16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv: fjmrh. fyrir hans svör í sambandi við þær spurningar, sem ég bar hér fram í sambandi við þetta mál. En þó harma ég það, að hann gekk framhjá einni spurningunni. Hann gat um það, að samgöngumálin eða vegamálin í raun og veru féllu ekki undir þennan hluta áætlunarinnar, sem búið er að gera. En hann gat um það, að rafvæðingin gerði það að nokkru leyti, en vildi ekki ræða það nánar. Ég bar fram hér alveg ákveðna spurningu, sem ég vil endurtaka og óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gefi svör við. Ég spurði sérstaklega um Sandárvirkjun, vegna þess að það er mjög erfitt, eins og ég gat um, í Norður-Þingeyjarsýslu með rafvæðinguna þar. Það eru dieselstöðvar, sem skaffa þeim þar rafmagnið, en það er ákaflega erfiður rekstur, eins og allir vita, síðan gengisfellingarnar voru gerðar. Og þar sem í ljós hefur komið, að Sandárvirkjun er mjög hagkvæm virkjun, vil ég enn spyrja, hvort það komi til mála, að hún verði tekin inn í þessa áætlun.

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að hann liti á Norðurlandsáætlun fyrst og fremst sem rammaáætlun, er ég honum alveg sammála. En ég get ekki verið honum sammála að því leyti, að það sé eðlilegt, að það sé Atvinnujöfnunarsjóður, sem fjalli um þessi mál, en ekki þingið. Ég lít svo á, að með þessari áætlun sé í raun og veru verið að benda okkur á valkosti ýmsa, og það sé þá þingið, sem eigi að taka ákvörðun um hvern kostinn í þessu og þessu tillitinu á að taka. Og mér finnst það vera ákaflega einkennileg vinnubrögð og tek undir við hv. 4. þm. Austf., mér þykir ákaflega einkennilegt, að það skuli vera sagt af hæstv. fjmrh. sjálfum, að það sé í raun og veru ekki þingsins heldur Atvinnujöfnunarsjóðs að fjalla um þessi mál og taka ákvarðanir.