17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er sá munur á því að eiga orðastað við hv. síðasta ræðumann og ýmsa framsóknarmenn, sem hér láta mikið til sín heyra, að hann skilur ræðu annarra manna og hann veit sjálfur, hvað hann er að segja. Og þetta er út af fyrir sig mjög mikils virði. Hv. þm. sagði í upphafi ræðu sinnar, að það væri hans stefna, að það ætti að halda ákvæðum skólakostnaðarlaganna og hafa fjárveitingar í væntanlegum fjárlögum þeim mun hærri. Í þessu er auðvitað fullt samræmi. Í þessu er heil hugsun, og það ber út af fyrir sig að virða. En staðreynd málsins er sú, að ekki hefur orðið samkomulag um hærri fjárveitingu til nýrra skóla á næsta ári en 33.1 millj. kr. Og hvernig svo sem verður um tillöguflutning um það mál við 3. umr. málsins, — ég get búizt við honum í framhaldi af þessum umr., — þá veit ég ekki betur en almenn samstaða hafi orðið um það hjá þeim mönnum í fjvn., sem um málið fjölluðu, að þetta væri vel viðunandi lausn á málinu, enda stórkostleg aukning á fé frá því, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Svo mikil aukning, að ég sá ástæðu til þess áðan tvívegis að þakka fyrir skilning hv. fjvn. á þörfunum fyrir nýjar skólabyggingar, sem vissulega eru mjög miklar, sem vissulega eru stórfenglegar. En hins vegar verða a.m.k. stjórnarstuðningsmenn að gera sér grein fyrir því, að því eru takmörk sett, hversu hægt er að auka fjárveitingar til einstakra flokka framkvæmda, þótt nauðsynlegar séu. Mér kemur ekki til hugar að ætlast til þess, að stjórnarandstæðingar sýni yfirleitt sama skilning á því, eins og stjórnarsinnar verða að gera. Þess vegna er ég í sjálfu sér ekkert hissa á því, þó að hv. 6. þm. Reykv. hafi þá skoðun, sem hann hefur. Ég hef ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Mér er engin launung á því, að ég persónulega hefði kosið, að þessi fjárveiting hefði orðið enn hærri. En ég beygi mig fúslega fyrir þeim rökum, sem fjvn. og fjármálastjórnin færir fyrir því, að eins og á stendur, sé ekki hægt að fá meira fé til þessara framkvæmda en þessar upphæðir, og ég vek athygli á því, að ég held, að enginn einstakur málaflokkur við afgreiðslu fjárlaga hafi fengið jafn jákvæða afgreiðslu og einmitt skólamálin, bókstaflega enginn flokkur við afgreiðslu fjárlaga hafi fengið eins jákvæða afgreiðslu og skólamálin. Þetta sýnir skilning þess þingmeirihluta, sem ber fjármálaábyrgð í landinu, á því, að hér sé um sérstaka þörf að ræða, sem reynt er að taka tillit til eftir fremsta megni. Einhvers staðar verður hámarkið að vera, og það verður 33.1 millj. kr. nú í ár, og mér eru það vonbrigði, ef það er talið mér til sjálfhælni, þó að ég víki að þessu. Ég hef ekki vikið að þessu að fyrra bragði. Ég hef ekkert tilefni gefið til þess, að ég fengi tækifæri að koma hér í pontuna og segja frá þessu. Ég hefði steinþagnað um þetta, ef hv. þm. Sigurvin Einarsson hefði ekki haldið hér jafnfurðulega ræðu og hann hélt. Ég vil láta þetta koma fram með eðlilegum hætti við 3. umr. fjárl. og ekki vera að eigna mér þetta frekar en nokkrum öðrum. Meira að segja, og það vona ég, að geti talizt nokkur rök gegn því, að hér sé um einhverja sjálfhælni hjá mér að ræða, tók ég það sérstaklega fram í fyrri ræðu minni, að ég vildi eigna stjórnarandstöðunni fyllilega sinn þátt í þeim góða skilningi, sem afgreiðsla skólamálanna hefur fengið eða væntanlega fær við þessa fjárlagaafgreiðslu.

