22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Nú eru í gildi ferns konar lagaákvæði um starfsemi Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins: Það eru í fyrsta lagi lög um einkasölu á áfengi með nokkrum breytingum, sem síðar hafa verið á þeim lögum gerðar. Það eru lög um einkasölu ríkisins á tóbaki einnig með ýmsum síðari breytingum. Það eru í þriðja lagi lög um einkasölu á eldspýtum og vindlingapappír og í fjórða lagi sérstök lög, sem sett voru um sameiningu rekstrar Áfengisverzlunar og Tóbaksverzlunar ríkisins. Okkur þótti því í fjmrn. mjög æskilegt að endurskoða þessa löggjöf alla með það í huga að steypa henni saman í eina löggjöf, sem hefur hlotið nafnið Verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf og er það heiti frv., en ekki er gert ráð fyrir að öðru leyti, að nafn fyrirtækisins, Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, breytist. Þetta skipulagsatriði er annað meginefni þessa frv.

Til viðbótar má svo geta þess, að lagaákvæði, sem í gildi hafa verið um Lyfjaverzlun ríkisins, hafa verið mjög ófullkomin og ýmislegt í þeim orkað tvímælis. Það þótti því sjálfgert að setja þá einnig skýrari ákvæði um það hlutverk, sem Lyfjaverzlun ríkisins skyldi hafa. Ég skal taka það fram, að það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort ríkið ætti að reka lyfjaverzlun eða ekki, en nánari athuganir, sem fram fóru á því máli, þegar síðast var skipt um forstöðumann Lyfjaverzlunar ríkisins, leiddu í ljós, að það var talið ógerlegt að fella niður þessa þjónustu. Hún væri það mikils virði fyrir sjúkrahús og lækna og þá aðila, sem fyrst og fremst eiga að leita til þessarar stofnunar og raunar lyfjabúðirnar í vissum tilfellum líka, að það væri ekki auðið að leggja þetta fyrirtæki niður.

Ég skal geta þess jafnframt, að það komu þá fram hugmyndir um það frá lyfsölum, hvort ekki væri hægt að stofna sameiginlegt fyrirtæki um þessa þjónustu, en þær viðræður leiddu ekki til neinnar niðurstöðu. Enda þótt hér sé um heilbrigðisstofnun að ræða, þá hefur hún alltaf verið rekin á vegum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins og er gert ráð fyrir, að svo verði áfram, en ákvæði um verzlunina gerð ótvíræðari og sumt af því hefur þegar verið gert með venjurétti, ef svo má segja, þannig að hér er ekki um neinar grundvallarbreytingar að ræða.

Einu veigamiklu efnisbreytingarnar, sem eru gerðar frá núverandi starfsemi þessa fyrirtækis, eru þær, að lagt er til, að hér eftir nái einkasöluréttur Afengis- og tóbaksverzlunar ríkisins ekki til ilmvatna, hárvatna, andlitsvatna, bökunardropa og kjarna til iðnaðar, heldur verði sá innflutningur gefinn frjáls og hann með venjulegum hætti tollaður, og munu þessar vörur allar verða í mjög háum tollflokkum, sumar í hæstu tollflokkum. Aðstæður allar og víðtæk viðskipti, sem eru á þessum sviðum sem öðrum, gera í rauninni alveg óeðlilegt, að á þessu sé ríkiseinkasala. Það gegnir allt öðru máli með áfengi og tóbak, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. séu mér yfirleitt sammála um. Það er að vísu einn varningur enn, sem er einkasala á, en það eru eldspýtur, og gæti auðvitað komið til álita, að sá innflutningur væri einnig gefinn frjáls, en það hefur nú ekki orðið niðurstaðan í þetta skipti að leggja það til. Vitanlega skiptir það máli í sambandi við ilmvötn og hárvötn og þær vörur, sem geta innihaldið alkóhól, að frá því sé gengið, að ekki geti orðið um misnotkun að ræða, og þess vegna er það tekið skýrt fram, að því aðeins séu þessar vörur undanþegnar einkasöluákvæðum, að hér sé um að ræða vörur, sem gerðar eru óhæfar til drykkjar og öruggt, að ekki sé hægt að gera þær drykkjarhæfar.

Ég skal taka það fram, að þessar vörur hafa gefið Áfengisverzluninni nokkrar tekjur og má gera ráð fyrir því, að á pappírnum líti svo út, sem um nokkurn tekjumissi sé að ræða. Þó er ég í miklum vafa um, að svo reynist í reynd, vegna þess að innflutningur á þessum vörum hefur verið óeðlilega lítill, þannig að það er sýnilegt, að einkasöluákvæðin og sú geysilega álagning, sem á þessum vörum sumum hefur verið, t.d. ilmvötnum, hafa leitt til þess, að innflutningur ilmvatna er langt fyrir neðan eðlilegt mark, þannig að það er ljóst, að hér hefur átt sér stað innflutningur með öðrum hætti, sem ekki hefur komið til tollgreiðslna, í mjög stórum stíl. Það er því skoðun mín, að þó að þetta yrði gert, mundi það ekki þurfa að leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð, þegar allt kemur til alls, heldur örva frekar innflutning á þessum vörum með eðlilegum hætti, og því ekki vera um að ræða neitt áfall, þó að þetta gerist á þennan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, þar eð hér er um mjög einfalda löggjöf að ræða, að fara um hana fleiri orðum. Skipulag þessa fyrirtækis mun verða með sama hætti eins og áður greinir, svo sem ég gat um. Lyfjaverzlunin verður rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sjálfstæðum forstöðumanni, eins og verið hefur, en að öðru leyti verður rekstur hennar tengdur Áfengisverzlun ríkisins einnig með sama hætti og verið hefur til þessa til þess að tryggja hagkvæmari rekstur fyrirtækjanna beggja.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og vildi mega beina þeirri ósk til þeirrar hv. nefndar, þar sem nú er liðið á þingtíma, að hún leitaðist við, ef þess er nokkur kostur, að afgreiða frá sér málið sem fyrst, því að ég hefði áhuga á, að það yrði afgreitt á þessu þingi.