06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til að flytja brtt. við þetta frv. og hef raunar lagt hana inn til prentunar og útbýtingar, en það hefur því miður ekki unnizt tími til að útbýta henni enn. Ég verð því að leggja till. fram skriflega. En ég vona að það komi ekki að sök, þar sem till. er stutt og auðskilin og þm. ætti því að veitast auðvelt að átta sig á henni, þó að þeir hafi hana ekki á borðunum hjá sér.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða hér á eftir um það, hvort þessi till. megi ekki koma til meðferðar og atkvæða. Og vil leyfa mér að lesa þá till.

Tillgr. er svo hljóðandi: „Eftir 8. gr. komi ný grein, sem verður 9. gr., svo hljóðandi (og breytist greinatalan samkv. því).

„Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins er skylt að verja 3% hið minnsta af árlegum hagnaði af tóbaksverzlun til auglýsinga í fjölmiðlunartækjum um skaðsemi sígarettureykinga og annarrar tóbaksnotkunar.“

Ég vona, eins og ég sagði, að það sé mjög auðskilið, hvað fyrir mér vakir með þessu. Það er mjög ánægjulegt að það er vaxandi skilningur á skaðsemi tóbaksnotkunar og þá ekki sízt sígarettureykinga. Og ég vil segja það, að vissulega var hér í gær stigið spor í rétta átt, þar sem samþykkt var, að merki skyldu sett á sígarettupakka, þar sem menn væru varaðir við og þeim sagt skýrum orðum, hvað af gæti hlotizt, ef þeir tækju upp á því að neyta þessarar vöru, sem á boðstólum verður höfð af ríkisins hálfu.

Ég efast ekki um það, að það muni verða gagn að þessari merkingu á sígarettupökkum. Menn hljóta að draga úr kaupum á sígarettum, þegar þeir sjá þessa áletrun á sígarettupökkunum. Og það er áreiðanlegt, að menn hljóta a.m.k. að hika við að bjóða öðrum sígarettu úr pökkum, sem þetta stendur á. Ég held satt að segja, að það verði fáir gestgjafar svo forstokkaðir að fara fram á það við gesti sína, að þeir taki sígarettu úr pökkum, sem bera jafnsterkt aðvörunarmerki eins og var samþykkt hér í gær. Telja má víst, að opinberir aðilar gangi þar á undan með góðu eftirdæmi og hafi ekki slíkar vörur á boðstólum í opinberum samkvæmum. Þannig að ég hef trú á því, að það verði talsvert gagn af því að merkja vöruna með þessum hætti, eins og hér var samþykkt í gær.

En samt er það svo, að betur má ef duga skal í baráttunni við skaðsemi tóbaksins, og það var vitaskuld út frá þeim hugsunarhætti, sem hér var flutt till. í gær af hv. 4. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Norðurl. e., sem fór í þá átt, getum við sagt, að reyna að stemma stigu við þeim áróðri, sem hafður er uppi af hálfu ýmissa tóbakssala eða tóbaksumboða, með því að skylda þau fjölmiðlunartæki, sem tækju þvílíkar auglýsingar til flutnings, að verja ókeypis tilteknu rúmi í það að vara við þeirri hættu, sem af sígarettureykingum stafaði. Ég gat ekki fylgt þessari till., af því að ég taldi óeðlilegt að leggja þá kvöð á fjölmiðlunartækin, að þau tækju ókeypis að sér að halda uppi vörnum í þessu efni, því að þau hafa ekki gert annað en að taka við þessum auglýsingum sem frá tóbaksumboðum koma og þar með innt af hendi þjónustu, að vísu ekki endurgjaldslausa, en ég gat ekki séð, að það væri sanngjarnt að leggja þá kvöð á þau að verja tilteknu rúmi ókeypis til þess að vara við. En hins vegar viðurkenni ég algjörlega það sjónarmið, að það er þörf á ráðstöfunum gegn þeim áróðri, sem óbeint er a.m.k. uppi hafður fyrir sígarettureykingum. Það er þörf á áróðri gegn sígarettureykingum og sjálfsagt almennri tóbaksnotkun líka, og ég tel það eðlilegt að Tóbaksverzlun ríkisins, sem hefur tekið að sér að verzla með þessa vöru, sem fallin er til þess að hafa skaðleg áhrif með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst, sé skylduð til þess að verja nokkru af hagnaði sínum til þess að reyna að eyða eða draga úr þeim skaðlegu verkunum, sem þessi vara hefur. Það er heilbrigð regla og víða þekkt, sérstaklega í lögfræði, að hættuleg starfsemi bæti það tjón, sem af starfsemi hennar hlýzt. Það er út frá þessari hugsun, sem þessi litla till. mín er flutt, og það má segja, að hún sé byggð á svipaðri hugsun, eins og kemur fram í áfengislögunum, þó að þar sé ákaflega skammt gengið í því að verja örlitlu, svo óskaplega litlu broti af áfengisgróðanum til þess að vega ofurlítið upp á móti þeim skaðlegu verkunum, sem áfengissalan hefur bakað þjóðinni. Þessi prósenta, sem hér er sett, að það skuli vera 3%, er auðvitað algert álitamál, og ég skal alveg viðurkenna það, að ég renni þar dálítið blint í sjóinn með því að nefna 3%. En ég tek það fram, að það eiga að vera 3% hið minnsta. Forráðamönnum verzlunarinnar er eftir atvikum sjálfsagt heimilt að verja meira af hagnaðinum í þessu skyni, ef það sýnir sig, að þarna sé um svo litla upphæð að tefla, að hún dugi skammt. Nú, og auðvitað er ég reiðubúinn að taka til athugunar allar breytingar á prósentunni.

