08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var á margan hátt fróðleg ræða, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti hér áðan, ekki kannske fyrir þá sök að hún væri svo nýstárleg. Hún var í ákaflega svipuðum dúr og ræða, sem flutt var hér fyrir 2 eða 3 þingum, 2 þingum líklega, af fyrirrennara hans, hv. þáv. þm. Einari Olgeirssyni. Það var nokkurn veginn sami andinn, sem í báðum ræðunum var. Þá lýsti hann fyrir okkur með miklum skelfingum, hvað yfir okkur vofði. Við værum komnir í samband við hring, auðhring í Bandaríkjunum, sem væri deild í Morgan-samsteypunni. Ég hef nú stundum verið að segja við vini mína hjá Johns-Manville, að það væri ekki mikill vandi fyrir þá að útvega okkur peninga, úr því vildi svona vel til, að þeir væru aðilar að Morgan-samsteypunni, sem þeir sögðust sannarlega fagna, ef rétt væri og ef ég gæti veitt þeim aðgang þar að, en það væri nú ekki svo gott.

Sannleikurinn er sá, að það var of mikið í ræðu hv. þm., — hann talar oft ágætlega fyrir sínu máli, — sem bar vott um það, að hér væri fyrst og fremst fordæming á fyrirtæki, sem er komið á þrátt fyrir harðvítuga andspyrnu frá honum og hans flokki og raunar fleirum, eingöngu af þeirri ástæðu, að hér væri unnið með útlendingum. (Gripið fram í.) Jú, fyrsta frv. var samþ. einróma, en gallinn er bara sá, að þá væri verksmiðjan væntanlega ekki komin upp, svo að þá hefði það ekki komið að neinni sök.

Ég skal ekki rekja þá sögu alla saman, það væri of langt mál, og það er alveg eins og hv. þm. réttilega sagði, að það var ekki rætt um beina aðild þess fyrirtækis að byggingu þessarar verksmiðju. En það, sem síðar hefur gerzt og við höfðum litla hugmynd um þá vegna reynsluleysis okkar, það hefur sannfært mig um það og okkur alla, sem nærri því hafa komið, að þessi verksmiðja væri ekki til í dag, ef Johns-Manville hefði ekki komið til skjalanna. Ekki vegna þess að það hafi ætlað að vinna hér eitthvert miskunnarverk á okkur, ekki heldur af því, að það hafi ætlað sér að arðræna okkur, þetta fyrirtæki, heldur vegna þess að hér voru sameiginlegir hagsmunir. Og þetta fyrirtæki, Johns-Manville, hefur ekki verið okkur fjandsamlegra en það, að það hefur afhent okkur beinlínis hluta af sínum Evrópumarkaði til þess að við gætum selt okkar vöru og komizt inn á markaðinn. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það eru örfáir aðilar, sem ráða yfir markaðnum á þessari vöru, og heildarframleiðsla þessarar vöru í heiminum er alveg hverfandi lítil, og það var gersamlega vonlaust fyrir óþekktan aðila að komast inn á þennan markað — gersamlega vonlaust, það fullyrði ég hiklaust. Það hefur hins vegar, sem betur fer, farið á þann veg, að aukning á eftirspurn eftir þessari vöru í Evrópu hefur leitt til þess, að við getum nú gert það, sem við ætluðum að bíða með, ekki vegna hags verksmiðjunnar út af fyrir sig, heldur vegna söluerfiðleika, að stækka kísilgúrverksmiðjuna. Það muna allir hv. þm það, að það var talað upphaflega um, að hún yrði 24 þús. tonn. En hins vegar var skýrt frá því, þegar við ræddum þetta mál hér síðast á Alþ., að það væri talið vonlaust, vegna þess að markaður væri ekki fyrir hendi, þó að Johns-Manville hefði afhent okkur meginhlutann af öllum sínum markaði í Evrópu. Það hefur hins vegar gerzt, sem er okkur gleðiefni og veldur því, að við getum nú mætt þessum vanda okkar í dag með stækkun verksmiðjunnar nú þegar, að eftirspurnin eftir vörunni er miklu meiri heldur en nokkrar áætlanir lágu fyrir um og nokkur skynsamleg ástæða var að halda. Og ég vil nota alveg sérstaklega þetta tækifæri, þó að ég búist við, að hv. þm. telji það sem dæmi um minn Ameríku-undirlægjuhátt, þá vil ég láta það skýrt koma fram, að Johns-Manville hefur lagt alveg ótrúlegt kapp á það að leysa þennan vanda og gert miklu meira og lagt fram og fjárhagslega tekið á sig miklu meiri byrðar heldur en þeir samningum samkvæmt voru skyldugir að gera til að leysa þá erfiðleika, sem við höfum átt nú við að stríða. Þeir hafa látið okkur í té alla sína færustu sérfræðinga, vestanhafs og austan, ásamt með sérfræðingum, sem við höfum haft aðgang að, til þess að leysa þau tæknilegu vandamál, sem hér hafa risið. Þetta vil ég, að hér komi fram, vegna þess að þetta er sannleikur. Og þó að amerískt fyrirtæki eigi hlut að máli, sem ýmsir virðast telja að geri ekki annað en að reyna að arðræna og mergsjúga aðra og sé okkur til tjóns, þá er það ekki svo í þessu tilfelli, heldur hefur það beinlínis orðið til þess að gera okkur mögulegt að leysa þann vanda, sem við höfum átt við að stríða.

