála. Einnig er bannað í Kaupmannahöfn að taka íbúðarhúsnæði til annarra nota, nema með sérstöku leyfi borgaryfirvalda. Sé slíkt leyfi veitt, ér sá, sem það fær, skyldugur til þess að sjá um, að jafnmargar nýjar íbúðir verði til og þær, sem lagðar eru niður. Af þessum ástæðum var það ljóst þegar í upphafi, að ekki mundi auðvelt að losa húsið úr leigu og að það eitt mundi taka talsverðan tíma.

Haustið 1966 ákváðu þingforsetar, að gerðar skyldu ráðstafanir til að rýma húsið. Skyldi öllum leigjendum sagt upp, og jafnframt reynt að afla nauðsynlegra leyfa hjá dönskum stjórnvöldum til þess að taka húsið til sérstakra nota í Íslands þágu. Var sendiráðinu falið að annast þessar aðgerðir, sem engan veginn var auðvelt að framkvæma vegna hinna ströngu húsaleigulaga, sem ég gat um. En sendiherra okkar í Danmörku, Gunnar Thoroddsen, hefur mikinn áhuga á þessu máli og tókst honum af alkunnri lagni að leysa vandann með aðstoð velviljaðra danskra aðila. Þegar sendiherrann hafði skýrt málin fyrir borgarstjórum Kaupmannahafnar og öðrum stjórnvöldum, sem hlut áttu að máli, fengust nauðsynleg leyfi til þess að rýma húsið, breyta því og taka það til afnota sem „Islands Kulturhus.“ Öllum leigjendum var síðan útvegað annað húsnæði, sem þeir töldu viðunandi, og hafði tekizt að rýma húsið að fullu í ágústmánuði s.l. Eftir að leigjendum tók að fækka í húsinu varð ljóst, að þörf væri á eftirliti með því. Var þá beykirinn, sem áður leigði í kjallaranum, ráðinn til eftirlits með húsinu frá septemberbyrjun 1967.

Þingforsetar, skrifstofustjóri Alþingis og sendiherra Íslands í Danmörku hafa margsinnis átt ítarlegar viðræður við gefanda hússins, Carl Sæmundsen stórkaupmann, um framtíðarnotkun þess. Síðast var um þetta rætt hér í Reykjavík í byrjun desembermánaðar. Hugmyndir aðila fara saman hvað snertir notkun 4., 3. og 2. hæðar, en varðandi notkun 1. hæðar og kjallarans skilja leiðir. Gert er ráð fyrir, að á 4. hæð verði íbúð húsvarðar. Á 3. hæð, þar sem Jón Sigurðsson bjó, verði hin gamla íbúð hans búin munum til minningar um hann. Á 2. hæð yrði íbúð fyrir íslenzkan vísinda- eða fræðimann. Varðandi notkun 1. hæðar leggur Carl Sæmundsen til, að þar verði ýmsar skrifstofur og bókaherbergi. Kjallarann telur hann að nota megi til sýningar á íslenzkum afurðum.

Till. þingforseta um notkun 1. hæðar og kjallara eru aftur á móti þær, að á 1. hæð verði félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn og að kjallarinn verði hagnýttur í sambandi við það. Yrðu þá fatageymslur, snyrtiherbergi, kyndiklefi og e.t.v. tómstundaherbergi og sýningarherbergi í kjallaranum. Á 1. hæð yrði fundarsalur fyrir 80–100 manns, eldhús, setustofa, bókaherbergi og skrifstofa. Tvö íslenzk félög starfa í Kaupmannahöfn, Íslendingafélagið og Félag ísl. stúdenta í Höfn. Hugmyndin um félagsheimili Íslendinga í húsi Jóns Sigurðssonar er frá þessum félögum komin. Til þess að skýra hugmyndina nánar skal ég með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp grg. um málið, sem fyrirsvarsmenn félaganna sendu frá sér haustið 1966. En áður en ég hef þann lestur vil ég láta þess getið, að talið er, að í Kaupmannahöfn og næsta nágrenni hennar séu að staðaldri á 3. þúsund Íslendingar búsettir og við nám. Hef ég þá lestur greinargerðarinnar.

