12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

248. mál, vinnumiðlun

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í febrúarmánuði s.l. skipaði félmrh. nefnd fjögurra manna til þess að endurskoða gildandi lög um vinnumiðlun, sem sett voru árið 1956. Í þessari nefnd voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga og svo að auki var ráðuneytisstjóri félmrn., sem var formaður nefndarinnar. Það er þessi nefnd, sem hefur skilað frá sér því frv., sem hér liggur fyrir til umr., en nefndin tekur þó fram, að henni hafi ekki unnizt tími til að ljúka heildarendurskoðun á lögum um vinnumiðlun, og því verði að líta á þetta frv. sem bráðabirgðabreytingar, sem séu þó nauðsynlegar.

Meginhlutverk vinnumiðlunar er auðvitað að annast atvinnuleysisskráningu, og á atvinnuleysistímanum í vetur reyndi auðvitað allmiklu meira á þessa starfsemi heldur en áður, og þá komu ýmsir annmarkar í ljós á lögunum, sem ekki hafði eins reynt á fyrr, þegar, sem betur fer, var lítið um atvinnuleysi og lítið um slíkar skráningar. Þess vegna telur nefndin nauðsynlegt nú að gera breytingar á þessum lögum, þó að heildarendurskoðun verði að bíða.

Ég skal ekki fjölyrða hér um efni þessara breytinga, þær eru ekki stórvægilegar, en vísa um það efni til frv. og grg. með því, þar sem þetta er glögglega útskýrt. Frv. var vísað til heilbr.- og félmn. og varð nefndin sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþykkt.