13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Austf. Eins og hv. þdm. er ljóst, er það atriði frv., sem hann gerði aðallega að umtalsefni, hingað komið til staðfestingar á samkomulagi, sem áður hefur verið lögfest og fjallar um afmarkaða hluti, þ.e.a.s. hvernig greiðslum á fæðiskostnaði skuli hagað úr hinni nýju deild, sem stofna á við aflatryggingasjóð. Ég get verið hv. 4. þm. Austf. sammála um það, að önnur aðferð hefði verið æskilegri við greiðslu á fæðiskostnaði. Fyrir mitt leyti hefði ég talið hreinlegast, úr því að útgerðin á annað borð tekur á sig að greiða fæðiskostnað, að hver útgerðarmaður greiddi fæðiskostnað sinnar áhafnar að hluta eða að öllu leyti, eftir því sem um hefði samizt. En það samkomulag, sem staðfesta á með frv. því, sem hér liggur fyrir, er búið og gert, og í framhaldi af því er sú lagasetning, sem við erum að fjalla um, nauðsynleg.

Ég vil leyfa mér að benda á, að í sjálfu frv. er eingöngu talað um greiðslu á fæðiskostnaði lögskráningarskyldra skipverja. Í þeim bréfum, sem ég skýrði frá áðan, kemur fram því til viðbótar, að af hálfu þeirra, sem um málið fjölluðu f.h. sjómanna annars vegar og útgerðarmanna hins vegar, og í þriðja lagi af forstjóra Efnahagsstofnunar Íslands sem sáttasemjara í málinu er talið, að auk þess eigi þessar greiðslur samkv. þeirra skilningi að ná til þeirra sjómanna, sem eru ráðnir upp á hlut, þótt þeir séu ekki lögskráðir. Er þar með einungis átt við hlutaráðna landmenn á línubátum, sem eru ýmist hlutaráðnir eða vinna í akkorði við beitingu. Um önnur atriði get ég ekki séð, að ætlazt sé til að neinu sé bætt við af hálfu þeirra, sem um málið fjölluðu áður en það kom fyrir Alþ. Er ekki um annað talað en þetta atriði eitt í bréfunum. Ég býst við, að ástæðan til þess, að ekki hefur verið gert ráð fyrir, að áhafnir lítilla fiskibáta nytu þessa, sé sú; að það mundi vera mjög erfitt í framkvæmd að ganga örugglega úr skugga um, hvernig háttað væri útgerð þeirra og aflabrögðum.

Hv. 4. þm. Austf. talaði um, að það bæri að snúa við af þeirri braut að stofna sjóði eins og þann, sem þarna væri um að ræða, en fikra sig ekki lengra eftir henni. Mér finnst, að með þeirri brtt., sem hann flytur, sé hann einmitt að fikra sig lengra á þessari braut, sem hann telur svo óheillavænlega. Að mörgu leyti get ég verið honum sammála um, að hún sé óheillavænleg, og þess vegna fellst ég ekki á till. hans.