17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vildi ekki láta fundarhléið byrja án þess að taka það fram, að með ummælum mínum um þessa ráðagerð Jónasar Jónssonar, þá ákvörðun hans að loka Menntaskólanum, var ég að sjálfsögðu alls ekki að ræða störf hans almennt sem menntmrh. og enn þá síður að kasta nokkurri rýrð á þau störf, sem ég hef miklar mætur á og ber mikla virðingu fyrir. Ástæðan til þess, að ég nefndi þetta, var eingöngu sú, að það var verið að ræða um lokun skóla og tala um það, að undir minni stjórn hefðu verið gerðar ráðstafanir, sem jafngiltu því, að skólum hefði verið lokað. Því var ég að andmæla og lýsti yfir þeirri eindreginni stefnu minni, að á það mundi ég aldrei fallast. Þetta hefur verið gert aðeins einu sinni í íslenzkri skólasögu og þá var það ráðh. Framsfl., sem það gerði. Þetta taldi ég mig mega benda á, án þess að í því ætti að felast nokkur áfellisdómur um þennan merka fyrirrennara minn í starfi. Það var gert af gefnu tilefni og eingöngu á alveg takmörkuðu sviði.

Hitt er svo misskilningur hjá hv. þm., að þessi ráðstöfun hafi ekki orðið til þess að takmarka stúdentafjölda í landinu. Þó að nýr menntaskóli hafi verið kominn tveimur árum áður en þessi lokun á Menntaskólanum í Reykjavík var gerð, þá hefði hún orðið til stórkostlegrar minnkunar á stúdentafjölda í landinu, ef Reykjavíkurborg hefði ekki gripið í taumana og stofnað annan skóla, sem kom í stað menntaskólans og varð fljótlega stærri heldur en gagnfræðadeildin í Menntaskólanum. Ef Reykjavíkurborg hefði ekki sýnt framsýni og frjálslyndi í þessu máli, þá hefði ráðstöfun ráðh. tvímælalaust orðið til þess að draga stórlega úr stúdentafjölda í landinu. Um þetta þarf ég ekki fleira að segja.

En hitt vildi ég segja hv. þm., að hann var mjög óheppinn, þegar hann las upp úr mínu ágæta flokksblaði, Alþýðumanninum, úr forystugrein, þar sem lýst er mjög brýnni þörf á nýjum skólabyggingum í því kjördæmi, sem um var rætt, Norðurlandskjördæmi eystra. Við ýmsa af þeim skólum, sem voru nefndir í greininni, er verið að vinna, og þeir fá myndarlegar áframhaldsfjárveitingar. En það merkilega er, að það hefur komið í ljós við tillögugerð fjvn., að í engu kjördæmi í landinu verða gerðar tillögur um eins miklar nýbyggingar og einmitt í Norðurl. e. Það verður gert ráð fyrir, að byrjað verði á þremur nýjum skólum, einmitt þeim skólum, sem það ágæta blað, Alþýðumaðurinn, var að benda á, að þörf væri á. Það verður byrjað á næsta ári á byggingu Stóru-Tjarnaskóla, Ljósavatnsskóla og Hrafnagilsskóla, svo að ég vona, að Alþýðumaðurinn megi mjög vel við una, og ég vona, að hv. þm. megi vel við una og mér hefur verið sérstök ánægja af því að eiga minn þátt í því að verða við óskum íbúa Norðurl. e. um þrjár nýjar skólabyggingar á næsta ári í því kjördæmi.