09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

248. mál, vinnumiðlun

Félmrh. (Eggert G. Þorsteínsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í gær við umræðu um frv. um breyt. á l. um vinnumiðlun, þá var hér eitt systurfrv. með því, og ókomið var fram þá það frv., sem hér liggur nú fyrir til umræðu, sem eru bráðabirgðatillögur nefndar þeirrar, sem vinnur að endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð, um breytingu á þeim lögum, sem gilt hafa frá 1956. Sama gildir um þetta frv. og frv., sem lagt var fram hér í d. í gær um vinnumiðlun, að í ljós hafa komið ýmsir ágallar á framkvæmd þessara laga við það vaxandi atvinnuleysi, sem verið hefur undanfarandi 2 ár og því þótt nauðsyn á og var um það samkomulag milli samningsaðila á vinnumarkaðinum, að nauðsyn væri að breyta þessum lögum til þess að sníða þar af þá agnúa, sem á þeim hafa reynzt vera við þessa framkvæmd.

Frv. það til l. um breyt. á l. nr. 29 frá 7. apríl 1956 um atvinnuleysistryggingar, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl. um breyt. á sömu l., sem út voru gefin 31. des. 1968. Staðfesting á brbl. er þó með þeim hætti, að ákvæði þeirra eru felld inn í þetta frv., og eins og ég gat um í gær þá óskaði ég við þessa 1. umr. þeirra, að frv. yrði látið bíða, þar til frekari till. lægju fyrir, en eins og ég sagði hafa þær breytingar verið felldar inn í þetta frv., auk annarra breytinga, sem nánari grein skal nú gerð fyrir. Í samræmi við það er lagt til í 11. gr. frv., að brbl. nr. 8l frá 1968 verði felld úr gildi. Frv. hefur að geyma ýmis ákveðin tæknileg atriði í sambandi við framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar, sem of langt mál yrði að fara út í hér. Um þessi efni vísast til aths., sem frv. fylgja við einstakar greinar. Ég mun nú drepa nokkuð á ýmis nýmæli, sem frv. þetta hefur að geyma.

Lagt er til, að skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu eða í skólaleyfum, fái rétt til bóta, ef það hefur á s.l. 12 mán. stundað vinnu a. m. k. 3 mán. og skólanám í sex mán.

Með brbl. var ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegum veittur réttur til bóta vegna atvinnuleysis, ef þeir uppfylltu önnur skilyrði laganna. Gert var ráð fyrir, að sú löggjöf gilti framvegis. Rétt þótti að setja nánari ákvæði um þessa bótaþega þess efnis, að þeir gætu því aðeins öðlazt bótarétt að loknu fyrsta bótatímabili, að þeir gætu sannað með læknisvottorði, að þeir væru þá færir til almennrar vinnu. Kveðið er skýrt á um það í 2. málsgr. 2. gr. frv., að skilyrði til þess að öðlast bótarétt verði því aðeins uppfyllt, að umsækjandi láti skrá sig vikulega samkv. l. um vinnumiðlun. Í þessari málsgr. er gert ráð fyrir viðurlögum um missi bótaréttar, sem nánar er greint frá, ef út af bregður með skráningu og því ennfremur slegið föstu, að óheimilt sé að greiða bætur fyrir atvinnuleysistímabil, sem ekki hefur verið skráð hjá vinnumiðlun lögum samkv. Þó að ákvæði þessu líkt hafi ekki verið í lögum, gefur þó auga leið, að bætur má ekki greiða, nema skilyrði fyrir bótum séu sönnuð með vottorði frá vinnumiðlun.

Í 3. gr. brbl. nr. 81 frá 1968 var f-liður felldur niður, en samkv. honum skyldi sá ekki fá greiddar bætur, sem á s.l. 6 mánuðum hefði haft tekjur, sem fóru fram úr 75% af meðalárstekjum aldraðra verkamanna eða verkakvenna, ef um konur var að ræða, í heimabyggð þeirra s.l. ár. Samkv. núgildandi lögum geta menn þá því öðlazt bótarétt strax að fullnægðum biðtímaákvæðum, t.d. eftir 9 daga samfellt algjört atvinnuleysi, þó þeir hafi haft háar tekjur allt fram að þeim tíma, er þeir urðu atvinnulausir.

Varhugavert þykir að fella með öllu niður tekjuviðmiðun í þessu sambandi. Í þessu frv. er því gert ráð fyrir því, að þegar um er að ræða maka, sem er í fastri vinnu og hefur á s.l. 12 mán. haft og hefur haft góðar tekjur, eða sem svarar tvöföldum dagvinnutaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, þá er að sjálfsögðu lagt til, að bætur verði ekki greiddar hinum makanum, þó að hann annars fullnægi skilyrðum til þess að öðlast bætur. Einnig er í frv. lagt til, að bætur greiðist ekki þeim, sem stundar vinnu í eigin þágu, sem hann hefur beinar tekjur af, eftir að hann hefur orðið atvinnulaus, þ.e.a.s. eftir að hann hefur misst vinnu hjá vinnuveitanda, sem hann hefur fengið greidda með venjulegum töxtum. Það virðist óeðlilegt að greiða manni bætur, sem hefur orðið atvinnulaus, en vinnur á meðan honum ekki býðst launuð vinna t.d. í bifreiðageymslu sinni að viðgerð bifreiða, sem hann fær beinar tekjur fyrir. Öðru máli gegnir, ef umsækjandi vinnur aðeins að viðhaldi íbúðar sinnar, svo dæmi sé nefnt. Reynslan verður að skera úr því, hvaða mörk er eðlilegt að setja í þessu efni.

