16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, þó að mikið væri hægt um þetta mál að segja. Það hefur verið nokkuð um það rætt, hvað þessi Norðurlandsáætlun ætti að fjalla um, og vægast sagt hefur það verið mjög á reiki, eftir þeim upplýsingum, sem hægt hefur verið að fá um það.

Ég minnist þess, að skömmu áður en núv. bæjarstjóri á Akureyri, þáv. starfsmaður Efnahagsstofnunarinnar, tók við sínu starfi, innti ég hann eftir því, hvað Norðurlandsáætlun liði og um hvað hún fjallaði, og hann kvað hana snúast aðallega um skipulagningu samgangna á Norðurlandi og rakti mér ýmsa þætti í sambandi við það, um flugvallaáætlanir, vegaáætlanir og hafnir. Á s.l. ári, eftir að kominn var sérstakur starfsmaður Norðurlandsáætlunar á Akureyri, ferðaðist hann um héruðin og ræddi við forráðamenn skólabygginga og snerust umræðurnar að mestu um að fá sveitarstjórnir og skólanefndir til að falla frá því að byggja heimavistir við barna- og unglingaskóla og var bent á það, að því fé mundi betur varið til þess að leggja vegi og meira en látið í það, skína. Það skildu forráðamenn sveitarstjórnanna þannig, að það væri verið að lofa þeim þessu fé í ákveðna vegi, ef þeir tækju þessum fortölum, hvað margir og gerðu, en þykir sumum nú minna um efndir á því að fá fé í þessa ákveðnu vegi. Þetta gat verið mjög skynsamleg lausn á málinu. Ég er ekki að segja það. En þarna kemur í ljós, að þá virtist Norðurlandsáætlunin að nokkru leyti snúast um skólamál.

Það skiptir kannske ekki höfuðmáli, hvað þarna er um rætt. Það er augljóst, að það hefur verið vikið að fleira heldur en atvinnumálunum, enda margt þeim tengt. Ég vil t.d. halda því fram, að vegalagning og rafvæðing geti verið eitt af nauðsynlegustu grundvallaratriðum undir atvinnuuppbyggingu. Ég vil benda á það, að það að koma rafmagni á býlin, getur haft úrslitaáhrif á það, að þau haldist í byggð og sveitirnar haldist í byggð. Það er ekki síður mikilvægt fyrir héruðin í heild og ekki síður einmitt fyrir þessa staði, sem mest mun hafa verið reyndar hugsað um í sambandi við atvinnuna, þorpin og kaupstaðina, því að vissulega fá þorpin mjög mikið af sinni atvinnu frá þessum byggðum, og ef þær fara að dragast saman, þá er auðvitað minna um atvinnu í þorpum og kaupstöðum. Alveg það sama er um vegina að segja, að þeir auðvitað eru grundvallaratriði fyrir atvinnurekstrinum og þeir vegir, sem við hv. 1. þm. Norðurl. v. nefnum þarna, eru ábyggilega á þeim leiðum, að þá má kalla grundvallaratriði fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum. Ég get ekki séð annað en þetta geti þá fullkomlega fallið þarna saman — þó að það sé nokkurt misræmi í því — þó að við leggjum þarna til, að það sé lagt ákveðið fjármagn, tiltölulega hóflegt í vegina og rafvæðinguna. Og ég vil benda á það, að þetta skiptir svo miklu máli fyrir ákveðin héruð, ákveðna landshluta, sérstaklega þar sem harðindin hafa verið verst að undanförnu, að það er kannske ekki minnst það, ef maður mætti segja, sálfræðilega í þessu, að þessir landshlutar finni það, að það eigi að koma þeim til bjargar, en það sé ekki uppgjöfin ein, sem blasir þarna við. Þó ekki væri fyrir annað, væri full ástæða til að taka alveg sérstaklega fram fjárveitingar til rafvæðingar og vega til þessara héraða. Ég á t.d. alveg sérstaklega við héruðin og sveitirnar í Norður-Þingeyjarsýslu og reyndar Norður-Múlasýslu, þar sem verið hefur sérstakt harðæri að undanförnu. Þetta er mjög alvarlegt mál og væri ekki of mikið, þó að þetta væri tekið alveg sérstaklega fram. Ég vil líka benda á það, að eins og þetta horfir og ef við lítum á þessa Norðurlandsáætlun sérstaklega sem atvinnumálaáætlun, þá getur manni vel virzt það koma til greina, að það hallist nokkuð á. Ég vildi segja það þannig: verkalýðsfélögin eiga þarna aðild að og sveitarfélögin eða samtök sveitarfélaganna. Auðvitað eru bæirnir þar sterkari og það væri ekki ástæðulaust að líta sérstaklega til sveitahreppanna í þessu tilliti. Ég vil mega benda á, af því að það mun hafa verið borin fram fsp. um Sandárvirkjun hér sérstaklega, að hún væri ábyggilega eitt af þeim atriðum, sem mestu gæti valdið um þetta, sem ég hef áður nefnt í sambandi við það að veita þessum héruðum það, sem maður gæti kallað lífsvon.