22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var eitt smáatriði, sem ég gleymdi í ræðu minni áðan, sem ég tel rétt að komi fram og er ein ástæðan fyrir því, að lagt er til að fella niður einkasölu á ilmvötnum, en hún er sú, að það hafa oft skapazt mjög mikil vandræði í sambandi við það, að ilmvötn eru gjarnan flutt inn með öðrum snyrtivörum. Hér eru í stórum stíl fluttir inn snyrtivörukassar með ilmvötnum, sápum og andlitsdufti og einu og öðru slíku, og þetta hefur verið mjög ankannalegt og erfitt í framkvæmd, að Áfengisverzlun ríkisins hefur orðið að framselja innflutningsrétt sinn á þessari einu vöru, sem er í þessum kössum. Þetta taldi ég rétt, að komi fram.

Varðandi fsp. hv. 6. þm. Sunnl. um umboðssölu Áfengisverzlunarinnar á öli, þá er mér ákaflega ljúft að svara þeirri fsp. og raunar sjálfsagt, að það komi fram til að það valdi ekki misskilningi. Það er á engan hátt ætlunin, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins taki upp slíka fyrirgreiðslu við fyrirtæki í framtíðinni. Og ástæðan til þess, að þetta var gert, var ekki heldur nein sérstök vinsemd til einhvers ákveðins fyrirtækis, heldur var þessu máli þannig háttað, að ölgerð á Akureyri, Sana, var tekin til gjaldþrotaskipta og skiptaráðandi sem slíkur taldi vera með öllu óverjandi að halda ekki áfram starfrækslu fyrirtækisins, vegna þess að ef ætti að stöðva það, mundi það valda stórkostlegum spjöllum fyrir kröfuhafa og geta leitt til þess, að stórtjón hlytist af, sem ella væri hægt að forðast, ef hægt væri að halda fyrirtækinu gangandi. Skiptaráðandinn óskaði því beinlínis eftir því, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tæki þetta að sér um sinn, meðan fyrirtækið væri undir opinberum skiptum. Og ég skal játa það, að það voru nokkrar vangaveltur hjá okkur í ráðuneytinu um það, hvort þetta ætti að gerast, en aðstæður málsins voru þannig, að það höfðu orðið alger mistök varðandi umboðsmann þessa fyrirtækis hér í Reykjavík. Hann hafði ekki gert skil og fjarri öllu lagi að láta hann halda áfram sinni starfsemi. Þetta var þess vegna nokkuð erfitt vandamál að fást við, þar sem alger óvissa var um áframhaldandi rekstur og í rauninni ekki hægt að fara að hefja samninga við einhvern nýjan aðila hér í Reykjavík til þess að taka að sér þetta umboð kannske í nokkrar vikur eða algerlega óljósan tíma. Það var því eftir atvikum fallizt á það, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins sæi um dreifingu á þessum vörum hér í borginni, en það var skýrt tekið fram, að það væri aðeins meðan fyrirtækið væri í höndum skiptaréttar og beinlínis eftir beiðni skiptaráðandans á Akureyri, en ekki eftir neinum afskiptum rn. að öðru leyti en því, að rn. féllst á þetta. Ég vænti þess nú og vona það, að slíkt ástand verði ekki algengt um slíkar stofnanir hér á Íslandi — jafnvel þó að þær hafi nú misst af því að framleiða sterkt öl í bili a.m.k. — að þær komi til slíkrar meðferðar í höndum skiptaréttar, þannig að ég held, að það sé algerlega ástæðulaust að óttast það. Ég skal þó ekkert um það segja, ef skiptaráðandi eða einhver slíkur opinber aðili kynni einhvern tíma að óska eftir slíku, að það yrði ekki orðið við því. Ég held, að það sé ástæðulaust að óttast, að það geti haft nokkurt fordæmi í för með sér, og geti verið í það vitnað af einum né neinum, þar sem hér er um það að ræða, að þetta var aðeins gert í sambandi við fyrirtæki, sem svona var ástatt með og eftir beiðni hins opinbera skiptaráðanda, sem þó væntanlega hefði ekki verið orðið við nema vegna þess, að ríkið átti verulegra hagsmuna að gæta vegna vangoldinna gjalda af hálfu þessa fyrirtækis og ríkissjóður hafði að sjálfsögðu mikinn áhuga á, að væri hægt að tryggja, að ekki glötuðust. Þetta tel ég sjálfsagt, að komi fram og er hv. fyrirspyrjanda þakklátur fyrir það, að hann hefur vakið máls á þessu og gefið mér kost á því að skýra, hvernig í þessum málum liggur.