06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af þessari till. Eins og hv. þdm. er kunnugt og hv. frsm. lýsti, var till. eins og hún var flutt í 1. umr. nokkuð „kategórísk“ og fjallaði um það, að það skyldi vera þrefaldur álagningarmunur á smávindlum og vindlingum. Nú hef ég látið kanna það og skal segja frá því í upplýsingaskyni, sem leiðir í ljós, hvílík vandkvæði í rauninni hefðu getað af því risið, ef slík till. hefði verið samþykkt, að álagning á smávindla er nú 134% en á vindlinga 208%. Á vindla er aftur á móti 78% álagning, þar sem þeir eru mjög dýrir í innkaupi. Það hefði hlotið að leiða af sér stórfelld vandræði, ef till. hefði verið í því formi, sem hún í upphafi var flutt, og ég var hræddur um það í gær, að svo mundi geta orðið, enda þótt ég hefði þá ekki fyrir mér tölulegar upplýsingar. Ég er hins vegar mjög ásáttur og þakklátur hv. flm. fyrir það, að þeir hafa breytt till. í það form, sem hún er nú. Eins og sést á upplýsingunum, sem ég hef hér flutt, þá er þó allverulegur munur á álagningu á smávindla og vindlinga, og ég er fús til að taka það fullkomlega til greina að hafa hliðsjón af því við áframhaldandi ákvörðun um álagningu á þessar vörur, að mæta þessum óskum eftir því sem mögulega er auðið, án þess að það leiði til vandræða. Þannig að ég lýsi yfir, að ég get fallizt fullkomlega á tillöguna eins og hún er nú orðuð af hálfu hv. flm.