05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi nú aðeins gleðja hv. 4. þm. Reykn. með því, að hans meistaramennska er ekki unnin fyrir gýg, því að mér varð það ljósara af ræðu hans en áður, hve gersamlega ósamkvæmur sjálfum sér hann er í þessum málatilbúnaði, vegna þess að ég hafði satt að segja ekki veitt því athygli áður en hv. þm. vakti athygli mína á því, að hann hefur flutt till. um það að fella niður bannið gegn áfengisauglýsingum, svo að eftir hans meiningu eiga þær alveg óhindrað að flæða yfir á sama tíma, sem hann vill setja þær hömlur við tóbaksauglýsingum, sem í tillögu hans greinir. Þær hömlur gætu nú kannske haft þær verkanir, sem hæstv. fjmrh. benti á, að þeir, sem bjóða þessa vöru, umboðin, eða hafa hana á boðstólum, yrðu kannske ekkert sérlega ginnkeyptir fyrir því að auglýsa hana í fjölmiðlunartækjum.

Hins vegar vissi ég það nú áður, að það eru til sérstök áfengislög. Ég vissi það líka, að nokkuð af arði af áfengissölu rennur til áfengisvarnaráðs og í gæzluvistarsjóð. En mér er það kannske kunnugra heldur en hv. 4. þm. Reykn., að í upphafi, þegar þessi lög voru samin, voru till. um það, að það yrði varið mun ríflegri hluta af tekjum þessarar stofnunar til þess einmitt að vega á móti hinum skaðlegu áhrifum hennar. Mér er það kunnugt af þeim ástæðum, að ég var einmitt viðriðinn að semja þetta frv. í öndverðu. Mér er það enn fremur kunnugt, að þó að þessi fáu prósent fari til þessara hluta nú, þá fer því fjarri, að það sé nægilega unnið að þeim málum með því fé, sem til þeirra er varið. Ég man ekki betur en það hafi komið alveg sérstaklega fram hér nýlega í sambandi við einmitt byggingu gæzluvistarhælis, að það skortir algerlega fé til þess, þannig að ég held, að það verði nú ekki eins mikið hald í þeim röksemdum, sem hv. þm. að þessu leyti bar fram, eins og hann vildi vera láta. En annars skal ég ekki vera að hafa fleiri orð um þetta, því að ég er í sjálfu sér sammála hv. þm. um það, að það sé ástæða til þess að berjast með skynsamlegum hætti á móti skaðsemi tóbaks.

Það, sem okkur virðist greina á um, er, og á ég þó bágt með að trúa því, að ég álít áfengi miklu skaðlegra heldur en tóbak, en hann virðist aftur á móti eftir öllu að dæma, sem fram hefur komið, álíta tóbakið öllu skaðlegra heldur en áfengið. Þarna greinir okkur náttúrlega á. Ég lít svo á, að ef hann hefði átt að vera sjálfum sér samkvæmur miðað við þann áhuga, sem hann hefur á því að vekja athygli kaupenda á skaðsemi þeirrar vöru, sem þeir kaupa, þegar þeir kaupa sígarettur, þá hefði hann átt að flytja till. um það að settar væru auglýsingar á hverja brennivínsflösku eða áfengisflösku, sem seld er, að í henni væri svo og svo mikið magn af alkóhóli og að þegar maður drykki þetta og þetta, gæti það haft hinar og þessar afleiðingar fyrir hann. Og ég býst við því, að þar yrði ekki skortur á dæmum að benda á. Þetta finnst mér, að hefði átt að vera. En þó að mér fyndist þetta, þá hefur það auðvitað ekki þau áhrif, að ég fylgi ekki till., þ.e. þeim þeirra, sem ganga í rétta átt. En ég hefði kosið, að þeir litu meira alhliða á málið og tækju áfengið til meðferðar ekki síður en tóbakið. Það er það, sem okkur ber raunverulega á milli. Ég er á sama máli eins og hv. þm. um það, að tóbakið er vissulega skaðlegt og sígaretturnar eru skaðlegar auk þess sem allt of miklum fjármunum er varið til þessa. Þess vegna álít ég, að þó að það hafi á sínum tíma ekki verið talin þörf á því að setja sérstakan lagabálk um meðferð tóbaks, þá gæti nú verið alveg fullkomin ástæða til þess að setja sérstakar reglur um það efni og þá er líklegt, að þvílíkar reglur, sem felast í þessum brtt., mundu eiga heima í þeim lagabálki.

Ég skal svo ekki neitt fara að deila frekar við hv. 4. þm. Reykn., enda erum við, eins og ég hef sagt, að verulegu leyti sammála, þó að mér sýnist skjóta dálítið skökku við að þessu leyti, að hann eða þeir, sem till. flytja, skulu ekki hafa komið auga á þá staðreynd, sem mér virðist liggja í augum uppi, að áfengi er stórum hættulegra heldur en tóbakið og miklu drýgra til að halda hvaða ríkisstj. sem er á floti heldur en tóbakið.