Það má kannske spyrja mig, vegna þeirra orða, sem ég lét falla hér í gær, hvers vegna ég hafi þá ekki tekið áfengið með, þar sem ég gerði svona hálfgerðar athugasemdir við það, að þeir menn, sem voru svo áhugasamir að flytja till. varðandi merkingu á tóbaki, skyldu ekki hafa tekið áfengið með. Ég skal bara segja það, að ég hef beygt mig fyrir þeim sjónarmiðum, sem þá komu fram af þeirra hálfu, að það væri eðlilegra að ákvæði þar um, varðandi vín og annað áfengi, væri í sjálfum áfengislögunum og að hliðstæðar varnaðarráðstafanir, eins og gerðar eru eða hafa verið samþykktar um tóbakið, eigi betur heima í áfengislögunum og þar sem þau lög eru til meðferðar nú og verða til meðferðar hér á eftir, þá er tækifæri til þess að koma þar að hliðstæðum ákvæðum eins og í þessi lög varðandi tóbakið. Ég hef ástæðu til að vænta þess, að fyrir því sé nægilegt fylgi í þessari hv. deild að setja hliðstæð ákvæði varðandi merkingu á áfengi, eins og samþykkt hefur verið varðandi sígarettur. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að eins og það mun draga og hlýtur að draga nokkuð a.m.k. úr notkun á vindlingum, að slík auglýsing verður á umbúðum þeirra, þá mundi það vera fallið til þess að hafa töluverð áhrif til varnaðar í sambandi við neyzlu áfengis, ef það væru sett merki á áfengisflöskurnar þar sem væru svipaðar eða hliðstæðar aðvaranir eins og gert er ráð fyrir að setja á vindlinga. Það mundu sjálfsagt einhverjir hugsa sig um, áður en þeir keyptu áfengisflösku og ég tala ekki um neyttu hennar, ef það stæði á flöskunni t.d., að ef þeir drekki úr þessari flösku, þá eigi þeir á hættu að valda sjálfum sér eða öðrum slysi eða eitthvað því um líkt.

Varðandi það, sem sagt var hér í gær, að það væri nú erfiðara að koma við þvílíkri merkingu á áfengi heldur en sígarettum, því áfengistegundirnar væru margar og misjafnlega skaðlegar, þá er þar um það að segja, að sjálfsagt eru nú sígarettutegundirnar margar og misjafnlega hættulegar að ég hygg, en þær verða allar merktar, því að auðvitað eru þær allar eitthvað hættulegar. Með sama hætti hygg ég, að það megi segja um áfengi, að það muni nú vera skoðun viðurkenndra vísindamanna að ofnautn áfengis sé hættuleg og það skipti út af fyrir sig ekki máli, hver víntegundin er, þannig að sjálfsagt mætti merkja þær allar.

En hvað sem öllum merkingum líður þá er vissulega ástæða til — og það tel ég nú enn áhrifaríkara — að setja hliðstæða reglu í áfengislögin varðandi auglýsingar um skaðsemi áfengis og áróður gegn því. Ég álít, að það mundi verða mjög áhrifamikið, ef það væri tekið upp í sambandi við fjölmiðlunartæki að birta þar auglýsingar og áróður gegn áfengi, og Áfengisverzlunin er vitaskuld á engan hátt of góð til þess að verja nokkru af sínum hagnaði í því skyni.

Ég skal ekki tala meira um þennan þátt málsins, því það kemur til athugunar í sambandi við áfengislögin, og jafnvel þó það verði ekki tækifæri til þess að koma að brtt. í þá átt, sem ég hef hér aðeins drepið á, í sambandi við meðferð þeirra hér á eftir, þá verður það þá væntanlega hægt í sambandi við 3. umr. málsins. Eins og ég sagði áður, þá er þessi till. það stutt og auðskilin, að ég vona að hv. þm. geri sér alveg grein fyrir efni hennar, en auðvitað hef ég síður en svo á móti því, að málinu sé frestað, ef hv. fjhn. vildi taka hana eitthvað til athugunar. Ég vildi leyfa mér að afhenda forseta þessa till.