Það er svo annað mál, sem hv. þm. sagði og mér finnst ekkert undarlegt að komi fram hér á Alþ. og víðar. Spurningin er um það, hvað þarna hefur gerzt. Spurningin er um það, af hverju fyrirtæki, sem hannar þessa verksmiðju, getur ekki orðið hér skaðabótaskylt og þar fram eftir götunum. Spurningin um það, af hverju verksmiðjan hefur ekki afkastað jafnmiklu eins og við höfðum gert áætlanir um. Þetta hefur orðið okkur öllum vonbrigði, en það sannar ekki þar með, að það sé nokkurs manns sök. Það hefur legið fyrir frá fyrstu tíð, að hér er um að ræða framleiðslu, sem hvergi er þekkt í veröldinni með þessum hætti, og allir þeir sérfræðingar, sem við ræddum um þetta mál við, bæði hér og erlendis, þeir sögðu okkur það, að það gæti enginn fullyrt örugglega, hver útkoman yrði úr þessari verksmiðju. Það voru framkvæmdar rannsóknir á framleiðslunni og gæðum efnisins og bráðabirgðaathuganir á þurrkurum og öðrum tækjum, — það eru nú fleiri tæki í þessari verksmiðju heldur en þurrkarar, sem menn virðast halda að sé það eina, sem skiptir máli. Þetta var gert á tilraunastöðvum og efnarannsóknastofum, en ég býst við, að allir — ég er að vísu leikmaður í þessu efni — en allir þeir, sem þekkja vísindalegar tilraunir og efnarannsóknastarfsemi, þeir muni geta staðfest það, að efnafræðingar hafa alltaf á því fullan fyrirvara, að það er með engu móti hægt að fullyrða það, að það sem kemur fram jákvætt í efnarannsóknastofu, komi fram alveg nákvæmlega eins, þegar farið er að framleiða það í stórri verksmiðju. Þetta var alla tíð tekið fram. Ég skal segja ykkur, hv. þdm., tiltekin dæmi, sem gera það að verkum m.a., að það er erfitt um vik að byggja upp lögfræðilega kröfugerð á hendur Kaiser, þótt þurrkarar Kaisers hafi ekki afkastað 12 þús. tonnum. Það eru gefnar upp efnafræðilegar vissar formúlur, sem menn þykjast nokkurn veginn vissir um að geti staðizt, og við það er þessi smíði miðuð. Það er gert ráð fyrir því, að þegar efnið fer inn í þurrkarann, þá sé búið að ná úr því ákveðnu hlutfalli af rakastiginu. Eins og allir vita, er þessu efni dælt upp úr vatni, og það, sem veltur á, er, hvað það fer vott inn í þurrkarann. Það er jafnframt gengið út frá því, að það megi fara út úr þurrkurunum með vissu vatnsinnihaldi, 6% — ég held ég muni rétt þá tölu. Þetta hvort tveggja leiðir að sjálfsögðu af sér, að þurrkararnir þurfa að miðast við aðrar aðstæður. heldur en raunverulega verða fyrir þá sök, að okkur tekst ekki að ná úr efninu því vatnsmagni, sem hafði verið ætlað, áður en það fer inn í þurrkarana, og það þarf að þurrka efnið í þurrkurunum — ekki niður í 6% heldur niður í 2%. Það getur vel verið, að það megi leita að og finna einhverja, sem sé hægt að hengja fyrir þetta, efnafræðinga, verkfræðinga og aðra slíka. Það má alltaf segja það. Og það getur vel verið, að það sé hægt að hengja mig, ég er formaður stjórnar, ég hef verið formaður undirbúningsfélagsins og stjórnarinnar og vitanlega formlega ber ég ábyrgð á, ef þarna verða einhver mistök. Ég er ekki að skorast undan því. Og menn geta gert, hvort sem þeir vilja í alvöru, sótt mig til saka eða stjórn fyrirtækisins eða ekki fyrir það, að þetta skilar ekki nákvæmlega þessum árangri. Það verða menn að gera upp við sig, og ég hef ekkert á móti því, ef menn hafa ánægju af að setja í það rannsóknarnefnd.

