13.12.1968
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að rekja það í löngu máli fyrir hv. þm., að það mál. sem nú er hér til umr., hefur verið mikið vandamál fyrir þ. um langan tíma. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um, hvernig ætti að hagnýta fiskveiðilandhelgina og hvaða reglur ætti að setja í þeim efnum. Á undanförnum árum hafa hér komið fram ýmsar till. varðandi málið, og lítið hefur orðið ágengt. Ég hygg, að menn hafi verið sammála um það, að um fá mál hafi ríkt jafnmikill ágreiningur í hópi þm. og einmitt um þetta mál. sem snertir sérstaklega heimildir til þess að leyfa frekari togveiðar í fiskveiðilandhelgi en nú eru leyfðar samkv. lögum og reglum. En þó hygg ég, að þm. almennt hafi gert sér grein fyrir því, að það eru ekki tök á því að láta málið liggja eins og það hefur legið, og ég hygg, að sú skoðun hafi þegar myndazt hér á Alþ., sem segja megi, að meiri hl. þm. muni geta staðið að, að þörf sé á því að setja nýjar reglur um nýtingu fiskveiðilandhelginnar.

Á síðasta þ. voru till. hér uppi um það að breyta reglunum viðvíkjandi heimildum um togveiðar í landhelgi, þegar það gerðist seint á þinginu, að sjútvmrh. tilkynnti, að ríkisstj. hefði ákveðið að skipa n. allra þingflokka til að athuga þetta mál og til þess að gera till. um það og reyna að ná samstöðu um það, hvernig mætti leysa það á sem hagkvæmastan hátt. Ég hygg, að mikill meiri hl. þm. hafi í rauninni fagnað því, að slík tilraun væri gerð. Hæstv. sjútvmrh. bað mig sem formann þingflokks Alþb. að hlutast til um, að Alþb. vildi tilnefna mann í þessa n. á seinni hl. síðasta þ., og þingflokkur Alþb. kaus þá mann í n. eftir þessum tilmælum ráðh. Ég vissi, að svipuð tilmæli höfðu komið til annarra flokka varðandi skipun þessarar n. og sjútvn. Nd., sem hafði til meðferðar þær till., sem fyrir þ. lágu varðandi þetta mál, hún hætti í rauninni störfum í sambandi við þær till. með hliðsjón af því, að það lá fyrir, að ríkisstj. hafði ákveðið þá leið að setja sérstaka n., sem tæki að sér þetta mál til rækilegrar athugunar og reyndi að finna hér samkomulagsleið út úr vandanum. Þó að við t. d. í Alþb. hefðum nokkru fyrir þinglok tilnefnt mann af okkar hálfu í þessa n., þá dróst það, að birt yrði nokkuð um skipun þessarar n. Þingtíminn leið, allt sumarið leið og haustið líka, og það var ekki fyrr en nú í þingbyrjun, að tilkynning kom til flokkanna um skipun manna í þessa n. Þetta var býsna einkennilegt af hálfu ríkisstj., sem vissi um þann vanda, sem hér var á ferðum, að haga vinnubrögðum sínum þannig, að þótt hún væri strax nokkru fyrir þinglok í fyrra ákveðin í því að skipa þessa n., þá vannst henni ekki tími til þess að koma n. á laggirnar fyrr en nú í þingbyrjun í haust, en þá fengum við tilkynningu um skipun n., og þá var opinberlega skýrt frá skipun hennar. Formaður þessarar n. var skipaður alþm. Jón Ármann Héðinsson, einn af flokksbræðrum hæstv. sjútvmrh. En honum vannst heldur ekki tími til þess að kalla saman þessa n. fyrr en 31. okt. Það var fyrst 31. okt., sem n. var kölluð saman til fundar.

Þegar nm., sem voru hér úr öllum flokkum á Alþ., tóku að ræða þetta mál. held ég. að það hafi komið þar mjög skýrt fram, að þeir hafi gert sér fyllilega grein fyrir því, að hér var um býsna vandasamt mál að ræða. Málið var virkilega orðið flókið, eins og það hafði verið látið þróast. Og í n. voru menn ábyggilega sammála um það, að það væri vonlaust með öllu að ætla að finna lausn á þessu máli af skyndingu, því að menn vissu, að það var ekki aðeins við þann vanda að glíma, að skoðanir væru mjög skiptar meðal þm. um það, hvernig ætti að taka á málinu, heldur vissu menn einnig, að allir landsmenn voru mjög ósammála um það, hvernig ætti að leysa þetta vandamál. Það var alveg sama, hvort leitað var til íslenzkra fiskiskipstjóra eða íslenzkra útgerðarmanna. Þeir voru mjög ósammála um leiðir. Að maður tali nú ekki um ýmsa aðra menn í landinu, sem látið höfðu uppi skoðanir sínar um það, hvernig ætti að leysa málið. Og vegna þess að þessi landhelgismálanefnd gerði sér grein fyrir því, hvernig vandamálið var, og virtist vera sammála um það að meta það eins, taldi n. alveg óhjákvæmilegt að haga vinnubrögðum sínum þannig, að hvort tveggja yrði reynt, þ. e. að hafa nokkuð náið samband við þm. um þær leiðir, sem n. helzt hugsaði sér að fara til þess að leysa málið, og eins að hafa nokkurt samband við þá aðila í landinu, sem málið snerti mest, þ. e. útgerðarmenn. sjómenn og fiskiskipstjóra.

