04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

159. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tvær breyt. á gildandi l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fyrri breytingin er í því fólgin, að lagt er til, að uppsagnarfrestur kjarasamninga verði 4 mánuðir, í stað þess að nú er svo ákveðið í 1., að hann skuli vera 7 mánuðir.

Í reynd hefur það orðið svo undanfarin ár, þegar kjarasamningar hafa verið til meðferðar samkvæmt uppsögn þeirra, að leitað hefur verið sérheimilda Alþ. í sambandi við frestinn til þess að stytta frestinn, þar eð þessi 7 mánaða frestur er í rauninni alveg óeðlilegur og hefur aldrei verið notaður. Það er gert ráð fyrir því, eins og l. eru í dag, að innan mánaðar frá því að þessum fresti lýkur þá skuli mál fara til sáttasemjara, ef ekki hefur orðið samkomulag, og mánuði þar frá skuli málið ganga til kjaradóms, eða 5 mánuðum áður en samningstímabili lýkur. Það hefur alltaf orðið samkomulag um það milli rn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að hér væru mjög óheppileg tímamörk, og því hafa þessir frestir jafnan verið styttir. Það er mjög erfitt að standa í slíkum samningagerðum um hásumarið, og menn hafa ekki treyst sér til þess, og er óeðlilegt, að málið sé ekki lengur til meðferðar hjá aðilum heldur en l. nú gera ráð fyrir.

Önnur breytingin, sem hér er um að ræða, er sú, að eins og l. nú eru þá er skylt að láta fara fram allsherjaratkvgr. um uppsögn kjarasamninga. Út af fyrir sig er þetta eðlileg hugsun, og er ástæða til þess að víkja sérstaklega að þessu nú, af því að uppi hafa nú verið raddir um, að það væri einmitt rétt í sambandi við kjarasamninga að leggja meiri áherzlu á allsherjaratkvgr., að það kann að þykja einkennilegt að leggja þá hér til að skylda til að hafa allsherjaratkvgr. sé felld niður, en eins og menn sjá hér samkvæmt frv., þá er settur á það mjög mikill hemill, annars vegar sá, að það verður að vera algjört samkomulag innan stjórnar bandalagsins og hins vegar, sem er þó aðalatriðið í málinu, að gagnaðilinn, í þessu tilfelli fjmrh., hefur rétt til að krefjast allsherjaratkvgr., ef hann telur ástæðu til þess. Um þetta ákvæði hefur orðið samkomulag milli ráðuneytisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það þykir ástæðulaust að knýja fram allsherjaratkvgr. ef báðir aðilar eru sammála um, að það þjóni engum tilgangi, og hvorki mundi rn. fara fram á slíkt, ef séð væri, að það væru engar líkur til annars en að uppsögn yrði samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta, né heldur mundi stjórn bandalagsins telja sér fært að hafa ekki allsherjaratkvgr., ef hún hefði ástæðu til að halda, að það væri einhver klofningur um uppsögn samninga. Það hefur því verið talið rétt að leita líka eftir að fá þessa breytingu. Kostnaður er mikill og vinna við allsherjaratkvgr., og ef báðir aðilar eru sammála um, að slík fyrirhöfn þjóni engum tilgangi, þá þykir ástæðulaust að knýja fram, að allsherjaratkvgr. þessi skuli viðhöfð.

Þá vil ég í þriðja lagi víkja að einu atriði, sem ekki felst í þessu frv., og það snertir sveitarfélögin. Ástæðan til þess, að það atriði er ekki tekið upp í frv., er sú, að um það var ekki samkomulag milli rn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en þessi tvö atriði eru samkomulagsmál. Eins og l. nú eru úr garði gerð, þá fjalla þau fyrst og fremst um ríkisstarfsmenn, en hins vegar gert ráð fyrir því, að bæjarstarfsmenn geti átt aðild að l., og í reynd er það svo, að þeim hefur einnig verið framfylgt í meginefnum varðandi starfsmenn sveitarfélaga, en þar er hins vegar þannig ástatt, að samkvæmt l. verður hvert sveitarfélag að vera sérstakur málsaðili, og starfsmannafélögin verða þá að stefna inn hverju einstöku sveitarfélagi í sambandi við sína kjarasamninga, ef þau á annað borð ganga til kjaradóms. Þetta hefur reynzt vera svo flókið og erfitt í alla staði, að allir þeir aðilar, sem hér hafa átt hlut að máli, bæði starfsmenn sveitarfélaganna, sveitarfélögin sjálf og kjaradómur ekki sízt, hafa bent á, að hér væri mjög óskynsamlegt að veita a.m.k. ekki heimildir til þess, að það sé hægt að sækja þetta mál á hendur einum aðila, Sambandi ísl. sveitarfélaga, og að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða sveitarfélagadeild þess, ef svo má segja, gæti þá sótt málið af hálfu sveitarfélagastarfsmanna. Ég geri þetta að umtalsefni hér vegna þess, að ég geri ráð fyrir, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, fái einnig tillögur varðandi skipan þessara mála, annaðhvort frá rn, eða þá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þegar l. upphaflega voru sett, var Samband ísl. sveitarfélaga mjög laust í reipum. Þetta eru hins vegar orðin sterk og samfelld samtök og engin ástæða til annars en hægt sé að fela þeim að fara með málsaðild fyrir hönd sveitarfélaganna í stað þess að knýja þau öll til þess eða hvert fyrir sig að leggja í þann kostnað að sækja sitt mál fyrir kjaradómi hér í Reykjavík.

Með þessum orðum er ég því aðeins að skýra mína skoðun varðandi þetta mál og undirbúa það, að einnig þetta atriði komi til meðferðar þeirrar hv. n., sem fær frv. þetta til athugunar.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og væntanlega hv. heilbr.- og félmn. Ætli það sé ekki eðlilegast, af því að þetta er kjarasamningamál? Mér er ekki kunnugt um að vísu, hvort kjarasamningalögin hafa verið í fjhn., en ég læt það vera háð úrskurði forseta, hvað hann telur vera eðlilegast í því efni.