17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég get ekki annað en látið því mótmælt, sem hv. þm. sagði, þar sem hann gaf í skyn ég vil ekki segja, að hann hafi fullyrt það, en það mátti skilja orð hans þannig, að kennarar höguðu prófum í sumum skólum, mér skildist í menntaskólum og háskóla, vísvitandi þannig, að það væri til þess fallið að bægja nemendum frá námi, jafnvel gert í því skyni að bægja nemendum frá námi. Þetta finnst mér, að manni í minni stöðu sé skylt að andmæla. Þetta hefur komið fram í blöðum áður, og ég lét það verða tilefni til þess, að ég gerði það að sérstöku athugunarefni og hef fyrir mér skýlausar yfirlýsingar þeirra skóla, sem í blaðagreinunum var vikið að, og þ. á m, forstöðumanna læknadeildar Háskólans, að þessar ásakanir séu fullkomlega tilhæfulausar. Ég veit ekki, hvað hv. þm. hefur við átt, en mér kæmi það ekki á óvart, að hann hafi átt við það sama, sem komið hefur fram opinberlega í blöðum oftar en einu sinni, að prófkröfur í 3. bekk sumra menntaskólanna séu viljandi hafðar svo strangar, að tilgangurinn með því sé að bægja nemendum frá áframhaldandi menntaskólanámi. Gegn þessari staðhæfingu, sem ég hef aldrei séð rökstudda með neinum rökum, eru fyrir hendi alger andmæli yfirvalda og kennara þeirra skóla, sem hlut eiga að máli. Og af því er læknadeildina snertir sú ásökun hefur einnig komið fram hér á hinu háa Alþingi — bar mér að sjálfsögðu sérstök skylda til þess að kanna, hvað kynni að vera rétt í þessu. Það gerði ég og var fullvissaður um það, að prófkröfur, sem gerðar væru í læknadeild, væru að öllu leyti eðlilegar og sízt strangari en gerðist í læknaskólum á Norðurlöndum. Þó er það þannig, að ég held, að í flestum læknaskólum á Norðurlöndum eru gerðar sérstakar inntökukröfur. Hér eru allir teknir inn í læknadeildina, sem fullnægja almennum kröfum um það að stunda nám í Háskólanum. Þetta á sér ekki stað á hinum Norðurlöndunum. T.d. er svo komið í Noregi, að því er mér skilst, eða var, þegar ég síðast frétti til, að til læknanáms í Noregi er enginn maður tekinn, sem ekki hefur ágætiseinkunn á stúdentsprófi. Samt sem áður eru kröfur þar, að því er mér er tjáð — hér verð ég að segja annarra manna skoðun, án þess að geta myndað mér sjálfstæða eða rökstudda skoðun á því sjálfur samt sem áður eru kröfur hér í öllum aðalatriðum svipaðar og þær gerast í læknadeildum Norðurlandanna og námstími í raun og veru alveg sá sami og þar er.

Hv. þm. sagði, að Háskóli Íslands væri langt á eftir öðrum háskólum. Þetta tel ég rétt að mjög mörgu leyti og verður að standa til bóta. Ég skýrði þetta með smæð Háskólans og þeim erfiðleikum, sem á því eru að reka jafnlitla stofnun og Háskóli Íslands er, en þetta hefur íslenzkum stjórnarvöldum verið ljóst. Hvað það snertir, sem hv. þm. drap á, að nauðsyn bæri til þess að gera framkvæmdaáætlun í þágu Háskólans, er það fullkomlega rétt. Þetta var stjórninni ljóst fyrir tveimur árum og þess vegna var skipuð stór nefnd, sem fékk tveggja ára starfstíma og hálfan starfsmann til umráða í 2 ár til þess einmitt að gera framtíðaráætlun fyrir Háskólann næstu 20 árin. Hún átti að skila áliti fyrir þessi áramót. Starfið hefur því miður reynzt svo viðamikið, að það tekst ekki, en mér er lofað niðurstöðum nefndarinnar fyrir vorið. Svo að þessu leyti er ég alveg sammála hv. þm., að hér er stórkostlegt verkefni á ferðinni. Ég hef hafi náið samband við formann nefndarinnar og fleiri, sem í nefndinni eru, og þeir hafa sagt mér, að verkefnið sé í raun og veru enn þá stærra heldur en þeir hefðu gert sér grein fyrir, þegar þeir tóku við störfum, og afsaka með því, að ekki hafi verið hægt að standa við starfsáætlun nefndarinnar, hvað tímann snertir.