16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það ber svo margt brátt að núna, að menn hafa ekki einu sinni tíma til að átta sig nákvæmlega á, hvað um er að fjalla, og til skyndifundar var boðað hjá hv. sjútvn. og lá þá ekki einu sinni fyrir á þskj. það, sem við áttum að fjalla um, svo mikið lá við að koma málinu áfram. En það voru viðbótarorðin : „og hlutaráðinna manna á línubátum“. Eins og hv. frsm. tók skýrt fram, var ekkert við það að athuga, hvernig við afgr. frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins hér í hv. deild á sínum tíma, því að ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa orðrétt upp það samkomulag, sem er vitnað í og er á bls. 2:

„Samkomulag um greiðslu upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum. Aflatryggingasjóður greiði hluta af fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum, þannig að til báta 151 brúttólest og stærri verði greiddar 100 kr. vegna hvers áhafnarmanns á úthaldsdag, en til báta undir 151 brúttólest að stærð verði þessi greiðsla 85 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann. Ákvörðun úthaldsdagafjölda og áhafnarstærðar fer eftir almennum reglum sjóðsins. Útgerðarmenn skulu draga framangreindar upphæðir frá fæðiskostnaði sjómanna og fá þær endurgreiddar úr aflatryggingasjóði. Til þess að standa straum af þessum kostnaði hlutast ríkisstj. til um, að lagt verði 1% almennt útflutningsgjald á fob-verðmæti fiskafurða þeirra sem nú eru útflutningsgjaldskyldar.“

Svona hljóðar þessi staðfesting, sem var undirrituð af báðum aðilum, og hún er ótvíræð, að hér er átt við sjómennina sem slíka. Og ég hafði aldrei heyrt annað en að það ætti að koma fram og hafði margsinnis verið um það talað, að hér væri eins konar staðaruppbót fyrir sjómenn á bátaflotanum, en ekki þá, sem væru í landi. Svo heyrir maður annað sagt núna, og þá vaknar sú spurning: Hvar á þetta vandræðabarn að enda? Ég var alltaf mótfallinn þessari stefnu, og mér sýnist, að skjótt rætist, að hér horfi til vandræða. Ég vil benda á, að í hádegisfréttunum í dag var sagt frá því, að bátar eru að fara á Grænlandsmið. Þá eiga þeir ágætu sjómenn, sem eiga að veiða á línu við Grænland, ekki að fá nokkurn eyri fram yfir þá, sem eru heima hjá sér, þó að þeir séu lögskráðir þar og beita eða vinna við bátinn í landi. Þetta tel ég ósanngirni. Ef útvegsmenn vilja borga mönnunum, sem eru í landi, betur, þá verða þeir að semja um það, og ég held, að þannig ákvæði sé í samningunum, að þeir menn, sem í landi eru, hafi sómasamleg kjör. Og það er mjög erfitt að fara að breikka þetta svið, því að við vitum ekki, hvar við endum, ef við förum að opna þessa leið, og svo kemur sú næsta og næsta. Einnig má á það benda, að hér er dregin markalína á skipaflota, sem er 12 tonn og stærri, og sjómannasamtökin segja réttilega, að þau séu ekki að semja um kjör á bátum, sem eru minni en 12 tonn, en engu að síður eru þeir sjómenn látnir borga í þennan sjóð, sem eru á minni bátum og draga ágætan fisk að landi. Hér er því úr nokkru vandamáli að ráða, og ég er mótfallinn því, að við víkkum þetta starfssvið svo skjótlega, án þess að það sé rækilega athugað.

Ég vil minna á það, að það eru rétt um það bil 4 ár síðan hv. Alþ. samþ. það, að endurskoðun á lögum um aflatryggingasjóð ætti að fara fram, og enn þá hefur þessi hv. n., sem þá var skipuð, sennilega ágætismönnum, ekki skilað neinu frá sér. Ég ýtti við þessari n. hér á sínum tíma, fyrir áramótin, og þá voru loforð um að gera eitthvað, en ekkert hefur skeð. Ég harma svona vinnubrögð. Og það er mjög alvarlegur hlutur að víkka starfssvið sjóðsins svona að óathuguðu máli, þó að einhver hafi fallizt á þetta í Nd. að lítt athuguðu máli. Það hef ég fyrir satt, og ég kynnti mér það áðan uppi í Efnahagsstofnun hjá Jóni Sigurðssyni fulltrúa þar, að hann aðvaraði menn, áður en frv. var sett hér inn, hlutaðeigandi menn. Hann aðvaraði um það, að samkomulagið hefði verið þrengra en um hefði verið talað á sínum tíma, og það gerði enginn maður athugasemd við það. Svo vaknar einhver skyndilega núna og þarf að fá einhverja hjálp, og þá er hlaupið upp til handa og fóta á síðustu tveimur dögum þingsins að bjarga slíku við. Ég er ekki samþykkur slíku. Það er svo annað mál, hvort við fyrr eða síðar að undangenginni rækilegri athugun opnum þessa leið. Það getur vel verið, að það sé skynsamlegt, en það er ekki hægt að gera það svona allt í einu.

Það mætti mikið tala um þetta mál, hvernig svona sífelld sjóðsmyndun, sem hefur ekki fastar reglur, endar, hvernig það endar að vera alltaf að búa til eitthvert kerfi, sem enginn veit nákvæmlega, hvernig á að vinna. Og svo eru einhverjir, sem koma fram með óskalista og það er beðið um, að þetta sé látið starfa í þágu þeirra. Það hefur engin athugun farið hér fram á því, hvað þetta þýðir miklar greiðslur, hvað mikla viðbót fyrir þennan sjóð. Við fengum þó yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það, að hann mundi sjá til þess, að sjóðurinn fengi nægilegar tekjur fyrsta árið. Hvað þýðir svona samþykkt? Þýðir hún 5 millj. eða þýðir hún bara eina millj. eða eitthvað meira? Mér finnst það merkilegt, ef allt í einu má samþykkja, þó að það sé ekki nema milljón króna kvöð fyrirvaralaust á ríkissjóð. Það er þá breytt viðhorf frá því, sem var hér fyrir nokkrum klukkustundum í dag.

Herra forseti. Tíminn var það naumur, að ég varð að hripa brtt. á borði mínu rétt áðan, og ég leyfi mér að leggja hana hér fram. Það getur verið, að það sé formgalli á henni, ég skal ekki segja um það, en ég vildi, að hún yrði athuguð, og ef nauðsynlegt er, að gefa þá stutt fundarhlé, því að ég óska þess, að hún verði tekin til meðferðar, en efni brtt. minnar er á þá leið, að í 17. gr. falli niður orðin: „hlutaráðinna landmanna á línubátum.“