13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Nú við 1. umr. um þetta frv. hef ég aðeins áhuga á því áð koma á framfæri örfáum aths., en geyma allar verulegar umr. um málið til 2. umr.

Hér er, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, hluti af framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkissjóðs fyrir árið 1969, annar þáttur þess máls, hinn þátturinn fer fram hjá Framkvæmdasjóði. Ég mun ekkert endurtaka af því, sem ég sagði hér við umr. um lántöku vegna Framkvæmdasjóðs á sínum tíma, að ég hefði að vísu talið, að það hefði verið æskilegra, að Alþ. væri gerð grein fyrir skiptingu þess fjár, sem aflað er til Framkvæmdasjóðs, en með því að það er þingkjörin stjórn, sem fer með málefni sjóðsins, þá tel ég það ekki skipta meginmáli, og sérstaklega, þegar litið er til þess, að með því frv. fylgdi allítarleg greinargerð um fyrirhugaða ráðstöfun lánsfjárins til þarfra og merkra framkvæmda.

Þau verkefni, sem ætlað er að vinna fyrir þetta lánsfé hér, eru flestöl og öll hin þörfustu, og mun ég ekki hafa uppi neinar aðfinnslur við þau. Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hér væri ekki um óskalista að ræða, en einhvers staðar verða þm. nú að koma fram óskum sínum og hugmyndum um það í hvaða verkefni eigi að ráðast, og hvað er þá eðlilegra en að fella það inn í frv., sem einmitt gera ráð fyrir fjármögnun þarfra hluta?

Hæstv. ráðh. gat þess, að í meðförum Nd. hefði ein till. verið tekin til greina. Ég hef að vísu ekkert á móti því, að það sé gert við hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, en ýmsar aðrar framkvæmdir finnst mér nú satt að segja eins þarfar, og sumar þeirra var nú flutt till. um í hv. Nd., eins og t.d. margnefnda viðbyggingu við kvensjúkdómadeild Landspítalans. Það er að vísu nokkru hærri fjárhæð, sem farið var fram á til þeirra framkvæmda, heldur en það kostar að gera við hús Jóns Sigurðssonar, en viðgerð á húsi Jóns Sigurðssonar var tekin fram yfir þetta nauðsynjamál. Ég er nú ekkert sérlega hrifinn af því, þó að ég viðurkenni það, að það er skömm að því að eiga húsið, eins og það er. Það var ekki till. hæstv. fjmrh., kannske greiðir hann henni þá ekki atkv., þegar hún kemur hér fyrir Ed., ég veit ekki um það enn þá, það kemur í ljós.

En það, sem ég vildi nú aðallega koma á framfæri um þetta frv., er hin innlenda fjáröflun. Það er auðvitað öllum ljóst, að æskilegast er að fjármagna sem mest af framkvæmdum ríkisins fyrir innlent lánsfé. Mér finnst ég eiginlega mega til að flytja hér svipaða ræðu, eins og ég hef gert undanfarin ár, þegar þessi fjáröflun með sölu skuldabréfa og spariskírteina er til meðferðar.

Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð, hvernig útlánamöguleikum viðskiptabankanna er háttað. Hæstv. fjmrh. þekkir það eins vel og ég og veit, að þar er við erfitt verkefni að fást. Engu að síður er hér gert ráð fyrir því að afla lánsfjár að upphæð 75 millj. kr. með sölu á verðtryggðum skírteinum, sem eru nú, eins og jafnan, boðin fram með þannig kjörum, að bankarnir geta ekkert slíkt boðið, og ef að vanda lætur, þá munu þessi skírteini seljast vel, og ráðstöfunarfé viðskiptabankanna minnka að sama skapi. Ég hef hér ásamt fleiri þm. í vetur flutt þáltill. um það, að nú í bili verði hætt að binda hluta af sparifjáraukningunni, eins og gert hefur verið undanfarin ár, og ég skal ekki fara langt út í rökstuðning þess. Hann er, eins og allir þm. þekkja sá, að það beri að hafa aðra fjármálastjórn í erfiðum árum en viðhöfð var, þegar mikið framboð var á fjármagni.

Ég satt að segja hélt það, þegar þessi mál voru rædd í Sþ. rétt fyrir jólin, og hæstv. forsrh. talaði mjög skynsamlega um það, að mínum dómi, að það þyrfti að auka fjármagn til atvinnuveganna, að þá mundi sú stjórn, sem fer með yfirstjórn þessara mála, slaka til á bindingunni. Ekkert slíkt hefur gerzt. Það hefur að vísu verið aukið eitthvað lán til sérstakra greina atvinnuveganna úr Seðlabankanum, það viðurkenni ég, en engin tilslökun hefur farið fram á bindingu sparifjárins. Nú í gær síðast voru bankastjórar viðskiptabankanna kallaðir í árlega heimsókn til ráðh. og seðlabankastjóra til þess að semja um framlög bankanna til framkvæmda á næsta ári, ef ég veit rétt. Þar mun hafa verið um 10% fjármögnun af sparifjáraukningu að ræða, eins og verið hefur. Allt þetta hnígur í sömu átt, að takmarka ráðstöfunarfé bankanna. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fjölyrða um þetta, ég vek athygli á þessu, eins og ég hef gert við sams konar umr. hér á fyrri árum. Þá vil ég enn fremur lýsa þeirri skoðun minni, eins og ég hef löngum gert, í sambandi við 3. gr. frv., að ríkisskuldabréfin og spariskírteinin eigi ekki að vera undanþegin framtalsskyldu, og að þau eigi þvert á móti að telja fram og nota þetta að hluta til í baráttunni við skattsvikin.

