17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

248. mál, vinnumiðlun

Frsm. mínni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á örstuttum fundi í gær í heilbr.- og félmn. þessarar deildar var þetta frv. tekið til athugunar. Á fundi þessum voru staddir hæstv. félmrh. og enn fremur Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem er formaður n., sem skipuð var í byrjun þessa árs, eða í febrúarmánuði að mig minnir, til þess að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun. Á þessum stutta fundi var nokkuð rætt um það frv., sem hér er til meðferðar, og ég hygg, að það hafi verið samdóma álit aliflestra nm., sem þar voru staddir, að það eina, sem réttlætti það að n. mælti með þessu frv. og samþykkti það, væri það, að í gildi væru brbl., sem hæstv. félmrh. hafði sett skömmu eftir að þm. fóru í jólaleyfi, en menn voru almennt sammála um það í n., að þau brbl. væru það meingölluð, að þau mættu ekki standa deginum lengur. Það er þetta, sem ræður því að mínu viti, að frv. þetta hafði meirihlutastuðning í nefndinni.

Ég hafði ekki ætlað mér, þó að ég lýsti andstöðu við frv. á nefndarfundinum í gær, að gefa út minnihluta nál. í sambandi við þetta frv. og raunar ekki taka til máls um sjálft frv., þegar það kæmi til umræðu. En það, sem gerir það að verkum, að ég vil aðeins segja nokkur orð um það nú, er ræða sú, sem flutt var í útvarpsumræðunum í gær af hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, þar sem hann var að tala um þá einstöku heppni launþega í landinu, að Alþýðuflokksmaður — held ég að hann hafi sagt: með hjartað á réttum stað hefði setið í sæti félmrh. og hefði þess vegna getað sett brbl. upp á sitt eindæmi í jólaleyfinu, sem hefðu mjög rétt hlut launþega í landinu, en ýmsum íhaldssömum mönnum, eins og hann orðaði það hefði verið ákaflega illa við.

Ég vil vekja athygli á þessum ummælum og enn fremur því, að það er nú hinn sami hæstv. félmrh., sem ekki hvað sízt beitir sér nú fyrir því, að þetta frv., sem hér er verið að ræða, verði samþykkt, en megintilgangur þessa frv. er, eins og ég sagði áðan, sá að afnema þau brbl., sem hæstv. ráðh. — með hjartað á rétta staðnum — setti í jólaleyfinu. Mér finnst, að svona vinnubrögð eigi ekki að liggja í láginni og þeir, sem viðhafa svona vinnubrögð, eigi að þola það réttilega, að á þeim sé vakin eftirtekt.

Í n. var meiri hl. fyrir því að leggja til. að gerð yrði ein breyting á efni frv., þ.e.a.s. að fella niður það ákvæði í b-lið 2. gr. frv., að nemendur í skólaleyfum, sem ekki geta fengið sumaratvinnu, geti notið atvinnuleysisbóta að uppfylltum vissum skilyrðum, sem frv. tilgreinir nánar, hver eru. Ég tel miðað við þær aðstæður, sem ríkjandi eru, ósanngjarnt að samþykkja þessa breytingu. Hér á hv. Alþ. hefur að undanförnu verið mjög rætt um það vandamál, sem framhaldsskólanemar eiga nú sérstaklega við að stríða í sambandi við möguleikana á að fá vinnu í sumar, svo að þeir geti haldið áfram námi. Það hefur verið upplýst, að niðurstöður skoðanakannana, sem gerðar hafi verið í skólunum, sýni, að jafnvel fast að helmingur framhaldsskólanema telji sig verða að hætta framhaldsnámi, fái þeir ekki sumaratvinnu. Það hefur enn fremur verið upplýst í umræðum hér á hv. Alþ., að af hálfu ríkisstj. hefur bókstaflega ekkert sérstakt verið gert til þess að bæta úr þessu mikla vandamáli. Hæstv. félmrh. lýsti þeim hugleiðingum hér í ræðu, þegar þessi mál voru til umræðu í Sþ., að verið væri að athuga, hvort hægt væri að koma til hjálpar framhaldsskólanemum þessum með því að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar á þann veg, að framhaldsskólanemar í námi geti notið atvinnuleysisbóta, svo að þeir þurfi ekki að hætta námi þess vegna. Og í frv., sem hann sjálfur leggur fram fyrir hv. Ed. nú fyrir nokkrum dögum eða vikum, þá er þetta ákvæði tekið inn. Nú er meiri hl. fyrir því í hv. heilbr.- og félmn. Nd., þar sem allir nm. að mér einum undanteknum hafa orðið sammála um það að taka þetta ákvæði út, að skólanemar, sem eru í námi og eiga við atvinnuleysi að stríða og standa frammi fyrir því, hvort þeir geti haldið áfram námi eða ekki, skuli ekki geta notið atvinnuleysisbóta í sumar. Það er upplýst, að reiknað er með því, að sú n., sem er að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar, muni skila áliti sínu það tímanlega á þessu ári, að hægt verði að leggja nýtt frv. um atvinnuleysistryggingar fyrir það þing, sem kemur saman í haust. Ég tel, að með hliðsjón af því, að sumaratvinna fyrir framhaldsskólanema er mjög stórt vandamál, þjóðfélagslegt vandamál, sem mikið ríður á, að hægt sé að finna einhverja bráðabirgðalausn á, og enn fremur að miðað við þá staðreynd, að upplýst er, að af hálfu ríkisstj. hefur ekkert verið sérstakt gert til þess að leysa þetta vandamál. og ennfremur með hliðsjón af því að væntanleg er ný löggjöf um atvinnuleysistryggingar í haust eða frv. að nýrri löggjöf um atvinnuleysistryggingar í haust, þá sé eðlilegt og sanngjarnt, að í sumar sé lögum um atvinnuleysistryggingar á þann veg fyrir komið, eins og frv. gerði ráð fyrir, að framhaldsskólanemar geti í sumar notið atvinnuleysisbóta, hvað svo sem verður um framhaldið. Þess vegna hef ég ekki getað orðið samferða félögum mínum í heilbr.- og félmn. um þetta atriði og mun af þeim ástæðum, sem ég hef greint frá, bæði vegna þess hvernig aðdragandi þessa máls er af hálfu hæstv. ráðh. og hvernig meðferð það hefur fengið hér, að enginn tími hefur gefizt til að athuga það, þá mun ég greiða atkv. á móti frv. Ég vil þó taka fram, að þetta er aðeins persónuleg afstaða mín. Mér gafst enginn tími til þess að ræða þetta í þeim þingflokki, sem ég tilheyri, vegna þess, eins og ég gat um í upphafi, að sá fundur í heilbr.- og félmn., sem haldinn var í gær og þetta frv. hafði til athugunar, stóð aðeins í nokkrar mínútur og enginn kostur var þar gefinn á því, að nm. gætu rætt frv. í sínum þingflokki.