Þegar þessi landhelgismálanefnd hafði haldið nokkra fundi — líklega eina fimm fundi eða þar um bil. var ekki annað að sjá en nm. þar væru allir sammála um það, hvernig ætti í aðalatriðum að reyna að vinna að því að leysa málið. Það kom ekki fram ágreiningur í n. um vinnubrögð. Og ég tel fyrir mitt leyti, að þarna hafi verið stefnt í rétta átt. N. var búin að koma sér saman um starfstilhögun, við hverja hún ætlaði að tala og hvernig hún gæti komið þessu niður á sem skemmstum tíma. Þannig hafði n. t. d. hugsað sér það, að hún gæti í rauninni gengið frá sínum till. fyrir þingið að nokkru leyti í jólaleyfinu eða í seinni hluta janúarmánaðar, þannig að hægt væri að leggja till. fyrir þingið strax í febrúarbyrjun. Það er auðvitað enginn vafi á því, að í þessum efnum ætlaði n. sér mikinn hraða miðað við allar aðstæður, því að ekki er mikill tími til starfa aflögu síðustu dagana fyrir jól hér á Alþ., eins og allir þm. þekkja. Og n. var þegar byrjuð á því að framkvæma þessa vinnuáætlun sína með tilkynningu bæði til þm., sem hér áttu hlut að máli, og til ýmissa þeirra hagsmunaaðila víðs vegar á landinu, sem málið varðaði mest. Hún var búin að tilkynna þessa starfstilhögun sína og komin þarna allvel áleiðis.

En þá gerist það, að n. fréttir það, að til standi af hálfu dómsmrh. að taka hér upp nýjan hátt á varðandi eftirlit með togveiðum í fiskveiðilandhelgi. Í fyrsta lagi það, að til stæði að gefa þeim, sem brotlegir höfðu reynzt, upp sakir miðað við 1. des. og að upp frá því yrði framfylgt settum reglum með öðrum hætti en áður hafði verið. Það fór auðvitað ekkert á milli mála, að öllum nm. í landhelgismálanefnd var það ljóst, sem ég hygg, að öllum landsmönnum hafi mátt vera ljóst, að verulega breyttir hættir varðandi eftirlit með veiðum í fiskveiðilandhelginni mundu miðað við allar aðstæður leiða til nýrra vandamála í sambandi við þetta mál. Og ég trúi því ekki, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því líka. Hæstv. sjútvmrh. hafði sérstakan fund með öllum fulltrúum í landhelgismálanefndinni nokkru fyrir 1. des. einmitt um þessi nýju viðhorf. Og honum var þá gerð fyllilega grein fyrir því af hálfu nm. úr landhelgismálanefnd, hvað upp mundi koma í þessum efnum. Það gat því ekki verið, að ríkisstj. tæki upp sínar nýju reglur í þessum efnum, sem nú er mjög vitnað til að hafi verið settar allt í einu á, og hún gerði þetta alveg óafvitandi. Ríkisstj. hlaut að vita, hvað hún var að gera í þessum efnum, eins og í rauninni allir landsmenn hlutu að vita, hvað þetta þýddi við þessar aðstæður. En ríkisstj. fór sínu fram, þó að hún væri nýbúin að setja á laggirnar n. til þess að reyna að fjalla um þetta vandamál og reyna að finna leiðir út úr vandamálinu. Þó að hún væri búin að velja þá leið tiltölulega nýlega, stekkur hún til og ákveður aðra leið, sem henni hlaut að vera ljóst, að kæmi algerlega þvert á hina fyrri ákvörðun stjórnarinnar. Og þegar svo þetta allt hafði verið gert, varð mönnum ljóst, að málið var komið í nýjan rembihnút. Þá var talað um það, að annað tveggja mundi gerast á tiltölulega fáum dögum, að margir tugir fiskveiðiskipstjóra yrðu settir í tugthús vegna landhelgisbrota og bátar þeirra allir stöðvaðir eða ríkisstj. yrði að gefast upp á nýjan leik við að halda þessar nýju reglur, sem hún ætlaði sér þó að halda, eða þá í þriðja lagi það, að veiðarnar legðust niður að fullu og öllu — þessar veiðar, sem menn vissu, að höfðu verið í gangi.

Þessar ráðstafanir hafa svo leitt til þess, að nú hafa hlaupið til hér nokkrir menn, m. a. tveir menn úr landhelgismálanefnd, sem hafa komið sér hér saman um ákveðin vinnubrögð í þessu vandasama máli og fleygja hér fram á Alþ. öldungis óundirbúið till. um málið — till., sem er þannig, að hún hlýtur að valda hér miklum deilum. Og ég verð að segja það, að mér sýnist, að sé ætlunin af hálfu ríkisstj. að beita sér fyrir samþykkt á því frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. á þeim fáu dögum, sem eftir eru til jóla, og þeim stutta starfstíma, sem þingið hefur yfir að ráða til þess að fjalla um þetta mál. þá get ég ekki séð annað en ríkisstj. sé að stefna að því alveg vitandi vits að koma í veg fyrir það, að það samkomulag um lausn á þessu máli, sem vel horfði með í landhelgismálanefndinni, geti ekki orðið hvorki innan n. né heldur meðal þeirra aðila, sem hér eiga mest hagsmuna að gæta. Því að varla dettur nokkrum manni það til hugar, sem hefur kynnt sér þetta mál. að þessi bráðabirgðatill., sem hér er til umr. nú, leysi nokkurn vanda — að hún leysi þetta stóra vandamál, sem við höfum hér staðið frammi fyrir.

Það er rétt, að það er hægt að hugsa sér, að samþykkt á þessari till. — sérstaklega ef ráðh. notaði þá heimild, sem hann fengi samkv. till. til þess að setja mjög víðtækar reglur — þurrkaði út þau landhelgisbrot, sem verið hafa aðallega frá einni verstöð í landinu á stuttu tímabili. Það er hægt að hugsa sér það. En það gerir það engan veginn gagnvart öllum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli. Ég býst við því, að hæstv. dómsmrh. hafi t. d. gert sér grein fyrir því, að bátarnir fjórir, sem til sást héðan úr gluggum Landhelgisgæzlunnar við landhelgisbrot, voru að toga utan þessa svæðis. Öllum þeim mörgu togbátum, sem gerðir eru út frá Reykjavík, verður ekki bjargað með þessu. Þeir standa eftir í sama vandanum. Þeir geta farið, eins og bent hefur verið á, 40–50 talsins einhvern daginn og togað á hinum ólöglegu svæðum, jafnvel þó að þessi brbl. yrðu samþ. Þessi vandi verður eftir, vegna þess að n. hugsar sér að reyna að leysa vandamálið allt. En til þess þarf hún nokkurn tíma. En það mun enginn ætla sér að leysa þetta með því að kasta fram lítið hugsaðri till. hér í önnum á Alþ. og búast við því, að slík till. leysi vandann. Hún getur kannske nægt þeim í þessum efnum, sem lítið sjá fram fyrir sína fætur og reka sig svo á vandann strax á eftir, þegar þeir eru nýbúnir að gera eitt glappaskotið.