„Um félagsheimili fyrir Íslendinga í húsi Jóns Sigurðssonar.

Inngangur.

Á s.l. vetri hófu Íslendingafélagið og Félag ísl. stúdenta í Kaupmannahöfn könnun til undirbúnings lausnar á húsnæðisþörfum íslenzkrar félagsstarfsemi í Kaupmannahöfn. Athugaðir voru t.d. möguleikar á kaupum einbýlishúss. Í áliti n., sem fjallaði um húsnæðismálin, voru dregnir fram þeir höfuðeiginleikar, sem krefjast þyrfti af slíkri húseign, ef koma skyldi að notum. Er Carl Sæmundsen stórkaupmaður gaf Alþingi Íslands hús Jóns Sigurðssonar við Austurvegg opnuðust nýir og vænni möguleikar. Forystumenn félagsmála hér hafa átt samvinnu við Gunnar Thoroddsen sendiherra, sem hefur sýnt viðhorfum félaganna mikinn áhuga og hvatt félögin til að gera ítarlega grein fyrir óskum sínum. Því er hér með ráðizt í að rita stutt álit. Till. eru gerðar áþreifanlegri með því að styðjast við uppdrátt á skipan húsakynna á 1. hæð hússins við Austurvegg. Uppdráttinn gerði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt, og fylgir uppdrátturinn sem fskj. Stuðzt er við álit ofangreindrar nefndar. Óskir félaganna um húsrými og nýtingu þess eru raktar í nokkrum liðum, 1–8. Þá eru örfá orð til áréttingar um búnað og rekstur félagsheimilis.

Herbergi félagsheimilis og nýting þeirra. 1.

Fundarsalur.

Hann þarf að vera 60–70 fermetrar.

a. Salurinn verði opinn öllum Íslendingum tvö föst kvöld í viku. Á þessum kvöldum yrði engin ákveðin dagskrá, en það lægju frammi ný íslenzk dagblöð, tímarit og bækur.

b. Önnur kvöld verði t.d. aðstaða fyrir kvöldvökur, tónlistarkynningar, bókmenntakynningar, skák og spilakvöld, sérstakar samkomur fyrir eldra fólk, umræðufundi og aðra félagsfundi.

c. Halda mætti almennar guðsþjónustur fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn í fundarsalnum.

Aths. Á vegum Félags ísl. stúdenta í Kaupmannahöfn hafa íslenzk blöð legið frammi eitt kvöld í viku á kaffistofu háskólans, en hvort tveggja er, að húsnæði þetta er óhentugt og varla til frambúðar og auk þess ætlað stúdentum einum til afnota. Ekki er gert ráð fyrir, að fundarsalurinn fullnægi þörfum félaganna til stærri samkomuhalda, svo sem fullveldisfagnaðar, þorrablóts, Þorláksblóts, sumarfagnaðar, lýðveldisfagnaðar og guðsþjónustu á stórhátíðum. Á hinn bóginn opnar félagsheimilið möguleika á ýmissi nýbreytni í félagsstarfsemi, sem húsnæðisskortur hamlar nú. Á síðustu árum hefur t.d. þráfaldlega hent, að ekki hefur verið unnt að nýta góða krafta, sem hér eru á skjótri ferð, þar eð oft eru vandfundnir hentugir salir með stuttum fyrirvara. Með tilkomu félagsheimilis yrði komið í veg fyrir slíkt, enda ekki gert ráð fyrir, að húsnæðið verði notað til annars en íslenzkrar félagsstarfsemi í Höfn.

2. Eldhús.

Nauðsynlegt er, að unnt sé að fá framreitt kaffi, kökur, öl, gosdrykki þau kvöld, sem félagsstarfsemin fer fram og eftir guðsþjónustur. Aths. Hentugt gæti verið að fela húsverði veitingasölu.

3. Setustofa.

Þar verði aðstaða til þess að hlusta á tónlist og horfa á sjónvarp. Þá verði þar þægilegur aðbúnaður til stjórnarfunda félaganna og annarrar félagsstarfsemi smærri hópa.

