06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú aldrei verið neinn unnandi tóbaks og reyki jafnvel ekki pípu, án þess að ég sé nú að víkja að mínum ágæta vini, 3. þm. Norðurl. v., með það, hvað vera kann hollasta tóbaksnotkunin, ef hægt væri að kalla nokkra tóbaksnotkun holla. En engu að síður, þá neyðist ég nú til að verja mitt ágæta fyrirtæki, sem heitir Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, og vona ég að enginn ásaki mig svo mjög fyrir það, því það má segja að það sé vegið tvisvar í sama knérunn, í fyrsta lagi með því að samþykkja það að vara alla viðskiptavini fyrirtækisins við því, að þeir geti fengið hina ægilegustu sjúkdóma ef þeir kaupi vörur fyrirtækisins, en ekki nóg með það, heldur flytur hv. 3. þm. Norðurl. v. till. um það, að í ofanálag skuli þessi verzlun verja mjög verulegum fjárhæðum á hverju ári til þess beinlínis að sannfæra fólk um það með enn róttækari og víðtækari hætti, að það sé hin mesta fásinna að nota þessa vöru. Ég get ekki að því gert, að mér finnst nokkuð langt gengið með þessari seinni till. Ég greiddi sjálfur atkv. með fyrri till. um það að merkja vörur tóbakseinkasölunnar og vekja athygli á því, hve skaðvænlegar þær væru, og mér finnst satt að segja, að með því móti hafi tóbakseinkasalan lagt fram sinn skerf til þess að vinna gegn sjálfri sér, ef svo má segja.

Það hefur hins vegar ekki haft fylgi hér í hv. d. og ekki í hv. Alþ., sem mér finnst þó nokkuð undarlegt, að banna tóbaksauglýsingar, vegna þess að mér skilst, að blöðin megi ekki missa af þeim tekjum, sem af því leiða, en hins vegar á móti skal tóbaks- og áfengisverzlunin leggja fram nokkrar millj. kr. á ári til þess að auglýsa á móti þessum auglýsingum blaðanna.

Ég þarf ekki mörg orð um þetta að hafa. Ég get ekki. fallizt á þessa till., og ég vænti þess að hv. þm. skilji afstöðu mína í því. Hér er hvað sem efni málsins líður um að ræða fjárveitingu, sem ákveðin er af hálfu Alþ., eftir að fjárlög eru afgreidd, þ.e.a.s. tekinn er ákveðinn tekjustofn, sem reiknað er með í fjárlögum. Það má vænta þess, að aðvaranirnar á pökkunum hafi einhver áhrif þannig að það dragi töluvert úr sölu á vindlingum, þannig að þar með hafi út af fyrir sig þegar verið nokkuð aðhafzt í þá átt að draga úr sölu verzlunarinnar, en ég verð að gefa þá yfirlýsingu hér, að ég get með engu móti fallizt á þessa síðari till. hv. þm. og þykir mér það að vissu leyti leitt, því ég veit að það vakir ekki annað en gott fyrir honum með sínum málflutningi, en ég vona þá jafnframt að hann skilji samt engu að síður mína aðstöðu, að eins og sakir standa á miðju fjárlagaári, þá get ég ekki fallizt á ráðstöfun sem þessa. Auk þess eins og ég sagði, mér finnst það orka mjög tvímælis, hvers er hægt að ætlast til í þessu efni, þegar búið er að vara fólk dyggilega við því, sem kostar líka verulegt fé að taka upp þessar merkingar, að nota ekki vörur verzlunarinnar, að í ofanálag skuli hún eiga að verja nokkrum millj. kr. í þessu skyni.

Ég skal ekkert segja um það, hver verður endanleg niðurstaða um baráttu gegn notkun tóbaks, og vel kann það að vera, að maður geti hugsað sér að vera með aðflutningsbanni bæði á tóbaki og áfengi, ef það væri skoðun manna að slíkt hefði mikla þýðingu. Ég er í miklum vafa um það að vísu, að það hefði raunhæft gildi að gera slíkt. Ég get líka vel hugsað mér það að styðja slíkar ráðstafanir sem felast í þeim till., sem þegar hafa komið fram á þinginu, um það að taka upp aukna fræðslu um skaðsemi áfengis. Vel kann að vera, að það kosti einhverja peninga, sem ríkið þurfi að leggja fram í því skyni. Það mál á allt eftir að skoða, og ég tel eðlilegt að það skoðist í sambandi við þá till.

Herra forseti. Ég mátti til með að nota tækifærið til þess að gera það lýðum ljóst, ef svo má segja, að mér er ómögulega auðið að fallast á, að sú breyting verði gerð á frv. að taka af ríkissjóði þær tekjur, sem hér er gert ráð fyrir að gera með umræddri till. hv. 3. þm. Norðurl. v.