13.02.1969
Efri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Öllum hv. þingdeildarmönnum er kunnugt um samgönguáætlun Vestfjarða, sem unnið hefur verið að tvö undanfarin ár, og fengið var á sínum tíma lánsloforð til frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins. Þeirri áætlun átti að vera lokið nú, eða síðasta ár hennar var árið 1968. Það hefur hins vegar farið svo, sem við mátti búast, að kostnaður við þessar framkvæmdir hefur orðið all miklu meiri heldur en upphaflega var gert ráð fyrir, og reyndist því nauðsynlegt, til þess að unnt yrði að ljúka áætluninni, að leita eftir viðbótarfjármagni. Það var því sótt um það til Viðreisnarsjóðsins, að veitt yrði, sem svaraði sömu fjárhæð og árlega hefur verið veitt undanfarin ár til að ljúka Vestfjarðaáætlun.

Þá hefur einnig verið skýrt frá því hér á Alþ. í sambandi við Norðurlandsáætlun þá, sem unnið hefur verið að í nokkurn tíma, að leitað yrði eftir því við sama sjóð, hvort ekki mundi auðið í framhaldi af lánveitingu til Vestfjarðaáætlunar að fá nokkurt lánsfé vegna Norðurlandsáætlunar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, ber kannski, að því sem hv. þdm. finnst, nokkuð einkennilega að, að það skuli hafa orðið að setja brbl. í þinghléi til þess að fá heimild vegna lántöku til þessara tveggja áætlana. En ástæðan er sú, að málið var endanlega afgreitt frá Evrópusjóðnum, eftir að þinghlé hófst nú rétt fyrir áramótin, og jafnframt var ríkisstj. tjáð, að lánsfé það, sem yrði til ráðstöfunar og ákveðið var að veita Íslandi, væri hluti af láni, sem Evrópusjóðurinn væri að bjóða út á Evrópumarkaði og verður í þýzkum mörkum, og ef við ætluðum að taka þessi lán, þá yrðum við að taka þau fyrir lok janúarmánaðar. Af þessari ástæðu var það, sem óumflýjanlegt reyndist að setja brbl. þau, sem hér er leitað staðfestingar á. En þau eru, svo sem hv. þingdeildarmönnum er ljóst, varðandi tvenns konar áætlanir, annars vegar fjárupphæð sem svarar 45 millj. ísl. kr., sem mundi ganga til Vestfjarðaáætlunar, og 180 millj. kr., sem mundi ganga til Norðurlandsáætlunar.

Ég hef skýrt frá því áður hér á Alþ., ég hygg í Sþ., að ég teldi rétt að birt væri samgönguáætlun Vestfjarða. Hún hefur oft verið til umræðu, og fsp. margar um hana komið. Það hefur á hverju ári verið upplýst til hverra framkvæmda það fé væri ætlað, sem veitt var af þeim lánum, sem til hennar hafa verið tekin á undanförnum árum. Ég vil láta það koma hér fram við þetta tækifæri, að Efnahagsstofnunin er nú að vinna að því að taka saman þessa áætlun endanlega, þar sem gerð er grein fyrir bæði upphafi hennar og hvernig að henni hefur verið unnið hvert einstakt ár. Nú sér fyrir endann á þessum framkvæmdum, og gefst mönnum þá kostur á að sjá, hvernig að málunum hefur verið unnið upphaflega og hvernig framkvæmdum hefur verið hagað til þess að ljúka þeirri áætlunargerð. Ég vænti þess að geta látið hv. alþm. þessa áætlun í té nú innan skamms tíma. Mér þykir rétt hins vegar í sambandi við þetta mál að segja um þetta nokkur orð, varðandi Vestfjarðaáætlunina. Eins og ég áðan sagði, þá er gert ráð fyrir, að með þessari lántöku nú sé séð fyrir endann á þessum framkvæmdum. Framkvæmdakostnaður við samgönguáætlun Vestfjarða nam um síðustu áramót 139,6 millj. kr., en í upphafi áætlunar hafði verið reiknað með 171,6 millj. kr. heildarkostnaði. Framkvæmd allrar áætlunarinnar mun eftir því sem bezt verður séð nú verða um 210 millj. kr. Um síðustu áramót nam erlend fjáröflun til áætlunarinnar 93 millj. kr., en innlend fjáröflun 46,6 millj. kr. Það má segja, að innlenda fjáröflunin til hafnargerðar hafi um það bil staðizt áætlun, innlend fjáröflun til vegamála var mun minni en ráð var fyrir gert, og sáralitlu fé af innlendu fjármagni varið til flugvallagerðar. Um vegina skal það sagt í stuttu máli, að vegaframkvæmdum í nágrenni Patreksfjarðar, sem gert var ráð fyrir, er lokið, og afborganir og vextir af þeim lánum eru greiddir með framlögum úr Vegasjóði.