Um Kennaraskólann er það að segja, að ég viðurkenni það fúslega, að hann á við mikla húsnæðiserfiðleika að etja. Þeir eiga rót sína að rekja til þess, að vöxtur Kennaraskólans, eftir að ný löggjöf um hann var sett 1963, hefur verið með fádæmum. Engum manni, bókstaflega engum manni, datt þá í hug, að sú löggjöf mundi leiða til þeirrar byltingar í aðsókn að Kennaraskólanum og aðsókn að kennaramenntun yfir höfuð að tala, sem raun hefur á orðið. Mér er engin launung á því, að það er mjög líklegt, að áætlanir um byggingarframkvæmdir hefðu orðið allt öðruvísi á sínum tíma, ef okkur hefði rennt grun í það, að sú nýskipan, sem gerð var með nýju kennaraskólalöggjöfinni, mundi leiða til jafnstórkostlegrar aðsóknar að skólanum eins og raun hefur borið vitni um. Mér er nær að halda, þó að ég muni ekki tölurnar nákvæmlega, að nemendafjöldi skólans núna sé eitthvað átt- eða nífaldur við það, sem var, áður en nýju kennaraskólalögin tóku gildi. Ég þekki ekkert dæmi um vöxt nokkurs skóla á Íslandi jafnöran og átt hefur sér stað í Kennaraskólanum. Það má hver, sem vill, lá menntmrn. eða fræðsluyfirvöldum það að hafa ekki séð þessa geysilega öru þróun fyrir. Hitt er aftur á móti ekki rétt hjá hv. þm., að ekkert hafi verið gert í byggingarmálum Kennaraskólans, síðan þessi nýja löggjöf var sett. Það er verið að byggja æfingaskóla fyrir Kennaraskólann, sem væntanlega kemur í gagnið á næsta hausti og mun leysa að nokkrum hluta, — ég vil ekki segja meira heldur en ég tel vera rétt, — sem mun leysa vandamál Kennaraskólans að nokkrum hluta. Ástæða þess, að ekki hefur verið talið hægt að gera enn meira en þetta í byggingarmálum Kennaraskólans, er það, að fyrir nokkrum árum voru gerðar framtíðaráætlanir í byggingarmálum menntaskólanna, byggingaráætlanir, sem ég legg megináherzlu á, að verði staðið við. En þær eru svo fjárfrekar, að ekki hefur þótt fært að gera nýja framtíðarbyggingaráætlun fyrir Kennaraskólann, fyrr en séð er fyrir endann á a.m.k. sumum af þeim byggingum, sem nú eru á döfinni fyrir menntaskólastigið. En það eru byggingarnar á Laugarvatni. Það stendur til að tvöfalda Laugarvatnsmenntaskólann að húsnæði á þremur árum, og það er verið að byggja nýjan menntaskóla á Akureyri, sem er stærri en gamli skólinn, og þeirri byggingu á að ljúka á 2–3 árum. Og þetta kom í framhaldi af því, að byggður var nýr menntaskóli í Reykjavík, sem er stærri en gamli skólinn. Og enn fremur er verið með í byggingu langstærsta menntaskóla á Íslandi, sem er Hamrahlíðarskólinn. Þetta eru svo stórkostlegar framkvæmdir á menntaskólasviðinu, að því miður hefur ekki þótt fært enn sem komið er að bæta byggingaráætlun fyrir Kennaraskólann inn í þessa menntaskólaáætlun, því að Kennaraskólinn er núna orðinn að raunverulegum menntaskóla. Ástæðan til þess, að svo mikið hefur þurft að gera á skömmum tíma í menntaskólamálum á undanförnum árum, er sú, að um áratugaskeið voru byggingarmál menntaskólanna algerlega vanrækt, um áratuga skeið. Það voru hér allan áratuginn 1950–1960 deilur um það, hvar nýr menntaskóli í Reykjavík skyldi rísa. Það var ákveðinn einn staðurinn, hætt við hann, annar staðurinn, hætt við hann og þriðji staðurinn, hætt við hann. Og þetta gerði það að verkum, að alger stöðnun var í byggingarmálum Menntaskólans næstum um 15 ára skeið, raunar allar götur frá því í stríðinu, að þáverandi rektor Menntaskólans átti sæti hér á hinu háa Alþ. og hreyfði málinu, kom því nokkuð áleiðis hér, en það strandaði síðan allt saman á pexi og ómerkilegum deilum um staðsetningu skólans, þannig að í raun og veru var það mál á döfinni í 15 ár, án þess að nokkuð væri að gert.

