17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

248. mál, vinnumiðlun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa enn einu sinni þeirri skoðun minni, að öll meðferð atvinnumála skólafólksins af hendi hæstv. ríkisstj. er óverjandi hneyksli.

Manni skilst, að það sé ætlunin að senda Alþ. heim, slíta því í dag án þess að nokkur skapaður hlutur verði gerður til þess að mæta þeim gífurlega vanda, sem þarna blasir við allra augum. Það er alveg furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli hugsa sér þetta hlutskipti, skuli finnast þetta vera hægt, og ég vil láta í ljós undrun mína og raunar hryggð yfir því, að þessu skuli vera þannig háttað. Auðvitað hefði átt að halda áfram að vinna hér á hv. Alþ. og finna lausn á þessum vanda. Og það er alveg táknrænt fyrir uppgjöfina, sem hv. síðasti ræðumaður réttilega benti á, að þetta frv. skuli nú vera hér til meðferðar með þessum hætti, svo að segja síðustu klukkustundirnar, sem Alþ. er ætlað að starfa.

Þá vil ég fá skýringu á því, hvað átt er við með því, sem nú er ætlunin að lögfesta. Hér stendur: „Skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu eða í skólaleyfum, telst hafa fullnægt ákvæði þessa stafliðs“ þ.e.a.s. hafa rétt til atvinnuleysisbóta, „hafi það á s.l. 12 mánuðum stundað vinnu a.m.k. í þrjá mánuði.“

En svo vill nefndarmeirihl. fella niður orðin „eða í skólaleyfum“, og þá ætti ákvæðið að vera svona og ég bið hv. þm. að taka eftir því:

„Skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu, telst hafa fullnægt ákvæði þessa stafliðs.“

Hver er skilningur n. og hæstv. ráðh. á því, hverjir hafa lokið námi og þar með fengið þennan rétt? Hvað er verið að fara með þessu? Eða á kannske að skilja þetta þannig, að maður, sem hefur lokið stúdentsprófi, hafi rétt til atvinnuleysisstyrks, en maður, sem hefur verið í 4. bekk eða 5. bekk, eigi engan slíkan rétt? Hvers konar endaleysa er þetta, sem verið. er að leggja til? Mundi sá, sem hefur verið í 4. eða 5. bekk menntaskóla, hafa minni þörf á því að fá þessi hlunnindi en sá, sem hefur lokið stúdentsprófi? Væri ekki viðkunnanlegra fyrir hv. meiri hl. n. og hæstv. ráðh. að gera mönnum einhverja grein fyrir því, hvað þeir eru að fara með þessari lagasetningu? Ég hef ekki getað fundið það út úr því, sem enn þá hefur verið sagt. Svo kemur það, sem hv. síðasti ræðumaður benti á, að með þessu ákvæði, eins og það er úr garði gert, mundu þeir einir hafa þennan rétt, sem atvinnu höfðu í fyrrasumar.

Er ætlun hv. Alþ. að ganga frá löggjöf með þessu móti? Verður þetta ekki að skoðast miklu betur? Jafnvel lagasetningin á uppgjafarlínu ríkisstj., sem sé þeirri að gera mikinn hluta af skólafólki landsins að atvinnuleysisstyrkþegum af því að það séu ekki not á Íslandi fyrir vinnuafl þess?

Væri nú ekki myndarlegra að taka alveg nýja stefnu í þessu máli og stjórn og þing tækju sér nokkra vinnudaga í viðbót til þess að skilja ekki við þetta með þeirri skömm, sem hér er ráðgerð af hendi hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Gera sér þá grein fyrir því, að það eru nægileg not fyrir vinnuafl þessa fólks. Það þarf aðeins að veita fé til framkvæmda, og t.d. gæti sú leið óneitanlega komið til greina að veita bæjar- og sveitarfélögum stuðning til þess að koma af stað vinnu fyrir þetta fólk. Þessi málsmeðferð öll er fullkomlega vansæmandi, sem hér er fyrirhuguð.