09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði nú eiginlega ætlað mér að tala örlítið til fjmrh., en ég sé, að hann er ekki hérna inni, og þykir mér það mjög illt. Ég er einn af þessum fjórum, sem standa að brtt. á þskj. 632 um að ríkisstj. sé heimilað að taka að láni 20 millj. til Kvensjúkdóma- og fæðingardeildar Landspítalans. Það, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. var, að það væri alveg óhugsandi, að það væri hægt að hefja framkvæmdir á þessu ári, og hann skaut sér á bak við það, að það mundi ekki vera hægt að byrja vegna þess, að það stæði á teikningum af þessu húsi, og það mundi þurfa heilt ár, að mér skildist, til að ljúka þessum teikningum. En hver er það af hv. alþm., sem trúir þessu, að það taki heilt ár að ganga þannig frá teikningum, að það sé hægt að hefja framkvæmdir? Ég skil varla, að það séu margir sem hafa átt við byggingar, en það er náttúrlega enginn vandi að vinna þannig að þessu, að það sé hægt, að það þurfi að bíða eftir því í heilt ár, en ef vilji er fyrir hendi, þá fullyrði ég a.m.k., að það þurfi ekki að taka marga mánuði, þannig að þessi fyrirsláttur er algerlega haldlaus. Ég hefði bara gaman af því, að það væru fleiri arkitektar til kvaddir en húsameistari ríkisins um þetta mál og heyra þeirra álit á því, hvort þess þurfi. Það er búið að ákveða, að þetta hús skuli vera svona stórt, 1000 fm á þrem hæðum, það er komin frumteikning. Ég segi þetta af þeirri reynslu, sem ég hafði af þessum málum. Ég hef að vísu rætt þetta við arkitekta, en ekki sem ég get nefnt hér, og þeir trúa því ekki frekar en ég, þannig að það er óhætt fyrir hv. alþm.samþ. það þess vegna. Það trúir því enginn, að það væri ekki hægt að ryðja þessum þröskuldi úr vegi, ef vilji væri fyrir hendi á annað borð. Ef hægt er að taka að láni og forsvaranlegt 150 millj. í Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn og ýmislegt annað, sem hér er ráðgert, þá finnst mér það hálf svona lágkúrulegt, ef þessi till. verður felld og skotið sér á bak við þetta, sem allir hljóta að sjá að er fyrirsláttur einn og ekkert annað.