08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta er aðeins 1. umr. hér í þessati hv. þd. Málið á eftir að fara til n. og um það verður fjallað við tvær umræður í viðbót, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um ræðu hæstv. ráðh., sem var málefnaleg, eins og yfirleitt er háttur hans. En hann staðfesti að sjálfsögðu það, sem ég orðaði hér áðan, um mjög fjölþætt mistök af ýmsu tagi, sem þarna hafa orðið, enda voru frásagnir mínar sóttar í grg. sjálfs frv. Ég var ekki að birta mönnum nein nýmæli. Hins vegar var það dálítið óljóst, fannst mér, og er enn þá dálítið óljóst, hver talinn er bera ábyrgð á þeim mistökum með vélbúnað fyrirtækisins, sem þarna er um að ræða. Í grg. frv. er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Má rekja það til þurrkara verksmiðjunnar, sem ekki eru eins öflugir og við var búizt.“ — Þetta get ég ekki skilið öðruvísi en svo, að hinu erlenda fyrirtæki hafi verið falið að gera sérstaka þurrkara, sem hefðu sérstakt afl, en þeir hafa ekki reynzt eins aflmiklir og við var búizt. Við höfum ekki fengið þá vöru, sem við óskuðum eftir. Þarna er einnig sagt: „Virðist hönnun þurrkaranna ekki hafa verið í samræmi við þær forsendur, sem áætlanir aðilanna voru byggðar á.“ Þarna hefur fyrirtækinu verið falið að vinna verk á ákveðnum forsendum, og verkið er ekki unnið á þeim forsendum. Þetta stendur í sjálfri grg. frv. Við fáum aðra vöru en við biðjum um, og þegar það gerist hlýtur sá aðili, sem við skiptum við, að vera ábyrgur, ef tryggilega væri gengið frá samningum. Hins vegar virtist mér það felast í orðalagi hæstv. ráðh. hér áðan, að hann teldi, að formúlurnar hefðu ekki verið réttar, en það er allt annað en stendur í grg. Þarna eru þá tvær kenningar á lofti. Og þess vegna held ég, að það sé alveg sjálfsagt mál. að þetta verði rannsakað.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki óttast rannsókn, og þá finnst mér, að hann ætti að framkvæma þessa hugmynd mína, þessa ósk mína og láta framkvæma slíka rannsókn.

Mér þótti afar einkennilegt að heyra hæstv. ráðh. lýsa með mjög fögrum orðum umhyggjusemi hins bandaríska fyrirtækis, sem við erum í samvinnu við, hvernig Bandaríkjamenn hefðu gert miklu, miklu meira en þeir voru skuldbundnir til, hvernig þeir hefðu fórnað sínum eigin markaði í okkar þágu og ég veit ekki hvað og hvað. Nú skal ég sízt draga í efa, að víðsemjendur hæstv. ráðh. og samstarfsmenn séu hinir vænstu menn. Það eru þeir vafalaust. En ég hef ekki nokkra trú á því, að bandarískt auðfyrirtæki stundi atvinnurekstur á þennan hátt. Þar eru ákaflega hörð efnahagslögmál sem ráða. Því aðeins hefur Johns-Manville haft áhuga á þessari samvinnu við okkur, að hann hefur hagnazt á henni og hann ætlar að hagnast á henni áfram. Þetta er engin góðgerðarstarfsemi og ég held, að hæstv. ráðh. ætti hreinlega að uppræta slíkt viðhorf úr huga sínum, að þarna sé um að ræða menn sem séu að gera eitthvað af persónulegri umhyggju fyrir okkur.

Hæstv. ráðh. lagði á það mikla áherzlu, að í þessari verksmiðju við Mývatn væri um að ræða tilraunastarfsemi, þetta væri fyrsta verksmiðjan í heimi, þar sem þetta efni væri unnið af vatnsbotni. Á það atriði var ekki lögð sama áherzla, þegar frv. var samþ. upphaflega, að hér væri um tilraunastarfsemi að ræða, að við værum að fara út í einhverja óvissu. Þvert á móti voru lagðar hér fyrir alveg tilteknar áætlanir og staðhæft, að þær mundu standast. Hv. alþm. var ekki sagt, að þeir væru að fara út í einhverja þoku og óvíst, hvort þeir kæmust út úr henni aftur. En slík tilraunastarfsemi hefur verið undarlega ríkur þáttur í atvinnuframkvæmdum á Íslandi um skeið. Við höfum stofnað hér eina verksmiðjuna af annarri með tilraunasniði, við Íslendingar, sem erum flestum öðrum verr til þess fallnir að stunda tilraunir í iðnaðarstarfsemi. Má ég minna á Faxaverksmiðjuna, sem var tilraunastarfsemi og mistókst? Má ég minna á Áburðarverksmiðjuna? Framleiðsluaðferð hennar þekktist aðeins á einum stað á jarðríki áður, og reynslan þar var svo léleg, að sú framleiðsla var lögð niður. Þessi áburðarverksmiðja hefur verið einsdæmi í veröldinni og nú, þegar ætlunin er að stækka verksmiðjuna, verður að taka upp nýja aðferð. Og Kísilgúrverksmiðjan var hrein tilraunastarfsemi, segir hæstv. ráðh., og hann segir frá því, hvernig vísindamenn og stjórnendur hafi verið logandi hræddir allan tímann, hvort tilraunirnar tækjust, og enn sé vissan ekki meiri en svo, að þeir séu að gera sér vonir um, hvað gerast muni. Ég held, að við getum ekki fetað okkur áfram í iðnaði með því að stunda tilraunastarfsemi. Við verðum sannarlega að vita, hvað við erum að gera.

Þær tölur, sem hæstv. ráðh. nefndi til þess að skýra mismuninn á áætluðum stofnkostnaði og hinum raunverulega stofnkostnaði, eins og hann hefur orðið, eru eflaust réttar. Hann segir, að þarna hafi verið unnin ýmis verk, sem ekki var getið um í upphaflegum áætlunum. En það stafar auðvitað af því, að hinar upphaflegu áætlanir voru ekki réttar. Þar var ekki getið um verkefni, sem þurfti að vinna, en í því felst auðvitað það, að alþm. og öðrum eru gefnar skakkar upplýsingar, þegar þeim er sagt, hvað hlutirnir eigi að kosta. Ef gerð er áætlun um eitt, en síðan bætt við ýmiss konar öðrum verkefnum vegna þess, að það verður að hafa þau með, er um að ræða rangar upplýsingar. En sem sagt, þetta mál kemur hér aftur til umr. svo að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja það frekar við 1. umr.