Það er engin launung yfir, hvað þarna hefur gerzt, ekki nokkur launung. Þetta eru þeir búnir að berjast við mánuðum saman, að ná niður rakastiginu, áður en farið er í þurrkarana — að koma efninu með meiri hraða í gegnum þurrkarana og að ráða við efnið, þegar það kemur út úr þurrkurunum, fyrir það hvað það er þurrt. Þetta er kjarni þessa máls. M.a. vegna margvíslegra stöðvana æ ofan í æ hafa afköstin minnkað. Af því að gerðar voru ýmiss konar breytingar þarna og tilraunir til að sjá, hvort væri hægt að vinna þetta með öðrum hætti, hafa orðið framleiðslustöðvanir á framleiðslustöðvanir ofan, eftir að tilraunavinnslunni var lokið. Það hefur að vísu alltaf legið fyrir að það mundi taka um hálft ár, sem yrði hrein tilraunavinnsla. Frá því var sagt strax í byrjun. Hin raunverulega vinnsla í verksmiðjunni hefst ekki fyrr en um mitt s.l. ár. Til þess tíma er talið að um algera tilraunavinnslu sé að ræða og framleiðslan til þess tíma er skráð sem slík og ekki gerð tilraun til þess að setja hana á markað, fyrr en eftir þann tíma.

