13.02.1969
Efri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur rætt nokkuð um Norðurlandsáætlun, hvernig að henni hefur verið staðið og hvernig honum finnist eðlilegt, að að henni sé staðið og síðan að framkvæmd hennar. Það er auðvitað ósköp eðlilegt, að slíkar hugleiðingar komi fram vegna þess, að um þetta hefur og hafa ekki endanlega verið teknar ákvarðanir.

Um Vestfjarðaáætlun er það að segja, að það er alveg rétt, að birting hennar nú er að sjálfsögðu fyrst og fremst skýrsla. En hún gerir þó um leið grein fyrir því hvernig áætlunin hafi verið í upphafi. Hún hefur að sjálfsögðu verið hér til meðferðar á Alþ. á hverju ári í sambandi við fjárveitingar og í sambandi við þær lántökur, sem samþykktar hafa verið hennar vegna. Þannig að þó að sumir hafi efazt um í byrjun, að hún væri til, þá held ég, að það fari ekki á milli mála, að hún hefur verið framkvæmd, hvort sem hún hefur nokkurn tíma verið til eða ekki, og það er kannski kjarni málsins. En það mun þá a.m.k. liggja fyrir svart á hvítu þegar þessi skýrsla verður birt, sem verður nú á næstunni, eins og ég áðan sagði, og upphaflega áætlunin einnig. Menn geta þá borið saman áætlunina og framkvæmd hennar og er það auðvitað ekki annað en æskilegt.

Ég mun hafa sagt það, að ég teldi eðlilegt, að Norðurlandsáætlun yrði birt, a.m.k. hv. þm., hvort sem hún yrði gefin út eða ekki. Það er annað mál, fer eftir því, hvernig form hennar kemur til með að verða í einstökum atriðum, sem ég get ekki alveg sagt á þessu stigi málsins. Hins vegar tel ég mjög vafasamt, að slík áætlun verði í því formi, að það sé hægt að lögfesta hana. Það er erfitt að ræða um það á þessu stigi, en mjög mikilvægir þættir í þeirri áætlun eru fyrst og fremst greinargerðir um viðfangsefni, sem auðvitað er hægt að mæta með mjög mismunandi hætti. Það verður ekki mælt fyrir um í þessari áætlun, að tiltekin verksmiðja skuli reist hérna og tiltekið annað fyrirtæki á hinum staðnum. Það verður ekkert í þá átt. Það verða að sjálfsögðu ákveðnar till., sem að meira eða minna leyti verða almenns eðlis, en að því er varðar atvinnumálin verða með það meginsjónarmið í huga að reyna að tryggja því fólki, sem bæði býr nú á Norðurlandi og einnig bætist á vinnumarkað þar á næstu árum og tugum, viðhlítandi lífsskilyrði. Þetta má auðvitað alltaf gera með ýmsum hætti og getur vel farið svo, að í áætluninni komi fram fleiri en ein ábending varðandi lausn tiltekinna vandamála í því sambandi og því er ákaflega örðugt um lögfestingu. Áætlun sem þessi hefur auðvitað fyrst og fremst þýðingu að því leyti, að hún gerir mönnum ljóst, hvaða vandamál er við að glíma og gerir mönnum ljóst af hvaða stærðargráðu það er og hvað helzt kæmi til greina til að leysa það. Hvort menn eru reiðubúnir til þess að lögfesta það allt í einu eða hafa það til hliðsjónar við framkvæmdir og fjárráðstafanir, er aftur á móti annað mál. Þetta getur varðað t.d. marga sjóði og fjármálastofnanir í landinu og hina og aðra aðila, og tiltölulega getur orðið erfitt að lögfesta, hvernig skuli bregðast við þessum vandamálum.

En kjarni málsins er auðvitað sá, sem hv. þm. sagði og er alveg rétt, að það þarf að vera einhver ákveðinn aðili, sem sér um það að framkvæma þessa áætlun eftir því, sem frekast er kostur á, og vera samræmandi aðili, t.d. þar sem þarf að leiða saman mismunandi lánastofnanir eða opinbera aðila til fjármagnsöflunar eða annarra ráðstafana til að sjá um tilteknar framkvæmdir. Þetta þarf auðvitað að vera til staðar. Og samkv. gildandi lögum er gert ráð fyrir því, að Atvinnujöfnunarsjóður sé þessi aðili. Það segir í lögum um Atvinnujöfnunarsjóð, þar er ekki átt við Norðurlandsáætlun sérstaklega, heldur segir þar almennt, að Atvinnujöfnunarsjóður láti, eftir því sem hann sjái ástæðu til, gera byggðaáætlanir, sem hafðar verði til hliðsjónar í sambandi við starfsemi sjóðsins um uppbyggingu atvinnulífs á þeim tilteknu svæðum. Norðurlandsáætlunin kom til, áður en þessi ákvæði um Atvinnujöfnunarsjóð voru sett. Hún er, eins og hv. þm. er kunnugt um, til komin vegna samkomulags milli ríkisstj. og Alþýðusambands Norðurlands eða stéttarfélaga launþega á Norðurlandi í sambandi við lausn kjaradeilu og þá var ákveðið hvernig að þessari áætlun skyldi unnið, að Efnahagsstofnunin ynni að þessari áætlun með ákveðið takmark í huga: að tryggja atvinnu fyrir vinnufært fólk á þessu svæði. Það var fyrst og fremst atvinnukaflinn, sem þá var hafður í huga, og að hún skyldi gerð í samráði við samtök sveitarfélaga og launþegasamtök eða heildarsamtök þeirra á þessu svæði. Þannig var ætlunin, að að áætluninni yrði unnið, og þannig hefur verið að henni unnið, og fleiri aðilar hafa ekki verið inn í þetta mál teknir. Og ég tel ekki neitt óeðlilegt við, að það sé svona.