Þegar ég kom að þessum málum, voru menntaskólamálin í fullkomnu óefni, svo miklu óefni, að vandamálið virtist næstum því óleysanlegt. Og ég segi ekki, að það sé mitt verk, því fer víðs fjarri, en þó má segja, að já, ég biðst enn undan því, að það sé um nokkra sjálfhælni að ræða hjá mér í þeim efnum, en ég kemst ekki hjá því að skýra frá staðreyndum í þessu, fyrst vakið er máls á þessu, — að á undanförnum árum hefur sem betur fer verið gert stórkostlegt átak í byggingarmálum menntaskólanna, þó að enn sjái ekki fyrir endann á því, og fyrst og fremst við Hamrahlíðarskólann, sem er með byggingarframkvæmdir upp á 100 millj. kr. Og þess er að vænta, að því verki verði lokið eftir gerðum áætlunum. En mín von er sú, að þegar byggingarframkvæmdum á Laugarvatni og byggingarframkvæmdum á Akureyri er lokið, verði hægt að hefjast handa af fullum krafti við það að ljúka Kennaraskólanum og sjá honum fyrir nauðsynlegu húsnæði. Ég held, að það sé rétt, að það komi fram í þessu sambandi, fyrst verið er að ræða þessi mál. Ég hef ekki skýrt frá því opinberlega áður, að forráðamenn Kennaraskólans eru þeirrar skoðunar og hafa gert um það tillögu, að takmarkaður verði aðgangur að Kennaraskólanum, ekki fyrst og fremst af húsnæðisástæðum, heldur vegna þess, að þeir telja aðsókn að Kennaraskólanum of mikla. Þessu hef ég neitað, neitaði því á s.l. hausti, og verði ég í minni stöðu áfram, mun ég enn neita því. Það vil ég, að komi algerlega skýrt fram, að húsnæðisvandræði Kennaraskólans, sem vissulega eru mikil núna, mikil og alvarleg, munu ekki verða látin verða til þess, að þeir fái ekki inngöngu í Kennaraskólann, sem þangað óska að komast inn, meðan ég sit í embætti. Ef ekki reynist hægt að kenna þeim nemendum, sem þangað vilja koma, í gömlu byggingunni og æfingaskólanum og gamla skólanum, sem enn er í notkun, og smávegis leiguhúsnæði öðru, þá verður tekið annað leiguhúsnæði til bráðabirgða, til þess að allir geti fengið að komast í Kennaraskólann, sem þangað eiga rétt á að koma eftir þeim reglum, sem nú um það gilda. Ég vil, að enginn misskilningur geti komizt að um þetta.

Að allra síðustu vildi ég svo segja, að auðvitað er skortur á skólahúsnæði hér á Íslandi. Það er öllum mönnum ljóst, mér eins og öllum öðrum hv. þm. og eins og öllum öðrum skólamönnum. En það vildi ég láta verða mín síðustu orð að benda á, að það er ekkert einsdæmi um Ísland. Á árunum og áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina hefur gengið slík menntunaralda yfir allar vestrænar og austrænar þjóðir - eða allar þjóðir í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku a.m.k. að þörf hefur verið á stórauknu skólahúsnæði, meiri þörf en víðast hvar hefur verið hægt að fullnægja. Þetta á jafnvel við um langríkasta ríki veraldar, Bandaríkin. Þar er verulegur skortur á skólahúsnæði, ekki væntanlega vegna þess, að Bandaríkin séu ekki nógu rík til þess að sinna því, heldur vegna þess sama og hér, að það er alltaf deila um það, í hvað skuli nota auknar þjóðartekjur, í hvað skuli nota aukin ríkisútgjöld, og þar hefur ekki niðurstaðan orðið sú að nota bókstaflega allan tekjuauka til að fullnægja allri eftirspurninni eftir skólahúsnæði, heldur hefur þar orðið að fara, eins og alls staðar annars staðar, bil beggja, þó að þeir hafi gert mjög mikið í þessum efnum. Þetta á líka við um öll Norðurlöndin, jafnvel Svíþjóð, sem er langríkust Norðurlandanna. Og í sumum Norðurlandanna er skortur á skólahúsnæði svo mikill, að það er takmarkaður aðgangur að fjölmörgum skólum, bæði háskólum og óæðri skólum. Hér á landi er ekki takmarkaður aðgangur að neinum skóla og verður ekki, meðan ég sit í mínu embætti. Það hafa komið tillögur um það alltaf öðru hverju. Það eru líka tillögur um það uppi núna í Háskólanum um eina deildina þar, læknadeildina, að takmarka aðgang að henni. Það voru uppi tillögur um það á s.l. hausti, og þær eru boðaðar enn. Þær verða ekki samþykktar, meðan ég sit í embætti. Þau mál verður að leysa öðruvísi en með því að loka aðgangi að einstökum deildum í Háskólanum eða einstökum skólum.