Vestfjarðavegur sunnan Þingmannaheiðar: Þeim vegi er nú langt komið og hefur verið unnið fyrir 12,5 millj. á undanförnum 4 árum og áætlað er, að kosti 9.4 millj. að ljúka þessu verki. Nauðsynleg lánsfjáröflun í sambandi við þann veg er um 9 millj. kr. eða tæplega það.

Vestfjarðavegur á Gemlufallsheiði: Það var upphaflega gert ráð fyrir, að þessi vegur yrði lagður árið 1968, en ákveðið var í framkvæmdaáætlun fyrir það ár að fresta verkinu til 1969, þar sem hentugra þótti að beina framkvæmdum fyrst að veginum á Breiðadalsheiði. Það er áætlað, að kostnaðurinn við þessa vegagerð verði um 8.7 millj. kr. Þá hefur verið gert á sínum tíma ráð fyrir jarðgöngum undir Breiðadalsheiði. Gert er nú ráð fyrir að leggja þann veg með öðrum hætti; framkvæmdakostnaður við þessa vegagerð er allmikill og er gert ráð fyrir 7.9 millj., sem fari til þess vegar.

Í Súgandafjarðarvegi hefur verið unnið fyrir 3.6 millj. á árinu 1968. Það kostar um 6.9 millj. að ljúka þessum vegi og verður lánsfjáröflun í hann samkv. því.

Í Bolungarvíkurvegi hefur verið unnið fyrir 5.6 millj. á undanförnum 4 árum. Kostnaðurinn við að ljúka þessari vegaframkvæmd er áætlaður 8.3 millj., og er þá vegurinn milli Hnífsdals og Ísafjarðar innifalinn í þeirri kostnaðaráætlun. Þar er nauðsynleg lánsfjáröflun um 6.4 millj.

Flugvallarvegi á Ísafirði er lokið. Flugvallarframkvæmdum við Patreksfjarðarflugvöll var lokið á tveimur fyrstu árum áætlunarinnar. Við flugvöllinn á Ísafirði er enn eftir að ljúka framkvæmdum, sem gera má ráð fyrir, að kosti um 11 millj. kr. og þarf að afla lánsfjár fyrir að mestu eða öllu leyti.

Hafnagerð er mjög langt komin, þannig að það má telja, að lokið sé hafnargerð á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Súðavík, og síðasta árið var unnið fyrir verulega fjárhæð við Bolungarvíkurhöfn. Þá átti að hefja framkvæmdir á Ísafirði, en varð ekki úr m.a. vegna vinnunnar við Bolungarvík, en í áætlun fyrir árið í ár er gert ráð fyrir mjög verulegum framkvæmdum við Ísafjarðarhöfn.