Um þetta hafa fjallað ótal sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir. Við eigum ekki marga menn hér á Íslandi. Það er einn maður, sem fyrst og fremst hefur verið meginráðunautur okkar í þessum efnum, það er Baldur Líndal efnaverkfræðingur, sem fyrstur kom með hugmyndir um að vinna þetta efni úr botni Mývatns, og ég tek það skýrt fram, að hann hefur lagt sig allan fram og ég mundi aldrei segja orð í þá átt, að hann hefði ekki gert allt sem í hans valdi stóð til þess að sjá um, að þessi mistök gerðust ekki. Ég fullyrði líka að hinir erlendu verkfræðingar, sem eru starfsmenn Johns-Manville og Kaisers, hafa einnig lagt sig fram um að mæta þessum vanda. Og það, sem mér finnst gleðilegast í dag, er, að allir kunnugir menn fullyrða, að þessi vandi sé leystur. Við fáum að vísu ekki nákvæmlega jafnmikil afköst, væntanlega ekki nema 9–10 þús. tonn út úr þessum þurrkurum í staðinn fyrir 12 þús. tonn, en það breytir þó gersamlega allri útkomu málsins, og a.m.k. frá sjónarmiði þeirra, sem halda að Johns-Manville hafi ekki mikinn áhuga á að þetta gangi vel hjá okkur hér, þá verð ég þó að benda á og það býst ég við að þeir hinir sömu menn muni staðfesta, að það séu ákaflega litlar líkur til að þeir hafi ánægju af að missa peninga og tapa peningum. Ég held að það sé sameiginlegt amerískum fyrirtækjum, að þau vilja heldur græða heldur en tapa, og meðan þau þurfa að borga helminginn af hallanum, sem hér er um að ræða, eða 49% á móti 51%, þá held ég að sé nokkurn veginn öruggt um það, að þau eru ekki að setja sína lélegustu menn í það að reyna að sjá til, að það sé hægt að leysa þennan vanda, það held ég að sé alveg ljóst.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þm., að það er raunalegt að þetta skuli hafa gerzt og að þessir tæknilegu erfiðleikar skuli hafa orðið svona miklir, en ég spyr: Hvað stór prósenta halda menn að það sé, — ég er ekki sérfræðingur eins og ég segi, og varpa ég þessu fram algerlega án þess að geta svarað því, — af tilraunum, sem verið er að gera í veröldinni með alls konar framleiðslu, sem menn halda að takist við fyrstu útreikninga, en þar sem ótalmörg mistök koma fram og leiðréttingar og lagfæringar, sem þarf að gera? Okkar stóri sigur er sá, að við höfum framleitt vöru, sem er með því bezta í þessari grein, sem til er í veröldinni, og það er það sem gerir það að verkum, að við leggjum nú hiklaust til að verksmiðjan verði tvöfölduð og farið upp í þá stærð, sem áformað var í upphafi, vegna þess að nú er nokkurn veginn öruggt að við getum selt nú þegar þetta magn.

Það var rétt, sem hv. þm. sagði, það var gert upphaflega ráð fyrir að það yrði halli á þessum rekstri 4 fyrstu árin. Nú er gert ráð fyrir því, að beinn rekstrarhalli verði ekki á árinu 1969. Það þarf að veita aðstoð til þess að fleyta áfram lánum, en reksturinn sjálfur á að geta að verulegu leyti staðið undir sér, og þegar á árinu 1972 á hann að geta staðið undir fullum afskriftum af öllu því, sem lagt hefur verið í verksmiðjuna, og farið svo að skila mjög verulegum hagnaði úr því.

Sá áfangi, sem við erum hér að tala um, seinni áfangi verksmiðjunnar, er miklum mun ódýrari en sá fyrri. Sá fyrri kostaði 4.3 millj. dollara, — ég held að það sé öruggast að hafa það í slíkum tölum, við þurfum þá ekki að vera að deila um gengismismun eða annað þess konar, — en annar áfanginn, þessi 12 þús. tonn, er talið að muni kosta um 2.3 milljónir dollara. Framleiðsluverðmæti verksmiðjunnar mun að lokinni þessari stækkun, þegar það er búið að koma henni í fulla stærð miðað við núverandi verð, verða um 230 millj. kr. á ári. Það er sagt, að þetta þjóni litlu, og bent á að það séu ekki nema 12 menn, sem bætist við í starfslið verksmiðjunnar, en það væri ekki hægt að segja, að það væri óhagkvæm útkoma, ef hægt er að fá 120 millj. kr. viðbótarverðmæti með vinnu 12 manna. Það held ég ekki að sé hægt að segja að sé þjóðhagslega séð óhagkvæm fjárfesting.

Það er bent á, að hallinn í ár hafi verið mikill. Það er rétt. En ég vil þó vekja athygli á því, að inni í þeim halla, sem er 33 millj., er m.a. gengishalli, sem er alveg sérstaks eðlis eða 9 millj. kr., og þar eru líka reiknaðar með afskriftir á 10 millj. kr., þannig að rekstrarhallinn sjálfur, beinn rekstrarhalli, er þó ekki nema um 14 millj. kr.

