05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Það getur nú margt komið fyrir á langri ævi, en sízt hefði ég nú búizt við því, að það ætti fyrir mér að liggja að þurfa að kenna hv. 3. þm. Norðurl. v. lögfræði og að benda honum á það, sem að vísu rann nú upp fyrir honum í lok ræðunnar, að áfengisauglýsingar eru bannaðar í lögum, að það er til stór og fáránlegur lagabálkur, sem heitir áfengislög og meira að segja er á dagskrá hv. Ed. í dag. Og ef hv. þm. hefði nú lesið mínar brtt. við þann lagabálk með athygli, þá hefði hann séð, að þar er einmitt lagt til að fella niður bannið gegn áfengisauglýsingum. Jafnframt furða ég mig á því, að hann skuli ekki vita, þ.e.a.s. að það skuli ekki liggja ljóst fyrir honum hverja stund, því að sjálfsagt veit hv. þm. þetta, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins þarf að gjalda vissan skatt einnig til áfengisvarna og lækninga áfengissjúkra í landinu.

Hann minntist líka á skemmtanaskattinn, og taldi það fráleitt að þeir, sem færu á lélegar skemmtanir, væru skattlagðir, svo að þeir sjálfir eða aðrir gætu horft á eitthvað betra. Þetta er búið að gera hér í landinu í fjölda ára. Út frá því sjónarmiði, að það sé hollara að fara í Þjóðleikhúsið heldur en í kvikmyndahús, þá eru allir gestir kvikmyndahúsa og á dansleikjum og mörgum fleiri skemmtunum skattlagðir fyrir þetta fína fólk, sem hefur meira gaman af að fara í Þjóðleikhúsið. Mér finnst óneitanlega gaman að geta orðið lærimeistari á þessu sviði, þar sem ég hélt, að ég yrði nú eilífur lærisveinn.

Hitt eru mér vonbrigði, hve daufar undirtektir hæstv. fjmrh. eru, eftir að ég hafði nú rétt honum hendina með 1. brtt. Það er náttúrlega enginn hlutur í heiminum auðveldari heldur en framkvæmd þessarar till. eins og hún er. Það er ekkert annað heldur en ef við köllum álagninguna á smávindlana x, þá er hann 3x, þrisvar sinnum hærri prósenta á hitt. Það kostar að vísu það, að innan hvers þessara flokka sé sama álagningin. Það hafði ég nú í minni einfeldni haldið að væri, en ef léleg innkaup eru algeng, þá þarf náttúrlega að halda útsölur. En sem sagt, ég er eins samvinnuþýður og sáttfús eins og verið getur um orðalag á þessu, en hitt vil ég ekki snúa aftur með, að Alþ. eigi að láta í ljós vilja sinn í þessu efni, eigi að láta það koma fram, að það hafi skömm á þessum varningi og hvar er betra tækifæri en hér? Við höfum engan sérstakan lagabálk um tóbaksnautn. Ég veit, að hv. 3. þm. Norðurl. v. mun eiga auðvelt með að sannreyna það, þegar hann kemur heim, og flettir upp í lögbókinni. Alþ. hefur svo sannarlega fullt leyfi til að segja ráðherra, að í sambandi við verðlagningu á tóbaki skuli hann gæta vissra meginreglna, og eins um það, hvernig merkja ber umbúðirnar og hvaða skyldur þarf að uppfylla með auglýsingu á varningnum. Ég álít, að við flm. höfum þarna farið beinustu og einföldustu leiðina að settu marki, tekið frv., sem lá fyrir okkur í ákveðinni þn., gert á því ofurlitlar lagfæringar í staðinn fyrir að setja mikið og stórt apparat í gang. Þessi till. okkar, sem var borin fram áður en nokkur okkar flm. hafði hugmynd um, að þáltill. væri á ferðinni, sem borin er fram í Sþ., kemur á engan hátt í veg fyrir, að sú þáltill. gæti náð samþykki þingsins og komizt í framkvæmd. En er hæstv. fjmrh. tilbúinn til að lýsa yfir því hér á þessum fundi, að hann vilji taka til greina niðurlagsorð þáltill., þar sem stendur: „Kostnaður við starfsemi ráðsins verði greiddur úr ríkissjóði.“ Þarna eru 6 liðir, sem allir geta valdið kostnaði og enginn veit, hve miklum, eða a.m.k. er engin áætlun um það í þáltill. (Fjmrh.: Ég er ekki reiðubúinn til að gera það.) Nei, ráðh. kveðst ekki vera reiðubúinn til að gera það. Enda á það fyrir þessari ágætu till. að liggja að verða tekin fyrir einu sinni, sennilega núna á miðvikudaginn og þá ákveðið hvernig ræða skuli og ef þinginu endist annar miðvikudagur til, að hafa hana þá á dagskrá til fyrri hluta 1. umr. og láta hana síðan sofna í n. En við aftur á móti, sem erum kannske svolítið veðurbarnari í meðferð þingmála, þó að sumir hafi ekki verið hér lengi, heldur en hinir ágætu læknar, sem standa að baki till., við komum með þetta í sambandi við frv., sem þarf að ganga fram og þess vegna er von um, að þessar raunhæfu aðgerðir kynnu að ná fram að ganga einmitt með þessu móti.