16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

248. mál, vinnumiðlun

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um vinnumiðlun, sem hér er komið til umr., er komið frá hv. Ed. og hefur hlotið þar fullnaðarafgreiðslu. Frv. þetta er systurfrv. við frv., sem er næst á dagskránni um atvinnuleysistryggingar og fjallar að meginefni til um framkvæmdaatriði þessara mikilvægu löggjafa beggja, og tel ég ekki ástæðu til þess að eyða tíma þingsins í að lýsa í einstökum atriðum þessu frv. Þau eru mjög tæknilegs eðlis og hefur verið lögð í það mikil vinna af hálfu fjögurra manna nefndar, sem frá er greint í aths. við frv. og undirbjó þessi frv. bæði til þess að auðvelda framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun. Vænti ég þess, að hv. d. hraði afgreiðslu þessara mála. Á því er brýn nauðsyn. Það er óþarft að rekja það, að á síðustu tveimur árum hefur mikið reynt á framkvæmd þessara laga og margir agnúar hafa komið fram, sem áður var ekki vitað um, þar sem ekki hafði á þau reynt. En svo sem allir vita hefur vegna vaxandi atvinnuleysis á þessum tveimur árum mjög þurft til þessara lagaákvæða að grípa, og hirði ég ekki um, nema sérstakt tilefni gefist til. að fara út í einstök atriði málsins. Ég vænti þess, að hv. d. afgreiði frv., þó að áliðið hafi verið þings, þegar það kom fram, en því var útbýtt í þinginu strax og nefndin hafði lokið störfum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.