17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

116. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl. (Sigurvín Einarsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. menntmn. hefur skýrt frá, varð ekki samstaða í menntmn. um afgreiðslu þessa frv. Við erum þrír, sem skipum minni hl. n., ásamt mér hv. 6. þm. Reykv. og hv. 9. þm. Reykv. Það er ekki langt síðan lög um skólakostnað voru sett. Það er eitthvað um 11/2 ár, og þau eru ekki komin til framkvæmda enn, en eiga nú að gera það að mér skilst eftir nokkra daga. En þá kemur hæstv. ríkisstj. með frv., sem breytir einu veigamiklu atriði í hinni fyrri skólakostnaðarlöggjöf, því atriði, að fjárveitingar ríkisins komi heldur með fyrri skipunum til framkvæmdanna en áður hafði verið. Ég man vel eftir því, þegar við sátum í því lengi að vinna að því frv. fyrir 11/2 ári, að okkur þótti þetta framför, að þá fengist framlag ríkissjóðs til skólabygginga á þremur árum í lengsta lagi frá því sem áður var, sem var reglan, 5 ár. Og ég held, að við höfum svona í hjarta okkar heldur lofsungið hæstv. ráðh. fyrir þá breytingu, sem hann beitti sér þá fyrir, að hraða þessum framlögum til skólanna. En við lofsyngjum ekki þetta frv. alveg eins, þar sem á að færa til baka, áður en lögin koma til framkvæmda, þessa reglu, að framlagið skuli greitt a.m.k. á þremur árum. Ég held, að ég muni það rétt, að hæstv. menntmrh. hafi orðað það eitthvað á þá leið við 1. umr. þessa máls, að þetta þætti heldur mikið stökk úr 5 ára reglunni niður í 3 ára regluna og þá hefði verið skynsamlegra að fara ekki nema hálfa leiðina og fara í fjögurra ára reglu.

Ég veit ekki, hvort stökkið hefur verið ákaflega stórt þarna um árið, því að flestir, sem koma sér upp húskofum, reyna að koma þeim upp á dálítið skemmri tíma en 5 árum og þykir ekkert afrek yfirleitt. En þrátt fyrir það, hún var til bóta sú breyting, sem þá var gerð. En ég verð að harma það, að reglan skyldi ekki standa lengur en þetta og ekki einu sinni fram að þeim tíma, að hún kæmi til framkvæmda. Það sjá allir, að þessi breyting þýðir það, að framlög ríkisins minnka á næsta ári. Frv. gildir aðeins fyrir næsta ár. Þau eiga að minnka frá því, sem þau hefðu orðið að vera, ef fylgt hefði verið núgildandi lögum og minnka um'/a. Við skulum hugsa okkur, að heildarframlag ríkissjóðs til skólabygginga í landinu hefði átt að vera, svo að ég nefni dæmi, 48 millj. á næsta ári. Eftir þriggja ára reglunni, sem enn er í lögum, er svo allt í einu breytt í fjögurra ára reglu. Nú, þá þýðir það, að sú upphæð, 48 millj., hefði þá lækkað verulega eða um einar 12 millj., að ég ætla. 48 millj. eftir þriggja ára reglunni hefðu þá lækkað niður í 36 millj. við að taka upp fjögurra ára regluna.

Þegar á það er litið, hversu ákaflega vantar skólahúsnæði í landinu, þá er þetta ekki viðunandi að mínum dómi. Það er kunnugt, að um allt land skortir meira og minna skólahúsnæði og skólaheimavistir og þess konar byggingar í sambandi við skólahald. Það er því fjarri öllu lagi að ætla svo að fara að draga úr því, áður en sjálf l. koma til framkvæmda.

Það er sagt í grg. með þessu frv.: „Við meðferð fjárlagafrv. hefur komið í ljós, að það mundi valda óeðlilegri röskun að stytta greiðslutímabilið skyndilega úr 5 árum í 3.“ — Hvaða röskun veldur þetta? Það veldur engri annarri röskun en þeirri, að það verður að leggja heldur meira á næsta ári til skólanna en gert hefði verið. Hefðu engin lög verið sett fyrir 11/2 ári síðan, þá hefði reglan ekki verið tekin upp, þessi þriggja ára regla. Það er engin önnur röskun. Og ég geri fastlega ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi reiknað með því þá, að þessi röskun yrði að verða. Það gat ekki komið neinum á óvart, ef átti að greiða til skólanna á þremur árum það, sem áður var gert á 5 árum, þá hlaut það að valda þeirri röskun.

Þá er sagt í grg., að þetta snerti skóla, sem byrjað verður að byggja á næsta ári, það framlag lækki. Mér skilst, ef að 4 ára reglan á að koma til framkvæmda nú um áramót, raski hún líka fjárframlagi til þeirra skóla, sem byrjað er á, því að ef á að deila með 4 í staðinn fyrir 3 í upphæðina, hlýtur það líka að valda röskun hvað þá skóla snertir.

Við, sem myndum minni hl. n., erum því andvígir því, að þetta frv. verði samþ., viljum ekki fallast á, að það séu nokkur rök fyrir því að fara að draga úr fjárveitingunni í þessu skyni á næsta ári, þar sem skorturinn á skólahúsnæði er svo sár, vil ég segja, eins og raun er á víða um landið.

Hitt er öllum sjálfsagt ljóst, hvers vegna þetta frv. er flutt. Það er af því að 3. umr. fjárlaga er ekki um garð gengin og frv. er til þess að auðvelda hv. fjvn. að leggja til lægri upphæð í frv. til skólabygginga en hún hefði orðið að gera, ef l. væru óbreytt, eins og þau voru sett fyrir 11/2 ári. Það er ekkert annað. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta sérstaklega meira en ég hef gert. Þetta liggur alveg ljóst fyrir, hvað hér er um að ræða, því að frv. er mjög einfalt í sniðum og öllum augljóst og þm. gera það sjálfsagt upp við sig við atkvgr., hvort þeir vilja minnka framlag ríkisins til skólabygginga á næsta ári frá því, sem gildandi lög segja til um. Það er ekki um neitt annað að ræða.

Ég held, að ég hafi þá fært rök að því, að ástandið í byggingarmálum skólanna í landinu er ekki með þeim hætti, að það sé með góðu móti hægt að fallast á þessa breytingu.