17.12.1968
Neðri deild: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál. Í ræðu frsm. komu fram öll þau atriði, sem máli skipta í sambandi við þá bráðabirgðalausn á landhelgismálinu, sem hér er um að ræða. Ég get tekið undir það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að það er sjálfsagt enginn, sem að þessu máli stendur, ánægður með úrlausnina. Okkur er ljóst, að það þarf að leggja miklu meiri vinnu í það að leysa málið en hægt hefur verið á þeim tíma, sem sjútvn. hv. d. hefur haft til umráða, síðan hún fékk frv. til meðferðar. Ég vil þess vegna treysta þeim yfirlýsingum, sem voru gefnar við 1. umr. málsins, að landhelgisnefndin svonefnda haldi áfram að starfa. Ég lét við 1. umr. málsins í ljós efasemdir um, hvort það væri æskilegt fyrir okkur að veita undanþágur frá landhelginni innan fjögurra mílna markanna, sem nú gilda, miðað við grunnlínustaði, og þá ekki sízt, hvort hyggilegt væri að veita veiðileyfi enn þá nær landi eða innan við þriggja mílna mörkin. Frsm. sjútvn. gerði grein fyrir, hvaða skoðun dr. Gunnar Schram hafði á þessu, og eftir að hann hafði gefið n. þær upplýsingar, sem fram koma í nál., þá ákvað ég að bann gegn veiðum með botnvörpu standa að því að koma þessu frv. áleiðis. En ég vil leggja áherzlu á, að það er mjög nauðsynlegt, að þeim þrem höfuðatriðum, sem dr. Gunnar Schram nefndi sem skilyrði fyrir því, að þessar undanþágur yrðu leyfðar, verði framfylgt. Þau atriði voru: 1) að undanþágurnar byggðust á till. Hafrannsóknastofnunarinnar og yrðu veittar undir vísindalegu eftirliti, 2) að það væri öllum gert ljóst, að ekki væri um almenna opnun landhelginnar að ræða, heldur eingöngu tímabundnar undanþágur og takmarkaðar við ákveðin svæði, 3) — og á það lagði hann einna mesta áherzlu, að þeim reglum og lagaákvæðum, sem sett kynnu að verða í sambandi við undanþágur í landhelginni, yrði rækilega framfylgt. Það kom fram hjá dr. Gunnari Schram, að hann teldi, að það væri fátt, sem skaðað gæti málstað okkar í landhelgismálinu jafnmikið og það að láta undir höfuð leggjast að framfylgja þeim reglum, sem í gildi væru á hverjum tíma.

Miðað við þær upplýsingar, að það hafi a. m. k. á síðari árum verið haldið fram þeirri skoðun af Íslands hálfu í landhelgismálinu, að við áskildum okkur rétt til fullrar hagnýtingar landhelginnar innan 12 mílna markanna, þannig að við hefðum sem mestan arð af fiskstofnunum, þá get ég ekki séð, að það sé veruleg hætta fólgin í því fyrir okkur að veita þessar undanþágur. Þó vil ég leggja á það áherzlu, að þegar baráttan fyrir útfærslu landhelginnar hófst, byggðist hún fyrst og fremst á þeirri nauðsyn okkar að vernda fiskstofnana við landið. Sú nauðsyn er auðvitað enn þá fyrir hendi, og þess vegna er bráðnauðsynlegt, að sérfræðingar okkar í þessum málum, fiskifræðingarnir, fylgist rækilega með þeim veiðum, sem verða hafnar samkv. þessum undanþágum, og ef út af bregður, þá tel ég, að eigi hiklaust að afturkalla leyfi, sem veitt kunna að verða.

Ég vil nefna hér dæmi, sem sýnir, hvað þetta vandamál getur verið erfitt viðfangs og flókið. Hv. frsm. sjútvn. skýrði frá ástæðunum til þess, að sjútvn. féllst á það að leyfa togveiðar innan þriggja mílna markanna sunnan til við Reykjanes. Fyrir okkur lágu upplýsingar um, að þarna veiddist ágætur fiskur, og það var vottfest af fiskmóttökustöðvum í Grindavík. Mér var sagt eftir ágætri heimild í dag, sem ég hef ekki ástæðu til að vefengja, að sumt af þeim fiski, sem bátar hafa undanfarið veitt þarna, hafi verið svo smátt og lélegt, að það hafi ekki einu sinni verið fært að slægja það og hafi það verið heilfryst ósnert. Nú get ég ekki sagt, hvorar upplýsingarnar eru réttari. Þarna stendur fullyrðing gegn fullyrðingu, en ef svona hlutir koma í ljós í sambandi við þessar undanþágur, þá á það að vera skylda Hafrannsóknastofnunarinnar að gera aðvart og að gera ráðstafanir til þess, að veiðileyfin verði afturkölluð. Ég lít þannig á, að þessar undanþágur, sem aðeins eiga að gilda samkv. till. sjútvn. frá 1. jan. til 30. apríl, séu eins konar tilraun, sem gerð verði í þessu efni. Við eigum að fylgjast,vandlega með þeirri tilraun og draga af henni lærdóm eftir því, sem til tekst um framkvæmdina.