Þá hefur verið vikið mjög að því, að það hafi verið gefnar rangar upplýsingar, og talað af miklu yfirlæti um það, hve þessi verksmiðja væri dýr og hún hefði farið langt fram úr áætlun. Þetta er heldur ekki rétt. Allt það, sem sagt hefur verið um það efni og þær upphaflegu áætlanir, sem gerðar voru um byggingarkostnað verksmiðjunnar sjálfrar, það hefur fullkomlega staðizt. Byggingarkostnaðurinn sjálfur, miðað við hinar upphaflegu áætlanir og miðað við gengið á byggingartímanum, hafði verið áætlaður 148 millj. Hann varð um 140 millj.

Það má vera, að það sé eðlilegt, að það rugli menn þær tölur, sem hér eru notaðar, þar sem talað er um að verksmiðjan standi nú í 288 millj., og mér dettur ekki í hug að halda það, að hv. þm. hafi neina löngun til að fara með skakkt mál í því. Ég skal útskýra hvernig í því liggur, að talið er hér í grg., að í árslok 1967 þá hafi undirbúningskostnaður verið 209 millj. kr. í staðinn fyrir að hann hafi verið áætlaður 148 millj. og sagt að geysilega hafi farið fram úr áætlun. Það byggist á því, að það varð samkomulag um það á milli ríkisins og Johns-Manville, að kostnaður af undirbúningsrannsóknum við þetta fyrirtæki, sem var búið að stunda bæði hér heima og erlendis í mörg ár, skyldi reiknast með í stofnkostnaði, en hann var ekki reiknaður með í þessari áætlun, sem gerð var um byggingarkostnaðinn við sjálfa verksmiðjuna, og ekki eðlilegt að það væri gert, heldur var það tekið inn sem hlutafé frá aðilum, og það nam 20 millj. kr. Síðan voru byggð íbúðarhús, sem alls ekki voru í þessu plani, sem kostuðu 12 millj. kr. Byrjunarrekstur ársins, sem alltaf var reiknað með að yrði að afskrifa á sínum tíma og var aldrei talið að kæmi inn í reksturinn sem slíkan, reyndist um 10 millj. Í ofanálag á þetta kemur gengistap, sem varð á þessu ári 27,9 millj. Þetta eru skýringarnar og tölurnar sem útskýra mismuninn á 209 millj., sem eru hér í grg., og 148 millj., sem var hin upphaflega áætlun, og ég held að enginn sanngjarn maður geti sagt, að hér hafi þar af leiðandi ekki staðizt það, sem sagt var í þessu efni. Hér hafa komið til ný atriði, sem eru utan við það mál, sem snertir bygginguna sjálfa. Þegar svo er verið að tala um það, að verksmiðjan standi í 288 millj., og sagt, að það sýni, hvað hafi orðið geysilegur halli á rekstrinum öllum, þá er það auðvitað líka alger misskilningur, vegna þess að af þessum 288 millj. er gengismunur 83.9 millj. Ég skil vel, að það sé eðlilegt að þetta vefjist fyrir mönnum af því að maður notar ekki beint dollaraupphæðir í þetta. Það er enginn halli á rekstrinum og eins og hv. þm. sagði, þá auðvitað hefur gengisbreyting ekki nokkur áhrif nema jákvæð áhrif á hag og rekstur þessarar verksmiðju, vegna þess að 100% af framleiðslunni eru seld til útlanda, en hins vegar stór hluti kostnaðarins fjármagnaður með hlutafé. Og það, sem til viðbótar bætist svo hér í þessu, er það, að það voru gerðar nýjar framkvæmdir á árinu, ný efnisþró, sem kostaði 12 millj. kr., sem hér kemur einnig til viðbótar og ekki var í upphaflegu áætluninni, en það reyndist óumflýjanlegt að gera nýja þró og safna meira hráefni heldur en gert hafði verið ráð fyrir.