Það er auðvitað alveg augljóst af þessu, sem ég hef sagt, að hefði ríkisstj. viljað hafa hér meiri hraða á, átti hún auðvitað að standa á allt annan hátt að vinnubrögðum í þessum efnum en hún hefur gert. Hún átti að skipa þá n., sem hún var búin að boða, að skipuð yrði í þessum efnum í þinglokin í fyrra, en gleyma ekki málinu þá — hlaupa frá öllu yfir sumarið og láta allt sumarið líða og haustið án þess að gera nokkuð í málinu. Og hún gat líka látið landhelgismálanefnd byrja a. m. k. heilum mánuði fyrr en hún var kvödd saman til starfa. En það gleymdist líka. Og svo var auðvitað engin nokkur minnsta ástæða til þess að gera þetta mál svo flókið, sem það var orðið, reka það í þann hnút, sem gert var með þeirri ákvörðun, sem tengd yrði 1. des. Það var auðvitað engin ástæða til þess — a. m. k. ekki, ef menn hugsuðu í raun og veru um það, hvernig ætti að leysa þetta mál. Ég vil enn einu sinni undirstrika það, að í landhelgismálanefndinni, sem hefur fjallað um þetta mál, var uppi mjög samhljóða álit um það, hvernig tiltækilegast væri að leysa málið — efnislega líka. Ágreiningur virtist ekki vera um það.

Ég tók eftir því hér í málflutningi 1. flm. þessa frv., að hann ræddi hér talsvert mikið um togveiðar almennt í fiskveiðilandhelginni og hagaði sínu máli þannig, að helzt var að skilja á honum, að hér væri verið að deila um það, hvort yfirleitt ætti að leyfa togveiðar í fiskveiðilandhelginni eða ekki. Ég fyrir mitt leyti er hér ekki uppi með ágreining um það. Mér er það ljóst og hefur verið það ljóst allan tímann, að til þess gæti komið, að við breyttum þeim reglum, sem í gildi hafa verið um togveiðar í fiskveiðilandhelgi, og við gætum tekið upp miklu víðtækari heimildir en gilt hafa. Og eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, býst ég við því, að það sé hægt að fá hér meiri hl. á Alþ. fyrir því að gera togveiðiheimildir innan fiskveiðilandhelginnar miklu rýmri en þær eru nú. En það er bara ekki vandalaust að koma því þannig fyrir, að nokkuð breið samstaða geti orðið um þær reglur, sem í þeim efnum yrðu settar. Og það er ekki vandalaust heldur að setja þær reglur þannig, að þær fái staðizt í framkvæmd, þannig að þeir, sem eiga við þær að búa, þverbrjóti þær ekki. Og þess vegna tekur það nokkurn tíma að koma sér niður á það, hvernig þessar reglur eiga að vera. Það er ábyggilegt, að það er ekki möguleiki fyrir því að fá svo einfaldar reglur settar í þessum efnum, að ákveðið sé að leyfa togveiðar almennt upp að þremur mílum frá ströndinni allt í kringum landið á öllum tímum og fyrir allar fiskiskipastærðir. Það væri auðvitað einfaldasta reglan að ákveða eitthvað slíkt. Svo einfaldar reglur er ekki hægt að fá samþykktar á Alþ. Það er ég viss um. Og þær mundu heldur ekki standast í framkvæmd. En það kann að vera, að það sé hægt að fá hér samkomulag um að heimila togveiðar jafnvel upp að þessum mörkum á sumum stöðum við landið og á vissum tímum á árinu sem þessu nemur. En þá þurfa menn að gera sér grein fyrir því, hvaða svæði er þarna um að ræða og á hvaða tíma þetta væri tiltækilegt.

Ég tók eftir því, að 1. flm. þessa frv. sagði, að þeir, sem að flutningi frv. stæðu, hefðu valið í sambandi við þessa bráðabirgðalausn aðeins þau svæði, sem hér skipta mestu máli í sambandi við togbátaveiðarnar, en skilið hins vegar eftir þau svæði, sem deilur væru um, t. d. bæði fyrir vestan og austan, en ég held, að þeim hafi þá tekizt heldur illa til eða þeir viti lítið um það, um hvað aðaldeilurnar eru, ef þeir halda, að þeir hafi náð til þess með þessum tillöguflutningi. Og ég trúi því varla, að 1. flm. frv. a. m. k. hafi ekki gert sér grein fyrir því, að þetta er á annan veg. Á því er t. d. enginn vafi, að það er Suðurlandssvæðið, svæðið fyrir austan Portland eða Dyrhólaey, þ. e. Meðallandsbugtarsvæðið þar talið með og svæðið þar austur eftir austur undir Hornafjörð, sem er t. d. langsamlega viðkvæmasta svæðið, hvað viðkemur veiðiskap Austfirðinga. Það er miklu viðkvæmara en sjálft veiðisvæðið út af fjörðunum fyrir austan. Það byggist á því, að á vetrarvertíðinni er þetta aðalveiðisvæði Austfirðinga. Einmitt á þetta svæði sækja t. d. Hornfirðingarnir allan sinn afla, og svo að segja öll vetrarútgerð Austfirðinga er einmitt stunduð á þessu svæði.

