16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta lagafrv. ræddi ég nokkuð um málið í heild og átti orðastað við hæstv. fjmrh., formann, verksmiðjustjórnar. Ég mun ekki við þessa umræðu endurtaka þau atriði, sem ég fjallaði um þá, en langar að ræða sérstaklega um tvö atriði í sambandi við þetta mál, sem vikið er að í áliti okkar, sem skipum minni hl. iðnn.

Við 1. umr. vakti ég máls á því, að í grg. frv. er sagt að tæki þau, sem keypt voru til verksmiðjunnar, hafi ekki reynzt eins og til væri ætlazt. Þau hefðu ekki verið eins aflmikil eins og ráð hefði verið fyrir gert og hönnun þeirra ekki í samræmi við forsendur. Ég spurði hæstv. ráðh. um það, hvort þetta væri rétt hermt í grg., en hann dró það mjög í efa í svarræðu sinni og talaði um, að e.t.v. mætti alveg eins segja, að formúlur okkar sjálfra hefðu ekki verið réttar, þegar við gerðum þessa pöntun. Þessi óvissa, sem þarna kom fram, var rædd sérstaklega á fundi í iðnn., en þangað komu Pétur Pétursson forstjóri, sem stjórnaði byggingarframkvæmdum á sínum tíma, og Hjörtur Torfason lögfræðingur. Við spurðum þá alveg sérstaklega um þessi atriði. Þar kom fram, að það fyrirtæki, sem gerði þurrkarana, Hardings, hefði staðhæft, áður en gerð þurrkaranna var ákveðin, að þessi gerð mundi tryggja það, að ekkert efnistap yrði í sambandi við þurrkunina. Engu að síður kom það í ljós, að þarna varð um mikið efnistap að ræða, enda þótt þurrkararnir væru hannaðir eins og rætt hafði verið um áður. Þegar við spurðum Pétur Pétursson og Hjört Torfason, hvort ekki væri hægt að gera skaðabótakröfu til hinna erlendu fyrirtækja út af þessu, svöruðu þeir því til, að þeir gætu ekki svarað því endanlega, en sæju ekki, að það væri unnt. Þá spurði ég að því, hvort þetta stafaði e.t.v. af því, að samningar af okkar hálfu hefðu ekki verið nægilega tryggilega gerðir, hvort fyrirvarar okkar hefðu þurft að vera sterkari, hvort það hefði þurft meiri lögfræðilega sérþekkingu til að ganga þannig frá málum, að við gætum gert skaðabótakröfu til hinna erlendu aðila. Svörin um þetta efni voru einnig óljós. Um þetta fengust engin skýr svör. Og í þriðja lagi spurðum við, hvort undirrótin væri þá e.t.v. sú, að rannsóknir okkar sjálfra hefðu ekki verið nægilega traustar, að sú vitneskja, sem við höfum látið í té þeim aðilum, sem hönnuðu verksmiðjuna, hefði ekki verið fullnægjandi. En það fór eins. Við þessu fengust engin endanleg svör.

Þarna er sem sé um að ræða mjög stórfellda óvissu og þessari óvissu er ekki nokkur leið að una. Við verðum að gera okkur ljóst, að gallarnir á þessari verksmiðju eru ákaflega stórfelldir. Á síðasta ári var framleiðsla hennar aðeins 2500 tonn, en átti að verða 6000 tonn samkv. hinni upphaflegu áætlun. Þarna skakkar 3500 tonnum, og þegar þess er gætt, að verðið á tonni er um 10 þús. kr., þá er hér um að ræða hvorki meira né minna en 35 millj. Á þessu ári er talað um, að framleiðslan verði 1000 tonnum minni en upphaflega var áformað. Þar bætast þá við 10 millj. í viðbót. Þá hefur orðið að kaupa ýmiss konar útbúnað til þess að bæta þau tæki, sem keypt voru, og einnig þar eru fólgnar stórfelldar upphæðir. Þarna er sem sé um að ræða áfall, sem nemur — hvað eigum við að segja — 50, 60, 70 millj. kr., vægilega áætlað. Það er ekki hægt að una því, að ekki fáist botn í það hverju er um að kenna.