Eins og ég áðan sagði, er gert ráð fyrir því, að samtals muni með innlendum fjárveitingum á þessu ári og hinni nýju lántöku vera auðið að ljúka framkvæmdum við Vestfjarðaáætlun, þ.e.a.s. samgöngumálaþátt Vestfjarðaáætlunar. Þó verður að segja, að það vantar enn þá nokkra fjárhæð, sem kemur þá til álita í sambandi við fjáröflun úr öðrum áttum, þar sem þar er ekki nema um litla fjárhæð að ræða, eða 12.2 millj. kr. samtals, sem þyrfti að afla þá innanlands og mundi ganga m.a. til hafnagerðar og kemur þá til athugunar í sambandi við fjáröflun til hafnagerðar almennt. En það má segja, að málin líti þannig út, að með þessari lánsfjáröflun fái þessi áætlun staðizt og sjái þegar fyrir endann á henni og eigi ekki að þurfa að gera ráð fyrir, að frekari fjáröflun þurfi þar að koma til.

Um Norðurlandsáætlun er það að segja, að hún er ekki hafin eða framkvæmd hennar. Ég hef áður gert grein fyrir því, að það var áætlað, að henni yrði lokið nú um síðustu áramót. Það hefur ekki tekizt að öllu leyti að gera það, og eru ýmsar ástæður, sem því valda, m.a. sérstakar annir, sem lagðar voru á Efnahagsstofnunina á síðustu mánuðum síðasta árs, eins og hv. þdm. er vel kunnugt um. En það hefur engu að síður stöðugt verið unnið að áætluninni og má segja, að sjái nú fyrir endann á atvinnumálakafla hennar. Fyrstu þáttum hennar er þegar lokið, og sá þáttur hennar, sem fjallar um atvinnumálin almennt, má heita tilbúinn einnig. En samkv. því, sem upphaflega var gert ráð fyrir, voru vinnubrögðin í sambandi við áætlunina áformuð á þann veg, að áður en endanlega yrði skilað áætluninni væri hún rædd við sveitarstjórnir og samtök launþega norðanlands. Áætlunin mun nú vera tilbúin, eða þessir þættir hennar, til þeirra viðræðna og eru þær annaðhvort hafnar eða að hefjast. Lánsfé er þarna að þessu marki til staðar, þegar ákveðið verður í hvaða þætti verður ráðizt. En ekki er unnt að gera sér grein fyrir því, fyrr en áætlunin endanlega liggur fyrir. Ég tel sjálfsagt, þegar áætlunin liggur fyrir, að þá fái hv. þm. hana einnig til meðferðar. Að hve miklu leyti hún kemur sjálf í heild til lögfestingar skal ég ekkert um segja. Það fer eftir því, í hvaða formi hún verður. Að svo miklu leyti, sem þar verður gert ráð fyrir fjáröflun til almennra framkvæmda á vegum einstaklinga, félaga og byggðarlaga, sem aðeins er fólgin í fyrirgreiðslu lánveitinga, þá auðvitað þarf það ekki að koma til kasta Alþ. sem slíks, né lagasetning um það og ég reikna ekki með því, að áætlunin sem slík verði lögfest. Slíkar áætlanir eru ekki þess eðlis, heldur hugsaðar sem vinnuplan, og mundi hún þá væntanlega vera vinnuplan fyrir Atvinnujöfnunarsjóð, þegar þar að kemur.

Niðurstaðan varð sú með bæði þessi lán, að Framkvæmdasjóði Íslands var falið að taka lánin. Ráðstöfun Vestfjarðaáætlunarhlutans verður í samræmi við Vestfjarðaáætlunina, en ráðstöfun Norðurlandsfjárins verður ekki ákveðin, fyrr en sú áætlun liggur fyrir nánar og ákveðnar tillögur um, með hverjum hætti verði ráðizt í framkvæmdir þar. En gera má ráð fyrir, að að lokum verði það Atvinnujöfnunarsjóður, sem tekur þetta lán og annast ráðstöfun þess í samræmi við lög um sjóðinn, þar sem gert er ráð fyrir, að hann hafi með höndum lánveitingar vegna byggðaáætlana og annist um framkvæmd þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema frekara tilefni gefist til, að ræða þetta frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.