Sá misskilningur, sem stundum bólar á í þessu efni, er það, að það sé skortur á skólahúsnæði, sem valdi því, að ekki hafi allir nemendur fengið aðgang að heimavistarskólum. Það er rétt og það er síður en svo einsdæmi, jafnvel í hinum allra ríkustu löndum, að það þurfi að takmarka aðgang að heimavistarskólum. M.ö.o., ríkið getur ekki séð öllum, sem óska eftir því, fyrir fæði og húsnæði í sambandi við þeirra skólavist og það er fullkomin ósanngirni og beinlínis rangt að taka það sem berandi vott um það, að skortur á skólahúsnæði hamli því, að menn geti fengið nauðsynlega menntun. En þeir, sem eiga rétt á að komast í háskóla, hafa allir fengið setu í háskóla. Þeir, sem eiga rétt á því að komast í menntaskóla, hafa allir, bókstaflega allir, fengið sæti í menntaskóla. Um skyldunámsskólana tala ég auðvitað ekki, það er sjálfsagður hlutur.

Það er rétt að geta þess líka, að víða í sveitum er skólaskyldu ekki fullnægt. Þeir menn, sem taka það sem dæmi um það, að ríkið vanræki að sjá fyrir lögboðinni skyldu, hafa algerlega rangt fyrir sér. Menntmrn. hefur óskað eftir því við öll skólahéruð á landinu, við öll sveitarfélög á landinu, að þau kæmu sem fyrst upp lögboðinni skyldufræðslu. Þetta var gert fyrir 2–3 árum. Þá sendi menntmrn. dreifibréf til allra skólahéraða á landinu með ósk um þetta, vegna þess að það hafði komið fram hér á Alþ., að jafnvel ýmsir alþm. héldu það, að ríkisvaldið bæri ábyrgð á því, að skólaskyldu í ýmsum sveitarfélögum væri ekki fullnægt. Það er alger misskilningur. Það er á valdi sveitarfélaganna. Það var hafin hér upp fyrir nokkrum árum heilmikil ádeila á mig eða ríkisstj. fyrir það, að hún bæri ábyrgð á því, að skólaskylda væri ekki framkvæmd í ýmsum skólahéruðum. Ég svaraði því með því að hefja skipulega herferð á öll sveitarfélög í landinu um það að koma sem allra fyrst á lögboðinni skólaskyldu og hét framlögum ríkisins til greiðslu reksturskostnaðar við það að halda skólaskyldunni uppi. Og það hefur borið stórkostlegan árangur á undanförnum 2–3 árum og er að gera það enn í dag. Síðast í morgun lá fyrir mér bréf frá einu skólahéraði, sem var að lengja sína skólaskyldu og fullnægja ákvæðum fræðslulaga, sem að vísu eru ekki fyrirmæli, heldur heimild til undanþágu um að lengja skólaskylduna upp í það, sem tilskilið er með lögum. Það stendur því ekki á ríkisvaldinu í þessum efnum.

Ég er með þessu síður en svo að deila á sveitarfélögin fyrir að vera ekki búin að koma þessum hlutum enn þá í fullkomið lag, þó að ákvæðin um 8 ára skólaskyldu hafi verið í gildi síðan 1946. Ég veit, að það er erfitt, það er mjög erfitt og það er mjög dýrt að halda uppi lögboðinni skólaskyldu í strjálbýlinu. En ríkið er fúst til samvinnu við öll þau sveitarfélög, sem þess óska og treysta sér til þess að koma á lögboðinni skólaskyldu, og fyrir þeim liggja skýlausar yfirlýsingar, skuldbindingar af hálfu ríkisstj. um það að taka þátt í lögboðnum rekstrarkostnaði við slíkt skólahald. Og enn fremur vildi ég segja, hvað sem menn annars segja, þótt menn auðvitað óski eftir enn þá meiri fjárveitingu til nýrra skóla heldur en nú er ráðgert, þá vildi ég segja, að á seinni árum hefur af hálfu ríkisvaldsins verið stóraukinn skilningur á því, hversu nauðsynlegt er að leggja áherzlu á nýjar skólabyggingar, bæði í kaupstöðum og til sveita.