Þetta er nú sannast sagna allur þessi stóri skandali, sem hér hefur gerzt, og menn geta haft sínar skoðanir um það og sagt, að hvítt sé svart og svart sé hvítt eftir atvikum. Vafalaust segir minn ágæti nafni og hv. þm., að það megi túlka þetta með öðrum hætti. Ég hef sagt nákvæmlega það, sem er rétt. Það má leggja út af því vafalaust með mismunandi góðvilja, en þetta er staðreynd málsins. Og ég segi, að hér hafi engin ósköp gerzt, sem réttlæti það að setja hér á einhverja rannsókn. Það sæmir ekki mér að segja það, af því að rannsóknin ætti þá væntanlega að snúast gegn mér. En ég er ekki reiðubúinn hér á þessum stað til þess að nefna neinn sérstakan vísindamann, sem sé sekur um það, að þarna hafa orðið þessar reikningsskekkjur. Ég held, að það sé enginn þeirra sekur um það. Ég held, að allir þessir menn hafi gert allt það bezta, sem þeir gátu, en hins vegar reyndist bara útkoman úr dæminu, þegar allt kemur til alls, ekki nákvæmlega sem skyldi, en síðustu vikur benda ótvírætt til þess, að erfiðleikarnir yfirvinnist og þegar búið er að setja sérstakar rykskiljur á þurrkarana til þess að ná því, sem fer nú úr þeim út í veður og vind, ef svo má segja, þá eigi að vera hægt að ná afköstunum, það er von okkar, ná þeim upp í ein 10 þús. tonn.

Um umboðslaunin, sem eru talin einstæð í veröldinni, eins og hv. þm. sagði, þá fer víðs fjarri, að þau séu neitt einsdæmi í veröldinni. Við höfum kynnt okkur rækilega það, hvað sé eðlilegt, að séu umboðslaun, og hvað er venja í slíkum tilfellum. Og ég vil vekja athygli á því, að hér er um að ræða bæði heildsölu- og smásöluþóknun. Við borgum ákveðna prósentu fyrir það og komum svo ekki nærri sölunni. Johns-Manville kaupir vöruna með þessum hætti. En það, sem ég tel rétt, að komi hér fram og er fróðlegt og sýnir nú, hvað þessir menn eru miklir arðræningjar eða hitt þó heldur, er það, að þeir féllust fúslega á það að staðsetja sölufélagið á Íslandi, á Húsavík, og með þeim einkennilega hætti, að þeir reiknuðu því engan kostnað. Allur sölukostnaður Johns-Manville verður reiknaður á dótturfyrirtækin úti í Evrópu, sem má segja, að sé kannske hæpið gagnvart þeim löndum, sem þar er um að ræða, ef út í þá sálma ætti að fara. En við skattleggjum nær 100% alla þá söluþóknun, sem þeir fá hér, og af því verða þeir að borga 45% skatt, þannig að ég fullyrði, að þessir samningar eru síður en svo okkur óhagstæðir.

Ástæðan til að við höfum mismunandi söluþóknun eftir því, hvað magnið væri mikið, það skal ég játa, að er á vissan hátt mín eigin sök, ef sök skal telja. Það byggðist hreinlega á því, að það voru miklar líkur til þess, að þeir mundu hafa tilhneigingu til að láta sína framleiðsluvöru frá öðrum verksmiðjum sitja fyrir, ef erfitt yrði um sölu, nema því aðeins að þeir hefðu verulega hagsmuni af því að selja okkar vöru. Og það þótti því maklegt og eðlilegt og á það féllust þeir, að ef þeir væru óduglegir að selja, þá skyldu þeir fá minna fyrir það. Auðvitað verður kostnaður þeirra meiri af því. En ég veit ekki, hvort þetta er svo fábjánalegt, kannske er það og þá verð ég að taka því. En mér fannst þetta dálítið snjallt, ég skal játa það.

