23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

221. mál, fjáraukalög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til fjáraukalaga, sem hér er lagt fram, er stjórnskipuleg skylda að leggja fyrir Alþ., enda þó að oft hafi verið um það rætt áður, að það væri næsta ankannalegt að vera samtímis með tvö samhljóða frv. í gangi, annað fyrir deildum til staðfestingar á ríkisreikningnum, sem um leið auðvitað felur í sér samþykkt á þessum útgjöldum, sem þar er um að ræða, en hins vegar sérstakt fjáraukalagafrv. í Sþ. Um það tjóar ekki að fást. Það er lögbundin skylda að gera þetta. Frv. þetta er samið í samræmi við niðurstöður yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, eftir að þeir hafa afhent rn. aths. sínar, og frv. er lagt fram í samræmi við þeirra till., þar sem þeir hafa lagt til, að aukafjárveitingar verði veittar fyrir öllum þeim umframgreiðslum, sem ríkisreikningurinn 1967 sýnir, og er frv. samið eftir ríkisreikningnum.

Ég gerði nákvæmlega grein fyrir afkomu ársins 1967 við fjárlagaumr. s.l. haust og sé því ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta mál nema með örfáum orðum, nema sérstakt tilefni gefist til þess. Ég sé ekki þörf á því að fara að rekja orsakir þeirra umframgreiðslna, sem hér er um að ræða. Það er tiltölulega fljótgert að gera grein fyrir meginþorra þeirra. Ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að það, sem veldur breytingu og gerir hér óvenjulega háar fjárhæðir, er ekki það, að hér hafi átt sér stað einhver óvenjuleg útgjöld umfram það, sem áður hefur verið, heldur fyrst og fremst það, að það eru teknar upp nýjar reglur um færslur, sem ekki hafa áður gilt en eru í samræmi við hin nýju lög um ríkisbókhald og samningu fjárlaga. Tvennt orkar aðallega á þetta frv., annars vegar það, að nú eru fyrirmæli um það, að allar tekjur annars vegar, sem til falla á árinu eða eru álagðar sem skattar, koma fram sem tekjur ársins, enda þótt það sé ekki innheimt, og í annan stað er nú ekki lengur um það að ræða, sem áður var gert í allstórum stíl á hverju einasta ári, að það voru greiddar fyrirframgreiðslur upp á væntanlegar fjárveitingar næsta árs. Þetta er fyrsti ríkisreikningurinn, þar sem allar slíkar greiðslur eru færðar til útgjalda á það sama ár. Hér var um töluverðar fjárhæðir að ræða, sem venja hefur verið að færa alltaf á næsta ár, en nú eru færðar til útgjalda hér, og skýrir það að töluverðu leyti ýmsar þær greiðslur, sem hér er um að ræða.

Meginhluti útgjaldanna fellur á 19. gr. fjárl., eins og þau þá voru útbúin, þ.e.a.s. 300 millj. af 400 millj., og er þar fyrst og fremst um að ræða uppbætur vegna sjávarútvegsins og þá fyrst og fremst ráðstöfun á greiðsluafgangi frá árinu 1967, því að ekki verður hjá því komizt, að það bókast út sem útgjöld á árinu 1967, greiðsluafgangurinn frá 1966. Þar er um að ræða eitt út af fyrir sig 140 millj. kr. Þar að auki eins og menn muna var verðstöðvun gildandi meiri hluta þessa árs, sem leiddi af sér veruleg útgjöld vegna aukinna niðurgreiðslna, eða sem nam nærri 50 millj. kr., og enn fremur fóru útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, sem eru lögbundnar, fram úr áætlun, sem nam um 20 millj. kr., og útskýrir það meginhlutann af þessum útgjöldum. Það eru hins vegar tiltölulega mjög lágar fjárhæðir, sem um er að ræða sem umframútgjöld á hinum einstöku greinum, og sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það.

Það kann hins vegar að þykja nokkuð há upphæð, að gert er ráð fyrir, að út verði veittar til eignaaukningar 365 millj. kr. sérstaklega, en hér koma til greina atriði, sem í stórum dráttum má segja, að skiptist í fáeina liði.

Það er í fyrsta lagi það, að vangreiddar tekjur frá innheimtumönnum voru 64 millj. meiri þetta ár en árið áður. Þá var óhagstæður greiðslujöfnuður, ef svo má segja, á geymdu fé, sem getur numið miklum fjárhæðum frá ári til árs, en nam þetta ár um 95 millj. kr. Þá er hér einnig að finna öll veitt lán, sem til falla á árinu. og þar er fyrst og fremst um að ræða spariskírteinalán ríkissjóðs, sem hér eru færð til útgjalda, og þykir formlega rétt að leita eftir fjáraukalagaheimild fyrir því af bókhaldsástæðum, og enn fremur voru mjög háar upphæðir í tollalánum til Landsvirkjunar, sem eru lögum samkv. tollalán til Rafmagnsveitna ríkisins, lán vegna síldarleitarskips og ýmislegt annað, sem ég hirði ekki um að tíunda frekar, en allt var veitt með sérstökum lagaheimildum, sem veldur því, að hér verður um svona háa fjárhæð að ræða. Hér er sem sagt ekki um að ræða nein óeðlileg útgjöld vegna ríkiskerfisins í hinni þrengri merkingu.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar við þessa umr. Það gefst þá tilefni til þess við 2. umr., ef sérstakar fsp. koma fram, að ræða málið nánar í einstökum atriðum, ef mönnum sýnist svo, en legg til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.