Ég færði rök að því við 1. umr., að ég teldi, að á þessu þyrfti að fara fram gagnger rannsókn, og hæstv. fjmrh. lýsti yfir. því, að honum væri siður en svo á móti skapi, að þetta mál yrði rannsakað. Ég ræddi þá um rannsóknarnefnd á vegum þingsins, eins og gert er ráð fyrir í stjórnarskránni. Mér er kunnugt um það, að mönnum er dálítið illa við þær rannsóknarnefndir, þótt ég skilji ekki, hvernig á því stendur, því að í mörgum öðrum þjóðþingum er slík rannsóknarstarfsemi talin alveg sjálfsögð. En ég vil nota þetta tækifæri til þess að beina því mjög alvarlega til hæstv. fjmrh., ef hann heyrir mál mitt, að ég tel, að það verði að framkvæma gagngera rannsókn, og rannsóknina verði að framkvæma af aðilum, sem ekki eru við málið riðnir. Þessa rannsókn þarf að framkvæma til þess að athuga til hlítar, hvort við eigum ekki skaðabótakröfu á þá aðila, sem skiluðu verri tækjum en við gerðum ráð fyrir, og í öðru lagi til þess að fá botn í það af hverju mistökin stafa. Ég segi þetta ekki af því, að ég hafi neinn áhuga á því að fara að hengja upp einhvern sérstakan aðila, heldur þurfum við að læra af mistökum sem þessum. Þegar mistök eru gerð, skiptir öllu máli, að menn átti sig á því, í hverju þau eru fólgin til þess að þau endurtaki sig ekki. Og þegar mistökin eru jafnstórfelld og þarna, er slík rannsókn algerlega nauðsynleg og ég vil leggja á það mjög þunga áherzlu í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að þessi rannsókn verði framkvæmd og niðurstöður hennar birtar opinberlega.

Annað atriði, sem mig langaði til þess að leggja áherzlu á við þessa umræðu, er, hvernig hagað verður þeim framkvæmdum, sem nú eru framundan. Manni skilst, að um það sé rætt, að erlendir aðilar eigi að halda áfram bæði að hanna viðbót verksmiðjunnar, sjá um verkfræðilega stjórn á því starfi og eins að framkvæma verkefni, sem íslenzku smiðjurnar telja sig fullfærar til þess að framkvæma. Þetta tel ég, að sé algerlega röng stefna. Framkvæmdir eins og þessar ber að sjálfsögðu að bjóða út og gefa íslenzkum aðilum kost á að bjóða í verkin, og ef hin íslenzku tilboð eru sambærileg að verði og gæðum, þá ber að taka hinum íslenzku tilboðum.

Menn verða að hafa sérstaklega í huga, hvernig nú er ástatt í járniðnaði okkar og hefur verið um langt skeið. Á sínum tíma vorum við búnir að byggja upp járniðnaðarfyrirtæki, sem voru mjög myndarleg og voru að stærð og getu svipuð og járniðnaðarfyrirtæki á Norðurlöndum og annars staðar í miklu stærri þjóðfélögum. En þessi fyrirtæki hafa verið að dragast mjög stórlega saman að undanförnu. Fyrirtækið Héðinn t.d., þar hafa margar deildir hreinlega hætt störfum, og fyrirtækið er farið að flytja inn alls konar varning, sem áður var framleiddur í smiðjunni. Nú standa þessar smiðjur í deilu við verkafólkið, hafa beitt verkbanni, hafa rekið járniðnaðarmenn út á götuna og bera því við, að afkoma þessara smiðja sé svo léleg, að þær geti ekki staðið undir því að greiða það kaupgjald, sem um var samið í fyrra. Ég skal ekki draga í efa, að afkoma þessara fyrirtækja er léleg. En hún er fyrst og fremst léleg vegna þess, að þau eru ekki nýtt eins og hægt er að nýta þau. Það stoðar lítið að fjárfesta tugi og hundruð millj. kr., ef fjárfestingin er ekki látin skila þjóðfélagslegum arði, ef vélar standa ónotaðar, ef vinnuafl sérfræðinga er ekki hagnýtt, þá geta slík fyrirtæki ekki skilað arði. Með stefnu eins og þessari, sem framkvæmd hefur verið að undanförnu, að eftirláta erlendum aðilum að vinna verk, sem hægt er að vinna hér innanlands, er verið að grafa undan þessum atvinnufyrirtækjum og koma í veg fyrir, að þau standi undir lífskjörum, sem menn eiga kröfu til á Íslandi.

Ég er ekki einn um þessa skoðun. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að í Ed. Alþ. gerði einn af helztu forystumönnum Sjálfstfl., Sveinn Guðmundsson hv. alþm., grein fyrir þessum sömu viðhorfum. Hann flutti þar athyglisverða ræðu, sem ég vitna til með leyfi hæstv. forseta. Ég fer eftir ræðunni eins og hún var birt í Morgunblaðinu á miðvikudaginn var. Ég geri ráð fyrir, að Morgunblaðið birti þessa ræðu vegna þess, að blaðið telji, að þau sjónarmið, sem þar koma fram, séu athyglisverð. En þarna sagði hv. alþm. Sveinn Guðmundsson m.a.:

