05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja örfá orð um þessar ágætu brtt., sem hér liggja fyrir og sýna lofsverðan áhuga þeirra, sem þær flytja, á því að draga nokkuð úr skaðsemi og þeirri hættu, sem stafar af tóbaksnautn og sérstaklega sígarettunautn. Það er alltaf góðra gjalda vert, þegar menn reyna að finna ráð til þess að koma í veg fyrir tjón, sem hlýzt af slíku. En ég get þó ekki annað en komið fram með ofurlitlar hugleiðingar í því sambandi. Þetta frv. fjallar nú ekki eingöngu um verzlun með tóbak, heldur er þetta frv. um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Nú hef ég satt að segja verið þeirrar skoðunar, að þó að tóbak sé skaðlegt og tóbaksnotkun slæm, þá muni nú áfengisnautnin vera talsvert viðsjárverðari og talsvert meiri skaðsemi muni nú stafa af henni. Ég býst við því að ef allt væri saman talið, allir þeir sjúkdómar, allt það vinnutap, öll þau slys, öll þau sjálfsmorð og annað, sem leiðir af áfengisnautn, þá mundi nú fara meira fyrir því, heldur en skaðsemi tóbaksnautnarinnar, þó að slæm sé. Þess vegna er ég satt að segja dálítið hissa á þessum áhugasömu mönnum, að þeir skuli ekki finna hvöt hjá sér til þess að koma með hliðstæðar till. varðandi áfengið. Hvers vegna skyldi ekki vera ástæða til þess að setja jafnáhrifarík aðvörunarmerki á áfengisflöskurnar eins og þau, sem þeir gera ráð fyrir, að settar verði á sígarettupakkana? Væri ekki ástæða til þess? Og áreiðanlega eru áfengistegundirnar, sem á boðstólum eru, misjafnlega hættulegar. Væri ekki ástæða til þess að athuga eitthvað álagningarreglurnar þar og haga verðákvörðun á þeim þannig, að menn hylltust frekar til þess að kaupa þær áfengistegundir, sem hættuminni væru heldur en þær skaðlegustu. Það held ég, ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir í þessu. Og ég verð nú að segja það, að ef við stjórnarandstæðingar í þessari d. hefðum sama hugsunarhátt eins og minn hv. sessunautur, 4. þm. Reykn., þá mundi nú sjálfsagt ekki líða á löngu, áður en við færum allir í áfengisbindindi, því að þó að tóbakið kannske hafi nú verið fyrrv. ráðh. eitthvert ofurlítið flotholt, þá hygg ég nú, að áfengið sé öllu drýgra til þess að halda öllu gangandi nú og núv. ríkisstj. á floti.

Ég vil sem sagt benda á þessi atriði, af því að mér finnst það, að þegar menn eru að fjalla um svona mál og taka aðeins í þennan að mínum dómi svo langtum veigaminni þáttinn, en láta sem þeir sjái ekki hinn, þá finnst mér það, þó að þetta sé gott svo langt sem það nær, jaðra við hræsni að ætla að fara að taka aðeins til meðferðar þann þáttinn, sem öllum hlýtur að vera ljóst, að er miklu hættuminni heldur en sá þáttur, sem mest vegur í þessari verzlun, þ.e.a.s. verzlunin með áfengi.

Eins og ég sagði í upphafi, þá tel ég þessar till. út af fyrir sig flestar góðra gjalda verðar og mun greiða þeim atkv. nema brtt. á þskj. 590. Ég held, að þar sé farið út á einkennilega leið. Ég sé ekki hvar ætti að draga mörkin, ef inn á þá meginreglu, sem þar virðist liggja til grundvallar, væri gengið og menn ættu alltaf að reyna að vega á móti eða bæta fyrir auglýsingu, sem gæti hugsanlega haft miður góð áhrif, með því að láta í té ókeypis jafnmikið rúm til þess að andæfa á einhvern hátt þessari auglýsingu, sem birt hefur verið gegn gjaldi. Ég held, að það muni verða dálítið vandasamt að átta sig á því, hvar eigi að nema staðar og hvar eigi að setja mörkin í þessu efni, því að náttúrulega er það nú fleira en tóbak, sem er auglýst og sem getur haft svona dálítið vafasöm áhrif. Einu sinni t.d. var bannað að minnast á dans í ríkisútvarpinu. Einhverjum hugsandi menntmrh. gæti dottið í hug að taka upp hliðstæða reglu varðandi allar skemmtanaauglýsingar, eins og hér er sett fram, og krefjast þess að það yrði varið jafnlöngu rúmi í þessum fjölmiðlunartækjum til þess að vara fólk við þeirri óreglu, sem ætti sér stað í danshúsum eða öðrum slíkum húsum. Ég held sem sagt, að það sé ástæða til þess að athuga þetta mál ofurlítið betur og það sé ekki jafneinfalt eins og ætla mætti af þeirri till., sem hér er sett fram. Og auðvitað er þetta líka hálfkák. Ef menn telja þessar auglýsingar þess háttar, að þær séu sérlega skaðlegar, þá eiga menn auðvitað að stíga skrefið til fulls og banna slíkar auglýsingar. Annað er auðvitað ekki sæmandi. Hitt, að fara að leyfa þá auglýsingu, en heimta á móti aftur einhverja rollu um það, að þetta sé svo hættulegt og vara við, það held ég, að séu ákaflega einkennileg vinnubrögð. Menn verða bara að gera svo vel og gera það upp við sig, hvort þeir vilja banna þessar auglýsingar eða ekki, hvort þeir vilja láta sömu reglu gilda um auglýsingar á tóbaki eins og þær sem gilda um auglýsingar á áfengi, en áfengisauglýsingar eru bannaðar. Einmitt það atriði sýnir stefnu löggjafans í því efni, að hann hefur talið áfengið öllu hættulegra heldur en tóbakið, enda er það náttúrlega í samræmi við heilbrigða skynsemi.