En í þeim till., sem hér liggja fyrir, er gert ráð fyrir því, að sjútvmrh. fái heimild — ótakmarkaða heimild — til þess að mega heimila togveiðar á þessu svæði upp að þremur mílum frá ströndinni einmitt á viðkvæmasta tíma á árinu — á vetrarvertíðinni. Að því er að Austfirðingum snýr, er því þessi till. þannig, að einmitt það svæði, sem var vandasamast og erfiðast við að eiga vegna hagsmuna Austfirðinga, er tekið inn í þessa till. án þess þó, að það hafi verið nokkur þörf á því vegna togbátaveiða t. d. Vestmanneyinga á þeim tíma, sem þessi heimild á að ná til, því að á þeim tíma sækja bátar t. d. frá Vestmannaeyjum yfirleitt sáralítið austur eftir, nema þeir fái til þess alveg nýja heimild. Þá má búast við því, að þeir auðvitað noti slíka heimild, en þeir hafa ekki treyst sér til þess að ryðjast þar inn á hefðbundin netasvæði bátanna, sem þar eru með netin í sjó fyrir. En samt er þessi till. flutt í þessum búningi, sem þeir vita mætavel, að mætir harðri andstöðu svo að segja allra fiskimanna á Austurlandi.

Þá vil ég segja það einnig, að það verður enginn smáræðisvandi, sem sjútvmrh. er settur í, að eiga að setja reglur um veiðina á þessum svæðum, því að það er auðvitað enginn vafi á því, að það eru uppi mjög skiptar skoðanir þeirra, sem eiga mestra hagsmuna að gæta á þessum nærliggjandi svæðum um það, hvernig veiðireglurnar skuli vera á þessum svæðum. Það er enginn smáræðisvandi, sem hann er settur í, að eiga að setja um þetta reglur. Þó veit ég það, að vandinn yrði kannske ekki mjög mikill. ef hann færi eftir því, sem eru uppi kröfur um frá ýmsum þeim, sem hér ganga harðast fram í að fá auknar togveiðiheimildir t. d. í Vestmannaeyjum, því að þá ætti hann einfaldlega að setja reglur um það að heimila öllum þessum bátum veiðar á öllu þessu svæði upp að þremur mílum frá ströndinni á öllu þessu tímabili. En það er ég hræddur um, að fái illa staðizt í framkvæmd.

En svo er þetta mál hugsað þannig, að nú verði settar af sjútvmrh. reglur um togveiðar fyrir báta — allt að 200 rúmlestir að stærð — á þessu svæði á komandi vetrarvertíð, en jafnframt sé til þess ætlazt, að landhelgismálanefndin, sem skipuð var núna í haust, haldi áfram störfum sínum. Fyrst á sem sé að setja reglur um þessi veiðisvæði, sem fyllilega má þá búast við, að gætu verið allt aðrar reglur en þær, sem landhelgismálanefndin kæmist að raun um, að væru þær hagkvæmustu. Hvernig halda menn, að það gangi að fá samkomulag um breyttar reglur á þessu svæði á eftir, þegar ráðh. væri búinn að setja allt aðrar reglur og menn væru búnir að vinna eftir þeim? Ætli sé ekki hætt við því, að þeir togbátamenn, sem væru búnir að fá á vetrarvertíðinni í vetur miklu meiri rétt til veiða á þessu svæði en landhelgismálanefndin vildi nú fallast á, vildu halda í þennan rétt? Ætli það sé ekki hætt við því, að þeir mundu ýta allfast á bakið á þeim þm. sínum, sem þeir næðu til um það, að það yrði haldið einmitt í þessar ýtrustu reglur þeim til handa? Auðvitað sjá allir það, að setning á svona bráðabirgðareglum vegna svo viðkvæms togstreitumáls, eins og þetta er, spilla vitanlega stórlega fyrir því, að hægt verði að setja um þetta reglur, sem eiga verulegan rétt á sér.

Ég vil líka benda á það, að sú deila, sem nú er tekin upp um þetta mál. er hafin hér, þó að í rauninni sé um tiltölulega skamman tíma að ræða, sem ágreiningur var um. Það er kunnugt, að í desembermánuði stunda þessir togbátar engar veiðar. Þeir eru víst allir hættir, svo að það, sem eftir er af þessu ári, skiptir það ekki miklu máli að setja hér einhverjar bráðabirgðareglur, enda er í rauninni gert ráð fyrir því, að reglurnar gildi ekki nema frá áramótum. En landhelgismálanefndin hafði sett sér þá vinnuáætlun, að hún gæti haft sínar till. tilbúnar í janúarlok eða gæti lagt þær fyrir þingið í byrjun febrúar. Hér er því aðallega um það að ræða, að skyndireglur verði settar fyrir janúarmánuð, en í hinu tilfellinu var að því stefnt, að hægt væri að setja samkomulagstill. snemma í febrúar. Menn meta þá svona miklu meira að reyra málið enn fastar í hnút en það er þegar komið í — þó að um þennan stutta tíma sé að ræða — og jafnvel koma í veg fyrir það, að samkomulag geti orðið um lausn á málinu, og spilla stórkostlega öllum grundvelli aðeins vegna þessa stutta tíma. Þetta sýnist mér ekki vera hyggileg vinnubrögð.

Ég tók eftir því, að hv. 3. þm. Sunnl., 1. flm. frv., nefndi hér ýmsar tölur um aflamagn togbáta nú síðari ár og vildi með því sanna það, að nauðsynlegt væri að rýmka veiðiheimildir þeirra í fiskveiðilandhelginni. Eins og ég hef þegar sagt varðandi mína skoðun á málinu, tel ég deiluna ekki snúast um það, hvort hér eigi að leyfa auknar heimildir eða ekki, heldur fyrst og fremst um hitt, hvernig þessar heimildir skuli vera. En þær tölur, sem hv. þm. nefndi í þessum efnum, sanna harla lítið um það, að það eigi að fara að grípa til þessara bráðabirgðaráðstafana, sem hann leggur hér til Hann nefndi t. d. tölur um mikla veiði togbáta fyrir Norðurlandi sérstaklega á s. l. ári — mjög mikla veiði. En veit þessi hv. þm. það, að mikill meiri hluti af þessum afla togbátanna fyrir Norðurlandi — svo mikill meiri hl. — er alls ekki fenginn á togbáta af þeirri stærð, sem þessi bráðabirgðalausn hans fjallar um. Bráðabirgðalausn hans mundi ekki ná þarna til í svo að segja neinum atriðum.

