22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins er rekin í því skyni að afla ríkissjóði tekna. Að því leyti er hún ekki sambærileg við venjulegar verzlanir, þar sem hún er í rauninni einn af tekjustofnum ríkisins, ekki með almennu söluálagi, heldur með því að taka í rauninni sérstakan toll af tóbaki og áfengi. Ég verð nú auðvitað að játa, að ég hef aðeins lesið þetta frv. mjög lauslega yfir og er sammála hæstv. fjmrh. um það, að vert sé að hafa sem greinilegust lagaákvæði um starfsemi þessarar stofnunar, og enn fremur sýnist mér ekki óeðlilegt, að undir hana sé lagt það, sem hér er gert ráð fyrir og ég tel einnig, að lagaákvæðin, sem um hana gilda, eigi að ná til allra eða sem allra flestra þátta í starfsemi hennar.

Ég sé það hér í 2. gr. frv., að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins einni skal heimil starfræksla tóbaksgerðar, svo og framleiðsla áfengra drykkja annarra en öls. Nú er mér kunnugt um það, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins hefur tekið að sér öl til umboðssölu eða til fyrirgreiðslu frá einkafyrirtæki, og væri þá ekki eðlilegt, ef það verður hlutverk þessarar verzlunar í framtíðinni að greiða fyrir einkafyrirtækjum með umboði eða dreifingu á þeirra vörum, að gera um það sérstakan kafla í lögunum. Vera má, að hér sé um að ræða eitthvað alveg óvenjulegt og standi ekki til að halda þeirri starfsemi áfram, en ég teldi þá ástæðu til þess um leið og þessi lög eru hér til umræðu, að fyrir því verði gerð grein, hvernig á því stendur, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tekur að sér slíka starfsemi, sem virðist vera utan við það svið, sem henni er ætlað í lögum og hvort til standi, að hún haldi slíkri starfsemi áfram. Ef svo er ekki, væri líka rétt, að það kæmi fram, hver var ástæðan til þess, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tók þetta að sér í ákveðnu tilfelli, sem ég veit ekki um nema eitt, hvort það er sérstök vinsemd, sem þessi einkasala sýnir þannig ákveðnum einkaaðilum, en hefur ekki almennt talið til síns verksviðs. Ég sem sagt mælist til þess af hæstv. ráðh., að hann geri hér grein fyrir þessu máli og ef verzluninni væri ætlað þetta hlutskipti í framtíðinni, hvort ekki væri þá vert að taka upp sérstakan kafla í lögin um það.