Þá hefur þótt rétt að setja í lögin ákvæði um það, að sá, sem hefur orðið uppvís að því að reyna að afla sér bóta með því að gefa vísvitandi rangar upplýsingar um hagi sína, missir bótarétt og í því sambandi er lagt til í frv., að fyrir fyrsta slíkt brot skuli bótamissir nema 2 mánuðum, annað brot 2 árum, þriðja brot fyrir fullt og allt. Samkv. núg. lögum missir sá bótarétt, sem á sjálfur sök á því, að hann hefur orðið atvinnulaus, svo sem vegna drykkjuskaparóreglu, ef drykkjuskaparóreglu er um að kenna. Engin ákvæði eru í lögum um það, hvort þessi bótaréttarmissir skuli gilda fyrir fullt og allt. Í frv. er því lagt til, að þegar svo stendur á, þá skuli bætur falla niður í 30 daga virka. Missi maður oftar rétt til bóta samkv. þessum staflið, öðlast hann ekki bótarétt að nýju nema hann sanni með vottorði vinnumiðlunar, að hann hafi stundað vinnu samfellt í 30 daga virka, eftir að hann fyrirgerði bótarétti sínum.

Bótafjárhæðir eru í aðalatriðum hinar sömu og lögfestar voru með brbl. frá 31. des. 1968. Í frv. er þó gert ráð fyrir nokkrum breytingum á þessum málum. Ef um hjón er að ræða, sem bæði eiga bótarétt, er lagt til að bætur greiðist til þeirra hvors um sig eins og einstaklingi, en bætur verði þá ekki greiddar með börnum hjónanna.

Þá er lagt til að enginn geti fengið hærri dagpeninga en sem svarar 75% af meðaltekjum hans á s.l. 12 mánuðum áður en hann varð atvinnulaus. Ákvæði líkt þessu var numið úr gildi með brbl., en þá voru bætur atvinnuleysistrygginganna hinar sömu og slysabætur. Nú þótti ekki fært annað en að taka upp viðmiðun á svipaðan hátt og áður gilti eins og nú var að vikið. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að enginn geti fengið hærri dagpeninga en sem svarar 75% af meðaltekjum hans á síðustu 12 mánuðum, áður en hann varð atvinnulaus. Ef launþegi hefur á síðustu 12 mánuðum t.d. haft 120000 kr. heildaratvinnutekjur og reiknað er með 300 vinnudögum á þessu tímabili, verða meðaltekjur hans 400 kr. Bætur til hans geta því ekki orðið hærri en sem svarar 75% af þeirri fjárhæð, eða 300 kr. á dag. Þessi fjárhæð er nokkuð lægri heldur en hámarksupphæð sú, sem lögin gera ráð fyrir, en samkvæmt þeim eru hámarksbæturnar 3SS kr. á dag.

Í brbl. var gert ráð fyrir því, að grunnupphæðir bóta breyttust sjálfkrafa með breytingum á grunnkaupi samkv. 2. taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík. Þetta ákvæði var fellt niður í þessu frv., hins vegar er lagt til, eins og raunar var í brbl., að verðlagsuppbætur á bætur verði greiddar hinar sömu og á grunnkaup Dagsbrúnartaxta. Í sambandi við bótaákvæði vil ég benda á það, að með frv. er lagt til, að ef umsækjandi hefur haft 1/2 dags vinnu, þá skuli bætur til hans nema 1/2 bótum samkvæmt lögunum. Samkvæmt núgildandi lögum er engin slík takmörkun til, bæturnar eru annað hvort fullar bætur eða engar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja nánar efni þessa frv. Hér er í raun og veru um að ræða bráðabirgðabreytingu á þessum lögum, þar eð nefndinni, sem falið var að endurskoða lögin, vannst ekki tími til að ljúka endurskoðun sinni til fullnustu. Reynslan kann því að sýna, að fyrr eða síðar þurfi e.t.v. að breyta ýmsum ákvæðum frv., enda mun áfram unnið að endurskoðuninni. Einnig mun þurfa að gera ráð fyrir því, að í frv. verði að setja ákvæði, sem ekki eru þar enn, en allt kemur þetta nánar í ljós þegar nefndin hefur endanlega lokið störfum sínum, sem hún væntir að verði sem fyrst. Ég legg áherzlu á það nú, eins og í framsöguræðu minni um vinnumiðlun, að þessi frv. fái að fylgjast að og nefndin hraði svo afgreiðslu þessara mála sem kostur er, þannig að takist að afgreiða þessi frv., sem varla ætti að verða mikill ágreiningur um, fyrir þinglok.

Ég legg til. herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.