09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú kannske svolítið erfið aðstaða fyrir mig að eiga að fara að standa hér upp vegna skoðana minna yfirleitt á tóbaki og áfengi og fara að verja það, að ekki sé haldið uppi aðvörunum gegn áfengi eins og tóbaki. Sannleikurinn er sá, að það er skoðun út af fyrir sig og sem einnig kom fram í hv. Ed., að einhverjir vörpuðu því þar fram, að áfengi væri nú jafnvel ennþá hættulegra en tóbak, og um þetta virðast menn nú jafnvel vera farnir að deila. Mætir menn segja og mjög merkur maður, sem ég veit að allir hv. þdm. þekkja hér og átti hér einu sinni sæti, sagði einu sinni við mig, að reykingar væru eitur, menn ættu bara að drekka þess meira. Nú er ég ekki að gera það að mínum orðum, en skoðun manna var sú, að ástæðan til þess, að merking væri rétt í þessu tilfelli, var sú, að það væru vissar tegundir af tóbaki, sem hefðu sérstaka hættu í för með sér, þ.e.a.s. í þessu tilfelli vindlingar, en hins vegar væri dálítið erfitt að gera það upp við sig hvaða áfengistegund væri hættulegust, burt séð frá þeirri skoðun, eins og ég sagði, að sumir héldu fram, að þær væru nú talsvert margar hollar, en það eru ekki mín orð. En formlega séð vil ég vekja athygli á því líka í þessu sambandi, að um áfengi gilda sérstök lög, áfengislög, sem fjalla um ráðstafanir til þess að vinna gegn útbreiðslu áfengis eða setja ákveðnar reglur um veitingar á því, og það voru allir sammála um það, að ef kæmi til slíkra merkinga, þá ættu þær heima í áfengislögunum en ekki í þessari löggjöf. Hins vegar er engin hliðstæð löggjöf til um tóbak, þannig að ef menn vildu koma fram einhverri speki varðandi það, þá yrði það að gerast í þessum lögum. Það væri ekki til annað lagaform fyrir því. Þetta er nú ástæðan fyrir því, að ekki var sett inn í þetta frv. ákvæði um það, að það ætti að merkja áfengi. Varðandi hina fsp., sem hv. þm. kom með, hvort ætlunin væri að lækka verð á smávindlum og hækka vindlingaverð, eða hvaða verðbreytingar sem sagt yrðu við þessa stækkun á millibili verðlags milli vindlinga og smávindla, þá hef ég ekki annað að segja um það en það verður reynt að sjá til þess að það gefi sömu tekjur, þannig að ef á að verða einhver breyting í þessa átt, verður það aðeins matsatriði í hvora áttina verður farið, þannig að öruggt sé að tekjurnar ekki lækki. Upphaflega till. í Ed. var um það, að það skyldi verða þrefaldur munur á þessu, en það sýndi sig, að þá yrðu sígarettur svo háar í verði og þær þykja víst æði dýrar nú, að ég benti flm. á, að það væri víðsfjarri, að það væri hægt að setja slík ákvæði í lög. Þá breyttu hv. flm. sinni tillögu þannig, að verðmunur yrði þá hafður eins mikill og hægt væri við að koma, þannig að það kannske segir ekki ákaflega mikið, en stefnir þó í þessa átt að hafa þarna mun á. Nú þegar er töluverður verðálagningarmunur á þessu, líklega um 70–80%, sem álagningin á vindlinga er hærri heldur en á smávindla og álagning á vindla, stórvindla er langlægst. Nú veit ég ekki hvort menn telja þá vera sérstaklega holla, ég skal ekki segja um það, en álagningin á þessa vöru hefur nú ekki verið eingöngu frá þessu sjónarmiði, heldur út frá því sjónarmiði hvernig hún væri seljanlegust.

Ég veit ekki hvort hv. þm. er þetta nægilegt svar, en ég hef ekki annað svar á takteinum en það, að það verður reynt að hafa þarna, eins og lögin mæla fyrir, eins mikinn verðmun og tök eru á, án þess að stefna stórlega í hættu sölu á hvorri vörutegundinni fyrir sig.