„Ég minnist þess, þegar tækin til Kísiliðjunnar voru flutt til landsins, að þá urðu um þau blaðaskrif og meðal annars birtist þá heilsíðumynd af þurrkara í einu dagblaði borgarinnar. Töldu innlendir málmiðnaðarmenn, bæði sveinar og meistarar, að þeim óaði ekki við slíkri smíði. Nú hafa spádómar þeirra því miður rætzt um það, að hér var ekki um þá völundarsmíði að ræða, sem ætlað var. Kunnáttumönnum hér var ljóst, að hönnun þurrkaranna eða gerð þeirra var hin sama, sem lögð var niður hér á landi við svipaðar aðstæður fyrir meira en 11/2 áratug. Þótt slíkt tæki eða völundarsmíð, sem ég nefni svo sé flutt til landsins, þá er ekkert við því að segja, en hér verður að koma til samkeppnishæfni bæði um verð og gæði. Að verkið sé boðið út, bæði hér og erlendis, samanburður gerður á gæðum og verði og Íslendingar látnir njóta í verki þeirra skattfríðinda, sem þessu fyrirtæki hafa verið búin með innflutning. En upplýst hefur verið, að Kísiliðjan h.f. hefur greitt 9% meðaltoll af öllum sínum innflutningi og þar með talinn 7.5% söluskattur, eftir því sem talsmaður verksmiðjunnar hefur tjáð iðnaðarnefnd. Innlendir framleiðendur eru hins vegar knúnir til að greiða í tolla, söluskatt og aðra 17–20 skattliði ekki undir 25–30%. Dálítill munur, sem taka verður með í reikninginn eða hvað finnst þdm.? Ég tel, að okkur Íslendingum beri að fylgja fast fram frjálsu hagkerfi og þar með frjálsri samkeppni. En það segir að sjálfsögðu, að við verðum að keppa á hinum frjálsa markaði, m.a. með því að sá, sem býður bezt verð og bezta tæknilega útfærslu á samkeppnishæfum grundvelli, skuli metinn hæfastur til verka. Ég mótmæli því hins vegar algerlega, að hér komi eða eigi að koma bein lána- eða peningasjónarmið inn í dæmið, lánasjónarmið, sem ég þekki mætavel. að samið skuli við þann, sem getur lánað. Ef svo ætti að verða, yrðum við Íslendingar ætíð undir, litlar undirlægjur þeirra ríku þjóða, sem hafa peningaráð. Slík sjónarmið má ekki viðurkenna á Íslandi nú, þar sem atvinnu vantar. Ef það væri gert, þá er atvinna þúsunda í veði. Enda er það yfirlýst stefna gjaldeyrisbankanna og langlánanefndar, sem mér skilst, að sé ráðgefandi nefnd fyrir ríkisstj. eða jafnvel alls ráðandi, að innflutningur sé alls ekki leyfður til landsins með löngum gjaldfresti á vélum eða tækjum, sé hægt að framleiða slíkar vélar jafngóðar á samkeppnishæfu verði hérlendis. Þetta er yfirlýst stefna langlánanefndar viðskmrn. og bankanna, sem hafa gjaldeyrisréttindi. Þannig kemur ekki til greina innflutningur á þeim vélum og tækjum, sem til Kísiliðjunnar þarf nú til að firra taprekstri, nema Íslendingar geti ekki smíðað þessi tæki jafngóð og á samkeppnisgrundvelli. Það er skoðun mín, að frá þessu verði ekki hvikað.“

Þannig kemst hv. alþm. Sveinn Guðmundsson að orði, og ég vil enn minna á, að hann er einn helzti leiðtogi Sjálfstfl. og hann var boðinn fram til þings til þess að leggja áherzlu á, að Sjálfstfl. vildi beita sér fyrir því að styrkja íslenzkan iðnað. Ég tel, að það sé sérstök skylda Sjálfstfl. að taka mark á því, sem slíkur maður segir.

Í samræmi við þetta sjónarmið lögðum við, sem skipum minni hl. iðnn., til í iðnn. sjálfri, að tekin yrðu inn í frv. ákvæði, sem tryggðu það, að íslenzkir aðilar fengju að njóta jafnréttis um framkvæmdir við Kísilgúrverksmiðjuna. Við leggjum til, að við 1. mgr. 1. gr. l. bætist: „Framkvæmdir við stækkunina skulu boðnar út og íslenzkum tilboðum tekið, ef þau eru sambærileg að verði og gæðum“. Við freistuðum þess að fá um þetta samstöðu í iðnn. og við spurðum þá, sem þarna voru mættir, Pétur Pétursson og Hjört Torfason um það, hvort þeir gætu af hálfu verksmiðjunnar borið fram einhverja aths. við þessa stefnu, að íslenzk fyrirtæki fengju að vinna verk, sem þau gætu gert eins vel og aðrir. En þá kom fram ákaflega alvarlegt atriði. Pétur Pétursson sagði, að hann væri í sjálfu sér sammála þessari stefnu. En ef þetta yrði tekið í lög, mundi það tefja framkvæmdir við verksmiðjuna vegna þess að verksmiðjustjórnin væri nú þegar búin að gera samning við bandarískan aðila um að vinna þetta verk.