Þá hefur því verið haldið hér fram, sem ég vil líka leyfa mér algerlega að mótmæla, að Johns-Manville hafi sett einhver skilyrði um það, að þau tæki, sem við höfum keypt, yrðu keypt í Ameríku. Það hafa þeir aldrei orðað. Og það hefur verið metið algerlega hlutlaust af okkar sérfræðingum, hvort það væri eðlilegt eða ekki, að það væri gert. Það, að við höfum látið smíða í Bandaríkjunum ýmsa hluti, á því ekkert skylt við þetta atriði, en það á að því leyti skylt við hagsmuni okkar að öðru leyti, að við höfum getað fengið „export credit“ lán, það er alveg rétt. En þau eru ekki gegnum Johns-Manville og þeir koma þar hvergi nærri. Við höfum í margvíslegum tilfellum, — ekkert frekar í sambandi við Kísiliðjuna heldur eru til ótalmörg slík lán hér á Íslandi, — fengið lán hjá Export-Importbankanum í Washington í sambandi við vörukaup í Bandaríkjunum. Og það höfum við fengið í sambandi við vörukaup til Kísiliðjunnar. Það er ekkert launungarmál heldur. Við höfum fengið lán víðar. Við höfum fengið lán í Hollandi og við höfum fengið lán í Bretlandi, þar sem við höfum keypt þessar vörur. Og það er alveg eins og hv. þm. sagði, það er ekkert auðvelt mál að fá peninga, og við höfum orðið að leita ýmissa úrræða til þess og m.a. þessara úrræða.

Það, að notaðir séu þurrkarar, sem hafi verið fleygt fyrir 20 árum, eins og minn ágæti samflokksmaður lét frá sér fara í Ed., ég vil nú helzt ekki gera það að umtalsefni, vegna þess að ég held, að það liggi svo í augum uppi, að það þurfi ekki að ræða það, að fyrirtæki, hvort sem það heitir Kaiser, Johns-Manville eða aðrir slíkir, leiki sér að því að nota gamalt skran. Það hef ég nú ekki heyrt, að sé borið á Ameríkumenn nú til dags, að þeir geri það. (Gripið fram í.) Ég tel, að hann hafi vit á málum, jú, vissulega. En ég er ekki tilbúinn að segja, að hann hafi nokkuð meira vit á þessu heldur en þeir menn, sem hafa farið með þetta sérstaklega. Ég er ekkert að bera saman vitmann eða vitleysing. Ég bara skaut því hér fram, hvort hv. þm. héldu það, að amerísk stórfyrirtæki, sem leggja milljónatugi eða milljónahundruð að veði, leiki sér að því að kaupa gamalt skran. (Gripið fram í.) Ég er búinn að reyna að útskýra það fyrir hv. þm., sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum, hvaða ástæður liggja til þess, að þurrkararnir hafa ekki skilað nákvæmlega þeim afköstum, sem gert var ráð fyrir. Og ég geri jafnvel ráð fyrir; að þó að þeir hefðu verið smíðaðir hjá innlendum aðila, gæti hafa staðið í þeim að láta þá skila sömu afköstum, ef formúlurnar, sem miðað var við, hefðu ekki orðið eins og gert var ráð fyrir. Og skal ég þar ekki vera að fara að hallmæla neitt þeim mæta manni, Sveini Guðmundssyni, frekar en öðrum í því efni. Þetta bara liggur í augum uppi sem almenn heilbrigð skynsemi.

Af því að hv. þm. virtist nú telja allt, sem hér er verið að gera, vera gert af hreinni fávizku og glópsku, þá munaði hann nú ekkert um að bæta því við, að orkuverið við Mývatn eða í Námaskarði mundi vera álíka gáfulega uppbyggt, og spurði, hvort það mundi vera. Hann hafði að vísu sýnilega enga hugmynd um, hvað hann var að tala um, vegna þess að þetta orkuver er ekki reist til þess að veita raforku til Kísiliðjunnar, heldur er það reist til þess að veita hitaorku til Kísiliðjunnar, en veita raforku til orkuvers, sem reist er á vegum Laxárvirkjunarinnar. Og hvort sú orka verður svo dýr sem hann sagði eða ekki, það veit ég nú ekki um, en a.m.k. verður þá ekki stjórn Johns-Manvilles sökuð um það, því að ekki hafa þeir komið nærri því orkuveri. Það er eitt, sem víst er. Það var hins vegar talið af okkar sérfræðingum, að það væri mjög hagkvæmt, og ég hef ekki heyrt nokkurn halda uppi andmælum gegn því, að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur einmitt hér á Íslandi að gera tilraun með að framleiða raforku úr jarðgufu. Sérfræðingar okkar töldu, að með nýjustu aðferðum í því efni væri hægt að framleiða þetta á mjög hagkvæman hátt. Og ég hef ekki enn þá heyrt frá talsmönnum Laxárvirkjunar, að það hafi komið nein skökk útkoma úr því. Kannske veit hv. þm. það betur en ég. Ég skal ekkert segja um það. En það kemur þá í ljós á sínum tíma. En ég bið hann a.m.k. að athuga, að þó að hann hafi áhuga á að ná til okkar við Kísiliðjuna og saka okkur um flest afglöp, þá höfum við ekki skipulagt þetta orkuver.

