16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það, eins og kom reyndar fram í bréfi Sjómannasambands Íslands, að samkv. 21. gr. kjarasamninga njóta landmenn þess að fá greiddan fæðiskostnað, ef þeir eru lögskráðir. En það kom skýrt fram, að tilefnið til að taka upp þetta kerfi var hugsunin um staðaruppbót, sjómennirnir eru að heiman, og þeir höfðu þurft að sjá sjálfum sér fyrir fæði og svo fjölskyldu sinni. En mennirnir, sem eru í landi og eru heima hjá sér, og eins og er t.d. á togbátunum núna, þá eru þeir heima alveg um helgar, þeir fá verulega kjarabót fram yfir þá, sem eru að sækja á djúpmið. Það er einmitt þessi hugsun og þessi þróun, sem ég er á móti. Ég vil sannarlega ýta undir það fólk, sem fer 6–8 hundruð mílur að Grænlandi eða í námunda við Svalbarða og er þar 3–4 mánuði í burtu. Og ég sé ekki, hvernig við fáum menn á bátana, ef við ætlum að fara að ýta undir þá, sem eru heima hjá sér, en þrengja að hinum, því að fyrr eða síðar þarf þessi sjóður mikla peninga, ég er alveg viss um það. Og því fleiri sem við tökum inn í þennan sjóð, því þrengra verður um hans kjör. En ef fjmrh. tryggir árlega þessum sjóði nægilegt fjármagn, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því, en það kalla ég flotta yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. Það getur vel verið, að mönnum þyki ég hér nokkuð harður í garð útvegsmanna. Þeir undirrituðu þetta samkomulag, og það var greinilega tekið fram, það fékk ég staðfest af þeim manni, sem stóð í því, að þegar þetta var undirritað, var bent á það, að samkomulagið var þrengra en um hafði verið talað. Og um það snýst kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, hvort við eigum að opna þennan sjóð fyrir mönnum, sem eru í landi, eða ekki. Þeir njóta kjara í landi að fá hluta af fæðiskostnaði. Hann er ekki af þeim tekinn. Það er bara borgað af öðrum aðila. En ég vil ekki skerða þennan sjóð, því að hann þarf áreiðanlega á sínu að halda og jafnvel meira en það. Og þeim mönnum, sem sækja á fjarlæg mið, má muna eftir.