Það er rétt, að togbátaveiði hefur aukizt mikið nú hin síðari ár m. a. fyrir Norðurlandi, en þar hefur verið um að ræða veiði miklu stærri báta — báta, sem við einmitt í landhelgismálanefndinni höfðum gert okkur fyllilega grein fyrir, að nauðsynlegt væri einnig að setja reglur fyrir um veiðiheimildir. En þessi bráðabirgðalausn, sem hér er verið að leggja til að hafa, nær aðeins til fiskibáta, sem eru undir 200 rúmlestum að stærð. En hitt vitum við, að hér er orðið um stóran fiskiskipaflota að ræða, þar sem skipin eru stærri en 200 rúmlestir, sem stunda togveiðar og eiga stóran hluta einmitt af því aflamagni, sem hér er um að ræða, og þessi hluti bátaflotans fer einmitt mjög vaxandi, því að það er einmitt þessi hluti bátaflotans, sem nú er að koma frá síldveiðum, sem hafa reynzt lélegar, og þessi hluti bátaflotans leitar því eftir möguleikum á öðrum sviðum. En þessi bráðabirgðalausn leysir ekki þennan vanda á neinn hátt. Það er enginn vafi á því, að mjög mikill hluti af því aflamagni, sem fengizt hefur á bátana með togveiðiaðferð, hefur einmitt fengizt á þá báta, sem eru stærri en 200 rúmlestir. Það var því skoðun okkar, að ég hygg allra, í landhelgismálanefndinni, að þær till., sem þyrfti að gera í þessum efnum, yrðu einnig að ná til þessara stærri báta, því að annars yrði málið ekki leyst. Annars stæði maður áfram frammi fyrir sama vandamálinu. Það er rétt, að till., sem um þetta hefðu verið settar fyrir svona 5–6 árum, hefðu getað leitt af sér talsverðan árangur, þó að þær hefðu verið miðaðar við báta, sem hefðu verið aðeins 120 rúmlestir að stærð og minni eins og þá voru uppi till. um frá ýmsum. En till. í þessum efnum. sem ekki ná yfir allt sviðið, gera hér heldur lítið gagn.

Mér dettur ekki til hugar að halda. að það verði nokkur grundvöllur fyrir því, að landhelgismálanefndin, sem skipuð var af ríkisstj. og hefur nú haldið nokkra fundi um málið og var búin að skapa sér vinnuáætlun á þann hátt, sem ég hef hér lýst, geti unnið áfram að sinni tillagnagerð í þessum efnum, á meðan málið er hér til afgreiðslu í Alþ. Mér dettur ekki til hugar að halda það. Tillöguflutningur þessi jafngildir því að taka þessa n. úr sambandi — láta hana hætta störfum, enda sé ég ekki annað betur en það sé svo í rauninni, þó að annað hafi nú svona komið fram í annarri hvorri setningu hjá hv. 1. flm. frv., þar sem hann talaði um það, að það væri æskilegt, að n. héldi áfram störfum. En mér sýnist nú, að hann hugsi málið á allt annan veg. Hann hugsi það raunverulega þannig, að það sé eðlilegt að leggja niður störf þessarar n., því að hann talaði hér allmikið um það í lok síns máls, að það væri einmitt ágætt að setja þessar bráðabirgðareglur til þess að fá reynslu af þeirri framkvæmd. M. ö. o., þeir, sem vinna að því, að settar verði reglur um þessi mál. sem ættu að endast til eitthvað lengri tíma en til þriggja mánaða, eiga að hans dómi að bíða eftir því að sjá, hver verður reynslan af þessari bráðabirgðaráðstöfun, og byggja þá sínar till. þar á eftir á þeirri reynslu, því að ekki getur maður haft neitt gagn af reynslunni, nema maður bíði eftir því að sjá, hver hún hefur orðið.

Ég tel það frámunalega illa staðið að máli eins og þessu að kasta fram skynditill. eins og þeim, sem hér hefur verið kastað fram, sem menn viðurkenna strax í upphafi, að séu aðeins hugsaðar sem bráðabirgðatill., og ætla síðan að draga einhverja ályktun varðandi þetta mál af framkvæmdinni á slíkum till. Það má vel búast við því, að einmitt framkvæmdin á svona illa undirbúnum till. leiði til þess, að það verði miklu erfiðara að fá menn til þess að fallast á víðtækari till., sem ná yfir allt vandamálið og ættu að standa til lengri tíma, vegna alls konar mistaka, sem búast má við, að upp komi í sambandi við framkvæmd á svona illa undirbúnum till.

Það var greinilegt, að hv. 3. þm. Sunnl. var m. a. hræddur við það, að eitt gæti t. d. komið í ljós af þessari reynslu, en það væri, eins og hann minntist hér á, að t. d. yrði um að ræða örtröð á veiðisvæðunum. Því er auðvitað ekki að neita, að þegar í það er rokið að opna eitt tiltekið svæði — í þessu tilfelli einkum Vestmannaeyjasvæðið, en engar ráðstafanir að ráði gerðar úti fyrir mjög stórum hlutum af landinu annars staðar, þá verði það til þess, t. d. að því er alla Faxaflóabátana varðar, að þeir ryðjist allir inn á þetta takmarkaða svæði — inn á Vestmannaeyjasvæðið. Austfirðingar og Norðlendingar og aðrir, sem vildu nú taka upp togveiðar, gerðu það sama, og reynslan yrði sú, sem m. a. hefur áður heyrzt af hálfu ýmissa í Vestmannaeyjum, þegar þeir hafa séð fram á það, að ásókn hefur orðið svona óeðlileg, að þeir segðu: Við óskum alls ekki eftir því, að þetta verði í gildi áfram, vegna þess að það væri á þennan hátt verið að stefna óeðlilega stórum flota inn á tiltölulega lítið svæði og það á viðkvæmum tíma. Hvað hugsa menn sér t. d., að þeir fjölmörgu togveiðibátar, sem gerðir eru út héðan frá Reykjavík og Hafnarfirði, geri samkv. þessum bráðabirgðareglum? Ekki verða þeir allir suður í Miðnessjó. Það er alveg gefinn hlutur. Þeir færu auðvitað á þetta svæði. sem ætti að vera opið — á Vestmannaeyjasvæðið, þ. e. þeir þeirra, sem héldu þá ekki bara áfram gamla laginu og litu fram hjá öllum mörkum. vegna þess að þeir viðurkenndu þá staðreynd, að það hefur engin lausn orðið á málinu.

Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Sunnl., að það hefur að mínum dómi líka dregizt allt of lengi að setja viðunandi reglur um þessi mál. Það hefur dregizt allt of lengi. Og ég ætla ekkert að fara nánar út í það, hvernig á því stendur. Ég tel að þessi dráttur hefði ekki þurft að eiga sér stað. Það hefði verið hægt að taka á þessu máli á annan hátt, og ég er ekki í neinum vafa um það, að það voru möguleikar á því og eru möguleikar á því enn að fá viðunandi lausn á þessu máli — lausn, sem vel væri hægt að standa á bæði fyrir Alþ. og aðra, sem hafa með framkvæmd á þessum málum að gera. Það væri hægt að fá viðunandi lausn á því, ef menn fengju tíma til þess — örstuttan tíma til þess að reyna að undirbyggja sínar till. þannig, að þær fái staðizt í framkvæmd. En það fæst vitanlega ekki með svona vinnubrögðum.

Það er rétt, að það eru til ýmsir menn, sem eru almennt séð mjög mikið á móti togveiðum og dragnótaveiðum og fordæma þá veiðiaðferð mjög. Það er rétt. Þeir eru allmargir til. En ég hygg þó, að hinir séu orðnir miklu fleiri, sem viðurkenna það, að það muni vera hægt að setja reglur um þessa veiði, þannig að ekki þurfi að koma að sök, en hins vegar geti orðið af því allmikill ávinningur. En það þýðir auðvitað ekkert að loka augunum fyrir því, að það er nokkuð vandasamt að setja slíkar reglur. Það er vandasamt að ákveða að heimila notkun á veiðarfæri á því svæði, þar sem við höfum á undanförnum árum t. d. á vetrarvertíðinni tekið um 70% af öllum okkar fiskafla á bátaflotanum í tiltekið veiðarfæri — fast veiðarfæri í sjó, sem ekki er hreyft nema tiltölulega lítið, þ. e. í þorskanetin. Það er mikill vandi að ákveða skyndilega, að togveiðibátar megi alveg óhindrað ryðjast inn á þessi svæði, þar sem þorskanetin hafa legið í sjó og fært okkur um 70% af aflanum og meira en það mörg árin að undanförnu, af því að það liggur fyrir, að árekstrar á milli þessara aðila eiga sér mjög oft stað.

Allar fullyrðingar hjá hv. 3. þm. Sunnl. um það, að þetta muni veiðimennirnir passa sjálfir og reynslan hafi sýnt það að undanförnu, að árekstrarnir hafi ekki orðið mjög miklir í þessum efnum, eru alveg úr lausu lofti gripnar að mínum dómi. Sannleikurinn er sá, að á meðan togveiðarnar voru óheimilar inni á þessu svæði, og það varðaði raunverulega við lög og reglur að veiða þar, þó að þeim væri ekki mjög hart framfylgt, gengu togveiðimenn vitanlega miklu skemmra í því að ryðjast yfir hina, sem fyrir voru eða höfðu lengst af verið á þessum miðum. En ef þeir væru búnir að fá lagalegan rétt, er ég hræddur um, að togveiðihópurinn mundi ekki víkja fyrir því, að hinir kæmu sínum netum fyrir með eðlilegum hætti. Og sá tími er líka liðinn — þó að þorskanetin séu tiltölulega föst veiðarfæri í sjó og ekki eins hreyfanleg og trollið — að netin séu lögð í upphafi vertíðar á tilteknum stað og standi þar allan tímann. Nú eru netin tekin upp miklu oftar og færð oftar á hverri vertíð á milli veiðisvæða miðað við það, hvað nýjustu mælitæki segja mönnum um það, hvar virðist vera mestan fisk að fá. Og togveiðimenn eru með nákvæmlega sömu tækin í sínum bátum, og þeir finna það á þau tæki engu síður en hinir, sem eru með netaveiðarfærin, hvar virðist vera mest um fisk, og þar halda þeir sig.

Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun, að það sé ekki hægt að setja reglur um heimild handa togveiðibátum til þess að veiða með botnvörpu í fiskveiðilandhelginni — ekki á hinum hefðbundnu netaveiðisvæðum bátanna á aðalnetaveiðitímanum, en hann er tiltölulega stuttur tími. Ég álít, að þær heimildir, sem togveiðin fengi, þyrftu að miðast við það, að þeir fengju ekki rétt til þess að fara inn á þessi hefðbundnu svæði, og ég held, að togveiðimennirnir mundu sætta sig við það, af því að þeir fengju verulega auknar heimildir frá því, sem þeir hafa haft. En til þess að reglur séu settar um þetta, sem fá í rauninni staðizt í framkvæmd, þarf vitanlega að hafa samband við veiðimenn frá hinum ýmsu hagsmunasvæðum í landinu um það, hver eru þessi hefðbundnu netaveiðisvæði, sem þarf sérstaklega að friða á tilteknum tíma fyrir ágangi svona færanlegra veiðarfæra eins og trollsins. Hver eru þau? Og ég er alveg fullviss um það, að það er enginn maður til hér á Alþ., sem getur samið um það till. hér í hvelli, hvaða svæði þetta eru, og ætlazt til, að slík till. væri samþ. (Gripið fram í.) Það þarf að hafa samband við veiðimenn frá mörgum stöðum í landinu. Hin hefðbundnu veiðisvæði netabátanna eru ekki óþekkt. Við vitum, hver þau eru. Það er bara að safna því saman. Það er engin uppgötvun. En það er rétt, að ég hef ekki þá trú á þm., að þeir þekki það mikið til fiskimiðanna, að þeir geti sett saman till. um það, hver þessi svæði eru. Til þess þarf að hafa samband við veiðimenn af þessum hagsmunasvæðum.

