16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki hægt að samþykkja þessar brtt. miðað við þann undirbúning, sem málið hefði fengið. Það kann nú að vera rétt, að málið hafi fengið lítinn undirbúning. Ég er alveg sammála því. Þetta mál hefur fengið alveg ótrúlega lítinn undirbúning, og ég held, að það þurfi nú ekki að gizka oft til þess að hitta á þann, sem átt hefði að framkvæma þennan undirbúning. Það er búið að vera lengi ljóst, að vandamál framhaldsskólafólks mundi verða mikið í vor. Það var, held ég, 19. sept. 1968, síðan eru líklega liðnir einir 8 mánuðir, sem borgarstjórn Reykjavíkur t.d. gerði sér ljóst, að það mundi verða mikið vandamál á ferðinni í vor, þegar fólkið kæmi úr skólunum. Þá var sett á laggirnar Atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar, og hennar verkefni var tvíþætt. Annars vegar það að finna leiðir til þess að minnka og helzt koma í veg fyrir yfirvofandi atvinnuleysi á þeim vetri, sem þá fór í hönd, og hins vegar að athuga leiðir til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi skólafólks, þegar framhaldsskólunum lyki núna í vor. Þannig mátti öllum ljóst vera, ekki síður hæstv. ríkisstj. en borgarstjórn Reykjavíkur, að hér mundi verða mikið vandamál á ferðinni. Samt fer það svo, að ríkisstj. hefur ekki sinnt þessu máli meira en það, að á síðasta degi þingsins, 16. maí, er ekki hægt að samþykkja örlitla fjárveitingu í þessu skyni vegna ónógs undirbúnings. Þetta finnst mér ekki góð vinnubrögð, og ég lýsi því hér með yfir. Ég tel, að Alþ. geti raunar ekki farið heim og að það geri of lítið úr mikilvægi sínu í þjóðfélaginu, ef það ætlar að skilja við þetta vandamál og kjaradeilurnar óleystar, eins og nú stendur til.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri alveg út í hött að samþ. þessa till. Mig brestur bara orð til að svara þessu svona á stundinni. En ég vil bara minna á það, eins og hæstv. ráðh. raunar tók sjálfur fram, að hér er um mikið vandamál að ræða. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta yrðu atvinnumálanefndirnar að ræða. Hvenær ætla atvinnumálanefndirnar að ræða þetta mál? Er ekki skólunum að ljúka, hverjum af öðrum? Eru ekki þrjár vikur síðan Verzlunarskólinn hætti? Og hver af öðrum eru skólarnir núna að ljúka störfum og fólkið að koma á vinnumarkaðinn. Ég held, að sá tími, þegar ætti að athuga þetta mál, sé einmitt núna. Og hvað ætlar hæstv. ríkisstj. og hæstv. atvinnumálanefndir að gera í þessum málum án peninga? Það er kannske eitthvað eftir af 300 milljónunum, sem átti að nota í vetur. Ég er svo sem ekkert hissa, þó að það væri, því að það hefur dregizt það lengi að ráðstafa þeim, að það getur vel skeð, að einhverju sé óráðstafað, og það væri þá gott að fá það upplýst, hvort einhverjir peningar eru þar til. En mér finnst það algjört lágmark, að þegar Alþ. er að fjalla um hundraða og þúsunda millj. kr. nýjar lánveitingar svo að segja á hverjum degi, þá sé ætluð örlítil fjárhæð til þess að mæta þessu viðfangsefni, svo sem eins og til þess að sýna það, þó ekki væri annað, að alþm. gerðu sér ljóst við hvern vanda hér er að fást. Það er alveg satt, sem hæstv. fjmrh. sagði, það skal ég viðurkenna, að það er alveg óvíst, hvort hér þarf að nota 35 millj. eða kannske eitthvað miklu meira. En mætti þá ekki einfaldlega láta vera að afla lánsfjár, ef það skyldi fara svo vel, að þess þyrfti ekki með? Ég er ekki svo bjartsýnn, að ég trúi því, að þessi mál leysist af sjálfu sér. En ef það skyldi nú gerast, þá er það vel. Þá þyrfti ekki að nota þetta lánsfé, og yrði það líklega í fyrsta og eina skiptið, sem lánsfjáröflun þyrfti ekki að nota. Það væru vissulega gleðileg tíðindi. En ég get því miður ekki gert það fyrir fjmrh. hæstv., sem ég vil nú margt fyrir gera, í þessu tilviki að taka þessa till. aftur, vegna þess að ég fellst alls ekki á, að það sé út í hött, að Alþ. samþ. slíka till. Ég skal ekki tefja tímann, ég veit, að það er margt að gera, en um þetta væri vissulega ástæða til þess að ræða meira.