Varðandi þau stórkostlegu tollfríðindi, sem sagt er að veitt hafi verið, þá eru það nú fríðindi, sem fyrst og fremst koma nú í gagn þessu fyrirtæki, sem við eigum þó meiri hlutann í, þessir 9% tollar, sem vitnað var til.

Þá er það stækkunin. Sagt er, að hún hafi verið unnin öll og eigi að vinnast af útlendingum og verksmiðjan upphaflega hafi verið byggð af útlendingum. Það er rétt, að mikið af vélunum var byggt af þeim. Það er satt. En hins vegar var mjög mikið líka unnið hér af íslenzkum aðilum og það voru verktakafyrirtæki hér heima, bæði Almenna byggingarfélagið o.fl., sem sáu um margvísleg verk í sambandi við Kísiliðjuna. Við höfum lagt á það áherzlu nú í sambandi við stækkunina, að það verði leitazt við að hagnýta, eftir því sem tök eru á, aðstoð innlendra aðila til þess að byggja upp þessa viðbót við verksmiðjuna. Hitt sannar ekki, að það sé hægt að láta Íslendinga gera það allt saman, og það eru margar ástæður, sem valda því, bæði fjárhagslegar ástæður og aðrar. En það hefur sannarlega ekkert staðið á okkar samstarfsmönnum og sameigendum, Johns-Manville, að sýna fullan skilning á því, að við reyndum eftir megni að nota hér íslenzka starfskrafta og íslenzka aðila, ef það hefur verið sambærilegt við það, sem um hefur verið að ræða annars staðar.

Ég bið afsökunar á því, herra forseti, að ég hef orðið nokkuð langorður um þetta mál, en ég taldi nauðsynlegt að upplýsa það, það er svo margt um það búið að segja og tala og það af minni velvilja heldur en góðvilja vil ég segja, af meiri löngun til þess að afflytja heldur en að skilja, hvað hér hefur verið að gerast.

Hvort Kísiliðjan við Mývatn er hagstæðari en tveir skuttogarar, ég skal játa það, að það dæmi hef ég ekki reiknað nákvæmlega. Það var ákveðið af Alþ. að hagnýta þessi jarðefni. Þau skila okkur algerlega erlendum gjaldeyri og það hefur verið skoðun okkar og það er sannfæring mín í dag, að það sé hægt að reka þessa verksmiðju mjög hagkvæmt, úr því að við höfum komizt yfir meginerfiðleikana. Og meginerfiðleikarnir hafa aldrei í mínum huga verið þurrkararnir, jafnvel ekki þó að það hafi gengið illa í nokkurn tíma að fá út úr þeim full afköst, heldur hefur megináhyggjuefnið vérið það, að við gætum ekki framleitt nógu góða vöru og við gætum ekki selt alla þessa vöru. En bæði þau meginvandamál eru leyst, og það er kjarni málsins. Þess vegna getum við haldið áfram af fullum krafti og byggt upp þessa verksmiðju sannfærðir um það, að við höfum þarna góða vöru, sem við getum hvar í heiminum sem er boðið og vöru, sem er líkleg til þess að geta skilað verulegum fjárhæðum í þjóðarbúið á næstu árum og áratugum.