Og árekstrarnir eru ekki aðeins við netaveiðibátana, sem þó er býsna algengt, því að þarna hefur oft verið um málaferli að ræða á milli aðila, þar sem þessir árekstrar hafa komið upp, heldur er þetta þannig t. d. með línuveiðarnar, sem menn hafa þó almennt lýst yfir, að eigi að ýta undir, af því að það er almennt talið, að með þeirri veiðiaðferð sé hægt að fá hér bezta hráefnið, sem völ er á. Þá er auðvitað enginn vafi á því, að ef þau svæði, sem eru alveg viðtekin sem línuveiðisvæði á tilteknum tímum, eru ekki afmörkuð fyrir línuúthaldið, verður þarna ekki um neitt línuúthald að ræða, því að línan er þó þannig, að hún er lögð í sjó daglega, og ef á línuveiðisvæðinu morar allt af togveiðibátum, dettur auðvitað engum manni í hug að leggja sína línu í þann sjó, þar sem allt er fullt af togbátum fyrir. Það dettur engum manni í hug. Menn vita það, að togveiðibátarnir geta á engan hátt varizt því að spilla línuveiðarfærum, séu þeir að toga á því sama svæði.

Það er líka mín skoðun, að það þurfi að merkja sérstaklega þau svæði, sem er alveg óumdeilanlega hægt að flokka sem þýðingarmikil línuveiðisvæði á tilteknum tíma, og heimila ekki togveiðar þar til þess að spilla ekki fyrir því, að eðlileg línuveiði geti átt sér stað. Mín skoðun er sú, að þetta hafi einmitt þurft að vera eitt grundvallarsjónarmiðið, þegar settar eru reglur um auknar togveiðiheimildir, þ. e. að taka sanngjarnt tillit til hefðbundinna netaveiðisvæða og til hefðbundinna línuveiðisvæða. En þetta þýðir á engan hátt það af minni hálfu, að það eigi að loka fyrir togveiðiskipum öllum þeim svæðum, sem net hafa verið lögð á, eða öllum þeim svæðum, sem lína er lögð í sjó á — fjarri því. Þar vil ég raunar gera verulegan mun á, hvort svæðið er þess eðlis, að á það sæki verulegur fjöldi báta, sem hafa jafnvel gert það um langan tíma og sýnt, að það er hægt að stunda svona veiðar á þessum svæðum með verulegum árangri. En t. d. þessi netaveiðisvæði, sem ég álit, að þyrfti að reyna að forðast að spilla, eru aðeins netaveiðisvæði stuttan tíma á vetrarvertíð, aðallega í marz- og aprílmánuði. En þegar komið er fram á vor og sumar og hausttímann, þá er ekkert um þessi veiðarfæri að ræða í sjó, og þá er hægt að heimila togveiðar í miklu ríkari mæli en heimilað hefur verið, án þess að það þurfi á nokkurn hátt að koma að sök fyrir þessa veiðimennsku. Sama er að segja um línuveiðisvæðin, þó að þau séu ekki alveg eins bundin við árstímann, þá eru þau bundin aðeins við nokkur svæði við landið, svo að það er vitanlega hægt að heimila togbátum mjög ríkulegt svæði innan fiskveiðilandhelginnar, án þess að ástæða sé til að eyðileggja fyrir þeim, sem fyrir hafa verið á þessum miðum.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að samkv. þessari bráðabirgðatill., sem hér liggur fyrir — eða till. um bráðabirgðalausn — er hér gerður feiknalegur munur á þeirri heimild, sem gilda á fyrir ráðh. viðvíkjandi Suðurlandi og Norðurlandi. Fyrir Norðurlandi er gert ráð fyrir því, að gömlu grunnlínurnar skuli gilda, sem þar voru í gildi fyrir 1958, og þessi heimild til ráðh. er ekki nema einar 4 mílur út frá gömlu grunnlínunum. Það þýðir það auðvitað, að hinir stóru flóar og firðir á Norðurlandi verða algerlega lokaðir eins og Húnaflóinn, Skagafjörðurinn o. s. frv. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að þegar um það er að ræða að veita hér auknar heimildir fyrir hina minni togbáta eins og þessi till. fjallar um, mundi það vera að dómi þeirra togveiðimanna fyrir norðan alls ófullnægjandi. En hins vegar er þessi regla allt önnur viðvíkjandi suðurströndinni, en þar er heimildin miðuð við það, að fylgja skuli strandlengjunni — ekki grunnlínu — og heimilt sé að veita þessi veiðileyfi upp að þremur mílum frá strandlengju. Ég held, að það hefði verið miklu nær að gefa sér agnarlítið meiri tíma, annaðhvort fyrr á starfstímanum eða þá nú á eftir, til þess að samræma þessar till. og reyna að gera þær þannig úr garði, að það væru líkur til þess, að þær gætu staðizt, en ætla að reyna að koma þessu fram á þennan hátt. Auk þess vil ég leggja á það alveg sérstaka áherzlu, að ég tel að þessar till. muni ekki leysa þann vanda, sem menn halda, að þeir séu að leysa. Þeir munu eftir sem áður standa í sömu flækjunni með mjög marga þá aðila, sem hér eru komnir í vanda.

Hitt er þó að mínum dómi enn þá verra, að verði frv. eins og þetta samþ., eru allar líkur til þess, að spillt sé fyrir möguleikum á því að leysa þetta mál á þann hátt, sem var þó tvímælalaust orðin aðkallandi þörf á að gera. Ég held, að minni möguleikar verði á því á eftir hér á Alþ. að fá samstöðu um lausn á málinu og þó held ég sérstaklega, að það verði miklu erfiðara að ná sómasamlegri samstöðu með þeim fiskimönnum, sem hér eiga hagsmuna að gæta — auðvitað mismunandi hagsmuna, og fá þá til þess að fallast á ákveðna málamiðlunarlausn; það verður miklu verra, eftir að svona till. er samþ. Og þá tel ég verr farið en heima setið.