4. Skrifstofa félaganna.

Skrifstofa er nauðsynlegur samastaður fyrir eigur félaganna, spjaldskrá um félaga og aðra Íslendinga í Kaupmannahöfn og nágrenni, þar verði einnig aðstaða til fjölritunar og annarrar þjónustu félaganna. Nauðsynlegt er, að þetta herbergi sé eingöngu skrifstofa. Aths. Margir landar dvelja skamman tíma í Höfn, og eru því oft skipti á embættismönnum félaganna. Það hefur í för með sér, að eigur félaganna eru á sífelldum flækingi og hætt við, að þær glatist. Þetta á einkum við Félag ísl. stúdenta í Kaupmannahöfn. Eigin skrifstofa yrði því til mikilla hagsbóta.

5. Skrifstofa fyrir íslenzka prestinn í Kaupmannahöfn. Æskilegt væri, að íslenzki presturinn fengi starfsaðstöðu í húsi því, sem yrði miðstöð íslenzkrar félagsstarfsemi. Skrifstofuna yrði að staðsetja á annarri hæð en félagsheimilið.

6. Bókaherbergi.

Til er vísir að bókasafni, en starfsemi þess hefur legið niðri um skeið vegna húsnæðisskorts. Þessu herbergi yrði að ætla rúm á annarri hæð en þeirri, sem tillöguuppdrátturinn sýnir.

7. Tómstundaherbergi.

Tómstundaherbergi mætti staðsetja í kjallara. Æskileg er aðstaða til borðtennis, ljósmyndavinnu o.s.frv.

8. Geymsla, fatahengi og snyrtiherbergi.

Herbergi þessi yrði að staðsetja í kjallara hússins. Búnaður og rekstur félagsheimilis við Austurvegg.

Að fenginni aðstöðu til félagsheimilisrekstrar í húsi Jóns Sigurðssonar myndu félögin að sjálfsögðu afla nauðsynlegs húsbúnaðar vegna félagsstarfseminnar og sjá um endurnýjun hans. Einnig bera félögin allan kostnað af daglegum rekstri félagsheimilisins og annast stjórn þess í samvinnu við húsvörð, sem vafalaust verður ráðinn.

Með þessari greinargerð viljum við undirritaðir leggja áherzlu á eftirfarandi:

Húsið við Austurvegg yrði á greindan hátt ómetanleg lyftistöng fyrir félagsstarfsemi Íslendinga í Kaupmannahöfn og stuðlaði að jákvæðri tómstundaiðju Íslendinga, sem hér dveljast við nám eða störf. Þótt Alþingi Íslands veitti íslenzku félögunum í Höfn aðbúnað í húsinu, ætti það alls ekki að auka því kostnað við daglegan rekstur húseignarinnar. Íslendingar í Kaupmannahöfn mundu heils hugar fagna húsnæðinu og vinna samhuga að því að gera það að verðugum minnisvarða um heimili Jóns Sigurðssonar.

Kaupmannahöfn, 8. nóvember 1966.

Elías Elíasson,

Stefán Karlsson, Jónas Gíslason,

Þorvaldur Búason.“

Lýkur þar með greinargerð stúdenta í Kaupmannahöfn um félagsheimili.

Sem fyrr segir er Carl Sæmundsen andvígur þessum hugmyndum um notkun hússins. Hlýt ég að harma, að ekki skuli hafa tekizt að jafna ágreining um þetta efni milli hans og þingforseta. Hann hefur haldið fram þeirri skoðun, að húsið þurfi ekki að vera íslenzka ríkinu fjárhagsleg byrði, ef till. hans yrði fylgt. Það er þegar komið fram, að félögin tvö í Höfn munu kosta rekstur félagsheimilisins. Þau eiga um 80 þús. d. kr. í sjóði, sem þau munu nota til kaupa á húsbúnaði. Að þessu leyti verður því ekki um fjárhagslega byrði að ræða fyrir ríkið. Hins vegar er það skoðun þingforseta, að óhjákvæmilegt sé, að ríkið kosti gagngera viðgerð á húsinu án tillits til þess, hver notkun þess verður. Sjálfsagt er þó að kanna allar færar leiðir til þess að rekstur hússins hvíli ekki þungt á ríkissjóði.