Hitt er auðvitað allt annað mál, sem hv. þm. sagði og ég tel það ósköp eðlilegt, að þm. segi, að þegar áætlun hafi verið gerð, sé það fráleitt, að þeir heyri það úr allt öðrum áttum, að til sé einhver áætlun, sem þeir alls ekki hafi haft aðgang að. Og þess vegna tel ég það sjálfsagt, eins og ég áðan sagði, að eftir að frá áætluninni hefur verið gengið, verði hún birt. En á þessu stigi sé ég ekki neina ástæðu til þess, að hún verði tekin á undirbúningsstigi til umr. við þm. þessara héraða eða aðra aðila nema að svo miklu leyti, sem tilefni gefst til og héruðin óska eftir. Ég hygg, að flest þeirra hafi meira og minna samband við þm. um sínar óskir í sambandi við þessi atvinnumál, og ef það er eitthvað, sem þeim finnst ekki tekið tillit til við undirbúning áætlunarinnar, leiti þau aðstoðar sinna umboðsmanna á þingi um það; og það yrði vissulega hlustað á þeirra orð.

Enn hefur ekki ríkisstj. heldur fengið þessa áætlun, og ég geri ráð fyrir, að fyrsta stigið verði það, að Efnahagsstofnunin skili þessari áætlun til ríkisstj. Og fyrr er í rauninni ekki tímabært að segja um það, hvernig við henni verði snúizt, hvort það þyki ástæða til að fela einhverjum öðrum aðila heldur en þeim, sem eftir almennum lögum, þ.e.a.s. stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, eigi að annast framkvæmd slíkra áætlana. Það tel ég ekki tímabært að gefa neina yfirlýsingu um. En það er rétt, sem hv. þm. sagði, að áætlunargerð með þessum hætti er auðvitað komin það langt, að það hefur þurft að leita til ýmissa aðila með fyrirspurnir um ákveðnar hugmyndir, sem fram hafa komið, hvernig þeir mundu við þeim bregðast. Og það býst ég við, að hann hafi átt við, þar sem hann talaði um, að það hefði verið rætt við aðila í tilteknu byggðarlagi, án þess að það væri beint rætt við sveitarstjórn. En það er til þess, að þeir, sem að áætluninni standa, geti, ef þeim þykir ástæða til, sett fram hugmyndir um þetta. Síðan verður að sjálfsögðu, áður en endanlega verður frá því gengið, hvort sem það er á þessum stað eða öðrum, sveitarstjórnum gefinn kostur á að segja álit sitt á því, hvort þær telji þessar hugmyndir starfsmanna Efnahagsstofnunarinnar skynsamlegar eða ekki. Og þá verður eftir atvikum tekið tillit til þess, hvað mönnum þykir í því efni, og það kemur þá fram í áætlunargerðinni.

Ég held nú ekki sannast sagna, að það sé ástæða eða möguleiki til þess að ræða þetta nánar hér, fyrr en áætlunin liggur fyrir, þ.e.a.s. þessi atvinnumálakafli hennar. Það munu vera eftir ýmsir þættir hennar og því hef ég áður sagt frá, að varðandi menntamál og samgöngumál, kemur ekkert fram í áætluninni á þessu stigi. Það er allmiklu viðameira og samgöngumálin væntanlega verða þáttur í heildarsamgöngumálaáætlun fyrir landið. Hvort sérstök menntamálaáætlun verði gerð fyrir Norðurland eða hvort það verður þáttur í skólaáætluninni, sem unnið er að fyrir landið í heild, skal ég heldur ekki um segja. En það ber ekki að líta svo á, að Norðurlandsáætlun sé endanlega lokið, þó að atvinnumálakafla hennar sé skilað. Það hefur verið skoðun manna, og ég hygg, að það sé enginn ágreiningur á milli okkar hv. 3. þm. Norðurl. v. um, að það sé sá þátturinn, sem menn leggi mesta áherzlu á, eins og sakir nú standa. Og það verður, eins og ég sagði áðan, reynt að hraða því með öllu móti. Og ég tel, að málið sé komið á það stig — það er kannski eins og hann sagði, erfitt að þurfa alltaf að segja það — að það sjáist fyrir endann á því. Það vill nú stundum verða þannig, að það er eitt og annað, sem upp kemur og gerir málin flóknari heldur en maður hafði ætlað. En ég held þó, að það sé örugglega hægt að segja það, að málið er komið á það lokastig, að það er á umræðugrundvelli milli þeirra viðræðuaðila, sem ég gat um, að þarna kæmu til. bæði alþýðusamtakanna fyrir norðan og sveitarstjórnarsambandsins þar eða sveitarfélaganna. Og eftir að þeim viðræðum er lokið, mun Efnahagsstofnunin skila áætluninni væntanlega til ríkisstj., og þá verður endanleg ákvörðun tekin um það, hvaða meðferð hún fær upp frá því.