Ég er alveg sammála því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að eins og nú standa sakir verður að fara varlega í lántökur, sérstaklega til óarðbærra framkvæmda. En það er eitt, sem vekur athygli mína í sambandi við þær lántökur, sem hér er um að tefla, og það er það, hversu mikill hluti af þessu nýja lánsfé þarf að ganga til þess að standa við eldri skuldbindingar. Ég hef í fljótheitum farið yfir það, hversu mikill hluti af þessum 225 millj. kr., sem hér er ráðgert að taka að láni, gengur til þess að greiða eldri skuldbindingar, þannig að það minnkar þá að sama skapi hið nýja fjármagn til framkvæmda, sem um er að ræða. Ég ætla aðeins, með leyfi forseta, að nefna nokkur dæmi um þetta.

Fyrsti liðurinn, sem á að verja fjármagni til, eru boranir og rannsóknir á Reykjanesi. Þar segir, að kostnaður árið 1968 hafi reynzt mun meiri en gert var ráð fyrir, og var aflað bráðabirgðalána til framkvæmdanna samtals að fjárhæð 8 millj. kr. Í kaflanum um boranir við Námafjall segir: Til endurgreiðslu bráðabirgðalána, sem aflað var vegna framkvæmdanna árið 1968, verður nauðsynleg viðbótarfjáröflun samtals 8.4 millj. kr. Til Rafmagnsveitna ríkisins, sem er 4. liðurinn, sem á að ætla fjármagn til af þessum lántökum, nema endurgreiðslur 17 millj. kr. Í liðnum framkvæmdir á Keldnaholti segir, að í öðru lagi þurfi að endurgreiða 6.4 millj. kr. bráðabirgðalán, sem aflað hefur verið til byggingar húsnæðis fyrir Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins, 6.4 millj. kr. Landshafnir, þar er liðurinn skuldagreiðslur við verktaka og vitamálastjórn 1.8 millj. kr. Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi, þar er skuld frá fyrra ári og lántökukostnaður 5.5 millj. kr. Liðurinn Reykjanesbraut er 29.6 millj. kr., og hann á allur að ganga til afborgana og vaxta af lánum vegna þessarar brautar, og liðurinn Reykjanesbraut í Breiðholti er 6.8 millj. kr. og hann á líka allur að ganga til greiðslu afborgana og vaxta af láni, sem áður er búið að taka. Þannig kemur það í ljós, þegar þetta er athugað, að 80 millj. kr. af þessum 225 millj., sem nú er verið að afla lánsfjár til, gengur til þess að greiða vexti og afborganir eða bráðabirgðalán, sem áður er búið að taka og vinna fyrir, þannig að framkvæmdaliðurinn í þessu frv. verður aðeins 145 millj. kr.

Ég er ekki að finna að þessu, það verður að standa í skilum með þau lán, sem tekin hafa verið. Ég er alveg sammála því, sem hæstv. ráðh. sagði um það. En ég bara vek athygli á þessu til þess að sýna það, hversu lántökubrautin er erfið og grýtt og dregur langan dilk á eftir sér. Það er ekkert mikið, miðað við núgildandi verðlag, sem hægt er að vinna fyrir 145 millj. kr. Þegar rætt var um framkvæmdaáætlun þessa á s.l. ári, þá voru þó 330 millj. kr., sem ráðgert var að vinna fyrir, og verðlagið lægra, þannig að hér hlýtur að vera um stórfelldan samdrátt í raunverulegum framkvæmdum að ræða. Þessu vildi ég aðeins vekja athygli á nú við I. umr., en skal svo að öðru leyti geyma mér umr. um frv. til 2. umr.

En það er aðeins ein spurning, — já spurning nánast, — sem mig langar til að varpa fram, kannske — ekki frekar - til hæstv. fjmrh. en annarra. Hún er í stuttu máli sú, hvort hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér að fara heim af Alþ. án þess að hafa gert nokkrar ráðstafanir til þess að auka möguleika skólanema fyrir sumaratvinnu, og hvort það sé ekki nauðsynlegt til þess að afstýra vandræðum að hugsa til þess að útvega eitthvert fjármagn í þessu skyni og trúlega verður það þá einungis um lánsfjármagn að ræða? Ég er ekki með tilbúna till. um þetta atriði að svo stöddu, en ég varpa þessari hugmynd aðeins fram til umhugsunar milli umr., hvort hv. þm. telji það ekki algjörlega óhjákvæmilegt, að eitthvað verði í þessu máli gert? Ég veit, að það er fyrir Alþ. frv. til l. um það, að skólanemar njóti atvinnuleysisbóta, það er sjálfsagt gott fyrir þá, sem það hljóta, og það er kannske eina leiðin, sem menn sjá, en ósköp er það ógeðfelld tilhugsun í mínum augum að borga ungu og frísku fólki fyrir að ganga atvinnulaust, og eigum við ekki, áður en að því ráði er horfið, að kanna það til þrautar, hvort ekki er mögulegt að virkja starfskrafta þessa fólks, hvort það er ekki hægt að koma hér á vinnu við þarflega hluti, sem frekar væri ástæða til að verja fjármagni til. heldur en að greiða bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði.