16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég er víst búinn að tala tvisvar við umr. og skal nú stilla þessu mjög í hóf, en ég held, að hv. 12. þm. Reykv. hafi alveg misskilið þessar till., eftir þeirri ræðu að dæma, sem hann hélt hér áðan. Í þessum till. okkar er gert ráð fyrir að hækka 71 millj. kr. spariskírteinasölu upp í 110 millj. kr. Ef það er einhver fjarstæða, að verið sé að ráðstafa þar fjármagni, sem ekki er fyrir hendi, sem vissulega er nú verið að gera hér till. um, þá er bara allt frv. að þessu leyti tóm vitleysa. Þá er heldur ekki hægt að ákveða neitt um það að bora og rannsaka á Reykjanesi og að bora í Námaskarði og annað slíkt, vegna þess að peningarnir eru óvissir. Svona frv. hafa verið flutt hér ár eftir ár með mismunandi háum fjárhæðum, og að telja það, að frv. verði fjarstæða, af því að bætt er við það 35 millj., þ.e. úr 75 í 110, það fær á engan hátt staðizt. (Gripið fram í.) Já, ef það er djarft teflt hjá okkur að ráðstafa 1 10 millj., þá er það á sama hátt djarft teflt hjá ríkisstj. að bera fram frv. um ráðstafanir á 75 millj., sem eftir er að afla. Svo getur vel skeð, að enginn kaupi eitt einasta bréf, ég get alveg fallizt á það, og þá kemur ekkert fjármagn til þess að útrýma atvinnuleysi hjá skólafólki, en heldur ekkert fjármagn til þess að standa undir því, sem frv. gerir ráð fyrir. Svo er í þessum brtt. okkar önnur till. Hún er um það, að Seðlabankinn hætti að binda fjármagn í eitt ár, og ég fæ ekki séð, að það sé nein fjarstæða að leggja það til og að það sé ekkert lögmál, að Alþ. megi aldrei hafa neina skoðun á því, hvenær eigi að binda sparifé og hvenær ekki, heldur séu það einhverjir sérfræðingar úti í bæ, sem séu svo alvitrir, að þeir einir hafi vit á því, hvenær á að hætta að binda sparifé. Það hlýtur að fara eftir atvinnuástandinu hverju sinni, hvað hægt er að taka úr umferð af peningum. Það er margbúið að segja það hér og fallast á það, menn úr öllum flokkum, að þannig hljóti það að vera, og það sem þessi till. segir er það, að við, sem að brtt. stöndum, álítum það, að nú sé þannig ástatt í þjóðfélaginu, að ekki eigi að taka sparifé úr umferð. Ég skal ekki misnota þessa stuttu aths., sem mér var leyft að gera með því að halda hér langa ræðu, þó að það væri vissulega ástæða til þess af gefnu tilefni, en læt þessar athuganir duga um þetta.

Hv. 12. þm. Reykv. gerði lítið úr þeirri till. okkar að skrá þessi spariskírteini á nafn, og taldi, að það væri mjög smátt spor í þá átt að sporna við skattsvikum; og að það væru þúsund aðrar leiðir til þess að svíkja undan skatti. Það getur vel verið, að þær séu þúsund, en okkar álit er þó það, að ef einni væri lokað, þá væru ekki nema 999 eftir og viðfangsefni hæstv. fjmrh. þar af leiðandi 1 prómilli auðveldara heldur en það er í dag, og er það satt að segja fullerfitt hjá honum, eins og það er. En það er auðvitað alveg rétt, að þetta er ekki nema einn lítill hluti af þeim skattsvikaleiðum sem til eru, og þó ég þekki ekki 1000, þá þekki ég auðvitað nokkrar. En einhvers staðar verður að byrja og hér er Alþ. að fjalla um útgáfu spariskírteina. Mér sýnist, að það væri ákaflega vel til fallið, að byrjað væri á þessu, og um það fjallar okkar brtt.