05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni þess frv., sem hér liggur fyrir, en vísa í því efni til frv. sjálfs og framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir málinu við 1. umr. málsins. Eins og nál. á þskj. 619 ber með sér, mælir fjhn. með því, að frv. verði samþykkt. Einn hv. nm. skrifar þó undir nál. með fyrirvara, en með tilliti til þess, að hann er ekki staddur hér í hv. d., þannig að hann eigi kost á því að tala fyrir sínum fyrirvara, þá tel ég rétt, að upplýsa það, að hv. þm. mun vera andvígur þeim ákvæðum frv., að felld sé niður einkasala ríkisins á ilmvötnum; hárvötnum o.s.frv., en að öðru leyti mun hann fylgja öðrum nm. varðandi afstöðu til málsins.

Eins og fram kemur í nál. hafa einstakir nm. þó áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég sé, að brtt. hafa verið lagðar fram frá einstökum nm. í fjhn. á þskj. 589 og 590. Eins og ég tók fram, höfðu nm. almennt áskilið sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt., þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þessar till., enda mun verða fyrir þeim talað af öðrum. En þó vil ég aðeins fara örfáum orðum um fyrri brtt. á þskj. 589, sem flutt er af 5 nm. í fjhn. og leiðir það auðvitað af því, sem ég þegar hef sagt, að það verður algerlega frá eigin brjósti.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála því, sem fyrir mönnum vakir með því að flytja þessa brtt., en það er það að auka neyzlu smávindla á kostnað sígaretta, en það mun vera almenn skoðun lækna, að sígarettureykingar séu frá heilsufræðilegu sjónarmiði miklu hættulegri heldur en neyzla annars tóbaks, svo sem vindla og píputóbaks. Annað mál er það, hvort trygging væri fyrir því, að þær till., sem hér eru gerðar um það að ákvarða þau álagningarhlutföll, sem lögð eru til, séu líklegar til þess að ná þeim tilgangi, sem ég er í rauninni sammála hv. fim. um. Það er mál út af fyrir sig, hvort Alþ. á að fara svo langt út í smáatriðin í þessu sambandi að ákveða beinlínis álagningarhlutföllin. Í þessu efni má vekja athygli á 3. gr. þessa frv., sem segir, að fjmrh. ákveði útsöluverð áfengis og tóbaks á hverjum tíma. En fyrir mér er það þó ekki aðalatriðið, heldur er spurningin hin, hvaða áhrif það mundi hafa, ef þetta væri gert. Nú gæti maður hugsað sér þetta framkvæmt með tvennu móti. Annars vegar því, að álagningin á sígarettum yrði óbreytt, en álagningin á smávindlum þá lækkuð niður í 1/3 af álagningunni á vindlingum. Ef sú leið væri farin, þá er það auðvitað ljóst, að ríkissjóður mundi verða fyrir nokkrum tekjumissi, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir á sínum tíma, þegar fjárlög voru afgreidd. En ég býst nú við, að það sé frekar annað, sem fyrir hv. flm. vakir, nefnilega að hækka álagninguna á sígarettum þannig, að það komi til að vega sem næst á móti því tekjutapi, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna lækkunar álagningar á smávindlum. En þá vil ég aðeins leyfa mér að benda á þá hættu, að slíkt verði til þess að auka hættuna á meira smygli heldur en þegar á sér stað. En eins og kunnugt er, þá hefur sérstaklega áfengi og raunar tóbak líka engan veginn verið hækkað til samræmis við þá gengisfellingu, sem átt hefur sér stað s.l. tvö ár. Ég hugsa, að ein af meginástæðunum til þess, að áfengi og tóbak hefur þó ekki verið hækkað meira heldur en raun er á, sé hætta, sem talin er á því, að ef þetta hækkar of mikið, leiði það til aukins smygls. Þetta vildi ég aðeins leyfa mér að benda á, en að öðru leyti hafa einstakir nm., eins og þegar hefur verið tekið fram, algerlega óbundnar hendur í þessu efni.

Ég vildi svo að lokum geta þess, að eftir að n. hafði afgreitt málið og skilað nál. sínu barst mér bréf frá Apótekarafélagi Íslands, þar sem farið er fram á smávægilegar breytingar á frv. En efni þessa bréfs verður til athugunar í n. á milli 2. og 3. umr.