17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

116. mál, skólakostnaður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það gladdi mig mjög, þegar hæstv. menntmrh. lýsti því yfir áðan, að ef þessi breyting yrði gerð á skólakostnaðarlögunum, sem hér liggur fyrir, þýddi það það, að hægt yrði að veita á þessum fjárlögum fjárveitingar til allra þeirra skóla, sem rökstuðningur væri fyrir að hefja framkvæmdir nú þegar á. Og ég geri nú ráð fyrir því, að þessi yfirlýsing hafi glatt fleiri en mig. Ég er anzi hræddur um a.m.k. — ég veit þó ekki, hvernig þessar tillögur verða, sem koma frá fjvn., en ég er nú anzi hræddur um, að þær verði ekki alveg í samræmi við þessa yfirlýsingu, en ég ætla nú að geyma það að ræða það að öðru leyti, þangað til að fjárlög koma hér fram. En ég vil bara í þessu sambandi minna á það, að ég fór til hæstv. menntmrh. með skólanefndarmönnum norðan úr Eyjafirði og ég veit ekki annað en að það sé fullur rökstuðningur fyrir, að sá skóli verði byggður og að það séu þar til fjármunir heima fyrir. Eftir þessu þarf ég víst ekki að vera kvíðinn um þann skóla.

Hann gat um það, að það hefði ekki staðið á ríkinu í sambandi við það, að ríkið stæði við sínar skuldbindingar í sambandi við skyldufræðsluna í héruðunum. Ég verð nú bara að spyrja um það, hvernig á að framkvæma skyldunámið, þar sem ekkert skólahús er til til þess að kenna i, eða veit ekki ráðherrann um það, hvernig er víða í hinum dreifðu byggðum? Norður í Eyjafirði þá var í raun og veru sá skóli, sem við áttum, hann var tekinn af okkur með lögum, þ.e.a.s. að fyrstu bekkirnir af Menntaskólanum á Akureyri voru lagðir niður, þar með voru Eyfirðingar skólalausir. Við höfum staðið í stríði með að fá fjármuni frá ríkinu til að byggja, og það var gengið það langt á síðasta ári, að skólanefndin og oddvitarnir í mínu héraði óskuðu eftir leyfinu og ætluðu að leggja sjálfir fjármunina til, en þeir fengu ekki leyfið, þeir fengu ekki leyfið.

Ég er dálítið hissa á þessum umræðum hjá hæstv. menntmrh., en ég ætla ekki að þreyta ykkur á löngum umræðum núna. Þessi mál verða rædd betur, þegar að fjárlög verða rædd hér til 3. umr., enda liggur þá málið ljóst fyrir.