17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. var nú svo hógvær og elskulegur í seinni ræðu sinni, að það liggur við, að ég sjái eftir því að hafa verið svona hastur við hann í fyrri ræðu minni. Og ég skal sitja alveg á strák mínum í þessari ræðu og svara honum eins og ég hef áður gert, eins og hann hefur sagt, að ef hann hefur spurt skynsamlegra spurninga, þá hef ég alltaf reynt að svara þeim af réttlæti eða á réttan hátt og af skynsemi. En sannleikurinn var sá, að í fyrri ræðu sinni fannst mér hann spyrja og staðhæfa svo óskynsamlega, að ég gat ekki á mér setið að svara honum heldur höstuglega.

En nú spurði hann alveg beinnar spurningar í lok ræðu sinnar: Yrði framlag ríkisins til nýrra skóla alveg það sama, þó að ákveðið yrði að deila með þremur á næsta ári, en ekki fjórum? Og svarið er: Já. Styttra og lagbetra getur það, held ég, ekki verið. Fjvn. er búin að ákveða þá tölu, sem á að ganga til nýrra skóla á næsta ári og sú tala er 33.1 millj. kr., og mér kemur það mjög á óvart, ef hann veit ekki, hvað gerist í fjvn. um jafnmikilvæg atriði og þessi. Þá er fornvini mínum, formanni þingflokks Framsfl. brugðið, Eysteini Jónssyni, ef hann lætur slík mál fá endalok, raunveruleg endalok í fjvn., án þess að skýra sínum þingflokki frá jafnstórkostlega mikilvægri ákvörðun og þessari. Einn flokksbróðir hv. þm. hefur, átt sæti í undirnefnd sem um málið hefur fjallað, jafnduglegur og merkur þm. og Halldór E. Sigurðsson. Hann veit nákvæmlega, hvað hér hefur verið á ferðinni. Ég skil bara ekkert í þessu, ef það er orðið eitthvert leyndarmál í Framsfl., eitthvert pukurmál, hvernig umr. í fjvn. lýkur um jafnstórkostlega mikilvægan hlut og fjárveitingar til nýrra skóla, ekki hvað sízt þegar um er að ræða jafnstórkostlega breytingu og hér á sér stað frá því, sem var í fjárlagafrv. og frá því, sem verið hefur á undanförnum árum, stórkostlega breytingu til hækkunar. Og það þykir kannske ekkert fréttnæmt í Framsfl., þó að meiri hl. Alþ. ákveði það að tvöfalda framlög til nýrra skólabygginga frá því, sem verið hefur s.l. þrjú ár. Kannske það þyki engar fréttir.

Nei, ég á bara eftir að vekja athygli á því, herra forseti. (SE: Er málið búið í fjvn.?) Málið er afgreitt í fjvn., en það var ákveðið þar að geyma þessar till. til 3. umr. og ég veit ekki, hvort allt er búið fyrir 3. umr., en skólamálin eru búin fyrir mörgum dögum. (Gripið fram í.) Já, afgreitt. Ég veit ekki, hvort formleg atkvgr. endanlega hefur farið fram, um það skal ég ekki segja. En mér er tjáð það, að n. hafi lokið efnisafgreiðslu á málinu, þó að kannske formleg afgreiðsla fyrir 3. umr. hafi ekki endanlega farið fram, það náttúrlega skiptir ekki máli.

Annars sagði hv. þm. oftar en einu sinni í ræðu sinni: Þetta skil ég ekki, mér er ekki ljóst, hvað er á ferðinni, og þar fram eftir götunum, og ég bara endurtek þetta sem hans orð. Hann skilur auðsjáanlega alls ekki, hvað hér er á ferðinni, og við því get ég bara ekki gert. Ég er búinn að reyna að skýra þetta einu sinni í stuttri ræðu og ég er viss um, að allir aðrir þm. eða a.m.k. næstum allir aðrir þm., a.m.k. allir þm. utan hans flokks áreiðanlega hreint — ég skal ekki taka ábyrgð á öllum þm. Framsfl. í þessu efni — en þeir hafa áreiðanlega skilið þetta, hvað hér er um að ræða. Þeir hafa skilið. hvers vegna nú er lagt til að deila með 4 í staðinn fyrir það að deila með 3. Það er gert til þess að koma fleiri nýjum skólum að á árinu 1969 en ella hefði orðið, fyrir þessar 33.1 millj. kr.

Þetta læt ég nægja til þess að upplýsa málið. Ef hv. þm. vill fá enn frekari upplýsingar, hafi hann ekki skilið þetta enn, þá skal ég fúslega ræða við hann einslega til þess að reyna að koma honum í skilning um, hvað hér er á ferðinni.