Ég hef sérstaklega vakið athygli á því, að varðandi hagsmuni útgerðarinnar á Austurlandi er um það að ræða, að þessi till. gerir ráð fyrir því, að ráðh. fái heimild til þess að setja reglur einmitt um þeirra viðkvæmasta veiðisvæði, sem mestar deilur eru uppi um — þeirra aðalvetrarvertíðarveiðisvæði. Ég held t. d., að ef þessi till. hefði verið við það miðuð, að heimild ráðh. hefði ekki náð til þessa svæðis, heldur miðuð aðallega við Vestmannaeyjaveiðisvæðið, þar sem það skiptir mestu máli, þá hefðu t. d. verið miklu meiri möguleikar til þess að hægt hefði verið að ná eðlilegu samkomulagi við þá, sem mestra hagsmuna eiga að gæta við útgerðarrekstur á Austurlandi, um frambúðarlausn á því, hvernig ætti að opna veiðisvæði fyrir Suðurlandi, heldur en verða mun, ef þessi till. verður samþ.

Nú berast og hafa þegar borizt mjög harðorð mótmæli frá skipstjórum og útvegsmönnum á Austurlandi einmitt gegn því, að þetta svæði verði opnað, og frá stærstu útgerðarstöðinni fyrir austan eins og Hornafirði, einni þýðingarmestu vetrarvertíðarstöð á landinu, hefur okkur þm. að austan borizt mótmælatill. gegn þessu, þar sem því er haldið fram, að verði þetta samþ., sé afkomu þeirra stefnt í beina hættu. Og ég held líka, að þetta sé rétt. Yrði heimildin þannig, að farið yrði t. d. eftir þessum ýtrustu kröfum, sem komið hafa frá Vestmannaeyjum, þ. e. að opna allt Suðurlandssvæðið upp að þremur mílum frá ströndinni, án þess að nokkrar reglur giltu til verndar netaveiðisvæðum eða línuveiðisvæðum, þá held ég, að hagsmunum þeirra sé stefnt í beinan voða. Það er mín skoðun, að það versta við þetta mál, sem liggur hér fyrir, sé einmitt þetta, að það sé verið að spilla möguleikum til þess að samstaða geti skapazt bæði innan þings og utan um lausn á málinu.

Ég hef sagt það hér áður og skal endurtaka það enn, að mín skoðun er alveg hiklaust sú, að ég er með því að auka til verulegra muna togveiðiheimildir innan fiskveiðilandhelginnar frá því, sem nú er. Ágreiningur við mig og marga aðra er því ekki um það mál. heldur hitt, að ég tel, að það verði að miða þessar auknu heimildir við það, að ákveðin séu tiltekin veiðisvæði og miðað við tiltekinn tíma, þar sem um yrði að ræða auknar heimildir fyrir togveiðar, og að þessi veiðisvæði og þessi veiðitími verði að miðast við það, að ekki sé gengið verulega á hlut þeirra, sem fyrir hafa verið á miðunum með önnur veiðarfæri, sem illa samrýmast togveiðarfærunum. Þannig að t. d. hefðbundin netasvæði báta séu ekki sett í hættu eða hefðbundin línusvæði, þar sem um það hefur verið að ræða, að þessi veiðarfæri hafi skilað verulegum árangri, og reglurnar séu ekki þannig, að úr þessu verði annaðhvort beinir árekstrar eða þetta verði til þess að spilla því, sem fyrir var. Þetta er alveg grundvallarsjónarmið, sem þarf að miða við, en það er engin leið, eins og ég hef sagt, til þess að setja reglur um þetta án þess að fá tíma til þess að tala nokkuð við þá menn, sem eiga mest undir þessu og eru veiðimenn frá þessum hagsmunasvæðum.

Landhelgismálanefndin var búin að ákveða alveg sína vinnutilhögun í þessum efnum og komin þarna vel áleiðis, og það virtist vera ríkjandi innan n. samstaða og sameiginlegt álit í þessa átt. Ég tel það mjög miður farið að spilla þessum möguleikum til samstöðu hér innan Alþ. til þess að reyna að leysa svona viðkvæmt mál og erfitt mál og þó einkum og sérstaklega að spilla þeim möguleikum, sem ég tel að hafi verið fyrir hendi hjá fiskiskipstjórum og útgerðarmönnum til þess að komast að sómasamlegri málamiðlunarlausn á þessum vandamálum í stað þess að hafa þetta eins og verið hefur. Einn hrópar þessa kröfu, og annar hrópar allt aðra kröfu, og þannig hefur okkur ekki miðað neitt áfram. Það tel ég það versta við þennan tillöguflutning eða þessar áætlanir um það að reyna að reka í gegn þessa bráðabirgðalausn, að með því sé verið að koma í veg fyrir lausn á vandamálinu sjálfu.

Það er nú þegar komið hér fram að matartíma, og fundur er boðaður hér í fyrra lagi, og ég skal því ekki orðlengja þetta frekar, enda er ætlazt til þess, að þetta mál fari hér í n. og verði þá athugað í n. Hugsanlegt er þá, að menn geti þar fundið einhverja leið út úr þessum vanda, þó áð flm. hafi ekki séð ástæðu til þess að leita eftir slíku samkomulagi, áður en þeir köstuðu málinu hér inn í þingið. Ég viðurkenni algerlega þann vanda, sem upp er kominn í sambandi við þá ákvörðun, sem dómsmrn. hefur tekið. Mér er það ljóst, að það er mjög miklum erfiðleikum bundið, ef það á að stoppa svo að segja allar togveiðar — þó ekki sé nema allan janúarmánuð og kannske hálfan febrúar. Ég er því engan veginn andvígur, að það sé leitað eftir því, hvort hægt er að finna einhverjar leiðir til þess að leysa þennan vanda, en ég fullyrði það, að þessi till. leysir ekki vandann — ekki nema part af honum, og hún felur í sér verulegar hættur varðandi lausn á aðalefni málsins, þ. e. að setja reglur hér um togveiðar í landhelgi á allmiklu víðara sviði en hér er fjallað um í þessari till. Og ég óttast það mest, að skyndiráðstöfun í þessum efnum verði til þess að spilla þeim möguleika.