06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Mér þykir einkar vænt um að sjá, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur á svo skömmum tíma sem síðan við umræðuna í gær snúizt að nokkru leyti frá villu síns vegar. Þar sem hann er nýliði með hinum góða málstað, er þó varla annars að vænta en að honum fipist svolítið á göngunni. Í fyrsta lagi ber till. hans það með sér, að hann hefur ekki alveg áttað sig á því, um hvað er að ræða, því hann talar um auglýsingar um skaðsemi sígarettureykinga og annarrar tóbaksnotkunar. Það sem er um að ræða hér, er áhlaup gegn sígarettureykingum, en ef við ætlum að fara að berjast á móti öllu, sem kann að vera skaðlegt á einhverju sviði, samtímis og með sömu vopnunum, þá stöndum við alveg í stað. Þetta er það sem hann þarf að átta sig á og sem hans ágæti flokksbróðir var að nokkru leyti að benda honum á í ræðu við 2. umr. þessa máls, þegar farið var inn á áfengismálin í þessu sambandi. Ég tek alveg undir það með hv. 11. þm. Reykv., að geti hv. þm. sýnt mér fram á, að eitthvert sérstakt form af áfengum drykkjum sé verra heldur en annað, þá skal ég svo sannarlega reyna að drekka bæði sjálfur það skárra og fá aðra í lið með mér til þess. Ég er líklega öllu fróðari í áfengismálunum heldur en hv. þm., því að frá veru minni í Frakklandi minnist ég þess, að þar heyrði ég um að einmitt var tekin upp svona barátta gegn þeirri áfengistegund, sem var kölluð absint og var unnið með ýmsum ráðum gegn því að fólkið væri að setja þá ólyfjan í sig, en þar í landi eru vín yfirleitt talin mjög holl önnur en þetta. Ég gæti þess vegna alls ekki fallizt á að orðin „og annarrar tóbaksnotkunar“ eigi þarna heima. Eins er ég sammála hæstv. ráðh. um það, að það þýðir náttúrlega ekki, þegar komið er fram undir mitt ár, að ætla að fara að kippa grundvellinum undan skattheimtunni og setja nýjar verulegar kvaðir á þessa verzlun, eftir að búið er að áætla þá fjárhæð, sem hún á að setja í ríkiskassann.

Og enn eitt þarf ég að leiðrétta hjá hv. þm. Hann heldur að það sé auðveldara og réttlátara að taka þennan skatt af Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins heldur en að láta fjölmiðlunartækin sjálf innheimta hann. Ég benti einmitt á það í framsögu fyrir till. minni í gær, að það stendur alls ekki til að fjölmiðlunartækin, hvort sem þau heita dagblað eða kvikmyndahús eða annað, eigi að borga þetta. Nei, það eru tóbakskóngarnir, sem eiga að borga kostnaðinn. Það sem skeður er einfaldlega það, að það verður sett prósenta ofan á reikninginn til þeirra umfram aðra auglýsingareikninga; þeir eru nógu ríkir til að borga þá og ekki of góðir til þess.