Þingflokkarnir hafa fallizt á till. þingforseta um notkun hússins, og hefur Carli Sæmundsen verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi dags. 19. þ. m. Jafnframt hafa þingforsetar lýst því yfir, að þeir séu eftir sem áður fúsir til viðræðna við hann um notkun hússins og að þeir muni taka til athugunar allar till. frá honum, er þar að lúta.

Skal ég þá víkja að viðgerðinni og viðgerðarkostnaðinum og þeirri till. um lántöku, sem hér liggur fyrir. Láni því, sem ráðgert er að taka, á að verja til viðgerðar og endurbyggingar á húsinu við Austurvegg 12. Um undirbúning verksins og sjálfa lántökuna segir svo í grg. Gunnars Thoroddsens sendiherra til forseta Alþingis, dags. 14. desember s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að gera athugun á húsinu og till. um breytingar og viðgerðir var fenginn samkv. ábendingu húsameistara íslenzka ríkisins danskur húsameistari, Eske Christensen að nafni, konunglegur byggingareftirlitsmaður. Hefur hann lokið öllum teikningum og tæknilegum undirbúningi. Leyfi byggingaryfirvalda, brunamálaeftirlits og skipulagsstjórnar liggja fyrir.

Augljóst var frá upphafi, að það mundi kosta mikið fé að þiggja þessa veglegu gjöf, ef ætti að búa húsið í það horf, að maklegt væri minningu Jóns Sigurðssonar og kæmi um leið að hagnýtu gagni fyrir Ísland. Húsið er rösklega aldar gamalt. Mörg nútíðarþægindi vantar, svo sem miðstöðvarlögn. Þótt Carl Sæmundsen léti endurbæta margt meðan hann var eigandi hússins, er mikil þörf umbóta og viðgerða á gluggum, þaki, rafmagns-, vatns- og skolplögnum og ýmsu öðru, hver sem notkun hússins verður. Áætlun hins danska húsameistara er sú, að kostnaður geti numið allt að einni millj. danskra kr. Samráð hafði sendiráð einnig við tvo aðra menn danska, er mikla reynslu hafa um húsasmíðar í Danmörku og telja þeir þessa áætlun óþarflega háa. Þrátt fyrir það mun varlegast að reikna með allt að 1 millj. d. kr. Þar sem ríkissjóður Íslands hefur nú sem fyrr í mörg horn að líta um fjárútlát, og efnahagsörðugleikar óvenjulegir, hef ég kannað lánsmöguleika í Danmörku. Sendiráðið hefur í mörg ár haft viðskipti við traustan og vel metinn sparisjóð, Sparekassen Sjælland, sem til skamms tíma hét Den Sjællandske Bondestands Sparekasse. Liggur nú fyrir loforð frá sparisjóðnum um byggingarlán fyrir allri upphæðinni. Vextir á byggingartíma eru 81/2%. Gert er ráð fyrir, að breytingum og viðgerðum mætti ljúka á einu missiri. Að þeim loknum verður húsið metið. Verður byggingarláninu þá breytt í 30 ára skuldabréfalán með 7% vöxtum. Nokkur afföll eru við sölu slíkra skuldabréfa, en reynt mundi verða að selja þau við sem hagstæðustu gengi.“

Lýkur þar tilvitnun í skýrslu sendiherra. Ég vil benda á, að það sem sendiherrann segir í grg. um samþykki skipulagsstjórnar, er mjög mikilvægt. Er það vegna þess, að samkv. aðalskipulagi Kaupmannahafnar er gert ráð fyrir, að tekin verði sneið af Austurvegg 12 undir götu. Með því að veita umrætt leyfi til gagngerðrar viðgerðar á húsinu, hafa skipulagsyfirvöld borgarinnar því viðurkennt í raun, að þessi skipulagsbreyting komi ekki til framkvæmda í fyrirsjáanlegri framtíð.

Með því, sem ég nú hef rakið, vænti ég, að hv. þm. hafi fengið upplýsingar um það, sem mestu máli skiptír varðandi hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn. Þingforsetar vona, að það verði í reynd Islands Kulturhus, eins og farið er að kalla það, og að þar verði minning Jóns Sigurðssonar forseta jafnan í heiðri höfð, eins og gefanda hússins hefur dreymt um í hálfa öld.