M.ö.o., hæstv. ríkisstj. leggur hér fyrir frv. og biður okkur alþm. að samþykkja frv. En engu að síður hefur hún leyft sér það fyrir mörgum mánuðum að semja við erlendan aðila um það atriði, sem hún er að fá heimild fyrir hér á þingi. Þetta er fullkomið alvörumál. Á þennan hátt geta starfsmenn okkar ekki hegðað sér. Mér finnst það satt að segja furðulegt, að hæstv. fjmrh., sem ég veit, að er persónulega grandvar maður, skuli leyfa sér vinnubrögð eins og þessi. Það sýnir, hvað skilningur á réttri hegðun er fyrir utan allt velsæmi hér á Íslandi. Ég fullyrði það, að í nágrannalöndum okkar væri það algerlega óhugsandi, að ráðh. og embættismenn leyfðu sér vinnubrögð eins og þessi, að binda hendur Alþ. í verki á þennan hátt.

Skýringin á því, að þetta hefði verið gert var sú, að með því að semja við bandarískan aðila var hægt að fá lán hjá Export-Import-bankanum og það væri verulegur hluti þeirra 150 millj., sem ríkisstj. ætlar að taka að láni til stækkunarinnar. M.ö.o., við erum að semja við erlendan verktaka vegna þess að erlent ríki kaupir okkur til þess með því að lána okkur fé. Það grefur undan okkar eigin atvinnurekstri með því að bjóða okkur lánsfé. Einnig um þetta atriði er hæstv. ríkisstj. þegar búin að gera bráðabirgðasamning við Exportimport-bankann, áður en ákvarðanir eru teknar á þingi.

Mér finnst, að þessi framkoma verksmiðjustjórnar og sérstaklega hæstv. fjmrh., formanns hennar, sé svo alvarleg að alþm. beri að taka í taumana og láta hæstv. ráðh. finna það, að hann hefur ekkert vald til þess að hegða sér á slíkan hátt. Sú röksemd, að þetta hafi flýtt fyrir störfum, segir náttúrlega ekki neitt, því að ef fyrr hefði þurft að taka ákvarðanir, bar hæstv. ráðh. að bera það mál í tíma undir okkur á Alþ., og gera þá undirbúningssamninga, sem gera þyrfti alveg eins víð íslenzka aðila og erlenda, eða bjóða verkið það tímanlega út, að íslenzkir aðilar gætu keppt um það. En að binda hendur okkar á þennan hátt er algerlega fráleitt. Ég trúi ekki öðru en að hv. alþm. samþykki þá brtt., sem við höfum lagt fram og ég gerði grein fyrir áðan, um jafnrétti íslenzkra fyrirtækja í keppni um þessi verkefni.

Að öðru leyti tökum við það fram í minni hl. iðnn., að þetta mál sé þannig vaxið, að við séum komnir í algera sjálfheldu. Eins og fyrirtækið er núna, er fyrirsjáanlegur taprekstur um alla framtíð og okkur er sagt, að með því að stækka það, getum við komizt úr þeim ógöngum. Persónulega vil ég lýsa yfir því, að ég er dauftrúaður á framtíð þessa fyrirtækis. Það stafar af því, eins og ég rakti við 1. umr., að þarna erum við í samvinnu við aðila, sem hefur einokunaraðstöðu á þessu sviði í Evrópu, sem einokar Evrópumarkaðinn svo að segja gersamlega, ræður yfir honum að 80–90%. Samvinna við slíkt fyrirtæki er ákaflega erfið vegna þess að það getur ævinlega sett okkur stólinn fyrir dyrnar. Það ræður yfir öllum þáttum þessarar framleiðslu, það getur skorið úr um það, hvernig hráefnisverðið á að ákveðast og hver á að verða hlutur verksmiðju o.s.frv. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þó að hæstv. fjmrh. talaði hér einkar hlýlega um daginn um ágæta menn í forystu þessa erlenda fyrirtækis, þá kunna þeir mjög vel til verka, og þeir munu ekki láta okkur hafa meiri kost fjármuna en þeir kjósa sjálfir. Ég hef ekki trú á því, að samvinna við þennan aðila verði sérstaklega arðbær fyrir okkur og ég mun því fyrir mitt leyti sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.