18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það hafa lengi verið hér meðal margra þm. nokkuð svipaðar hugmyndir um landhelgi og botnvörpu eins og hið fyrrnefnda væri blómagarður, en hið síðara væri sauðkind eða einhvers konar skemmdarvargur í fallegum blómagarði. Það má vera, að það byggist á þessum hugmyndum, að svo lengi hefur dregizt að taka raunhæfum tökum á landhelgismálum okkar, en þau hafa sannast að segja um margra ára skeið verið hrein feimnismál hjá rn., sem áttu að framkvæma refsingar fyrir brot á þeim lögum, sem um þau giltu. Á hinn bóginn hafa fiskveiðarnar og þá líka fiskveiðar með botnvörpu verið undirstaða í atvinnulífi Íslendinga. Þær hafa skipt sköpum um það, hvort atvinna hefur verið í landinu eða atvinnuleysi á stundum, og einnig um það, hvort þjóðarbúið hefði nægilegar tekjur fyrir sig að leggja eða hvort það væri í kreppuástandi, eins og það er nú.

Framkvæmd þessara mála hefur verið þannig, að togveiðibátar hafa verið gerðir út víðs vegar um landið, og þeir hafa aflað svo sem þeir hafa getað og þá einnig innan landhelginnar. Varðskipin hafa elt bátana á röndum, stöðvað þá við veiðarnar og skipað þeim heim til hafnar, þar sem fógeti hefur sett upp sína embættishúfu og yfirheyrt þá. Þeir hafa gert tilraunir til þess að koma sér undan því að viðurkenna landhelgisbrot. Stundum hefur þeim máske tekizt það, en ærið oft hafa þeir hlotið býsna þunga dóma. En þegar til framkvæmdanna hefur komið á þeim dómum, þá hefur þeim verið slegið á frest, svo að viðkomandi skipstjórar hafa oft og iðulega sloppið með meira og minna skaddað taugakerfi og hafa haldið áfram að reka sína atvinnu — reyna að afla fisks, en það sjá allir hver sanngirni hér hefur verið á ferðinni gagnvart þeim mönnum, sem forystuhlutverki hafa gegnt í því að draga á land sjávarafla. Þeir hafa sem sé verið látnir lifa í stöðugum ótta. Ef þeir ekki fiska, er þeim sagt upp sem skipstjórum. Þeir eru búnir að missa sína atvinnu. Útgerðin, sem þeir stundum eru þátttakendur í sjálfir, er komin á vonarvöl. Með þessu veiðarfæri hefur ekki verið hægt að stunda veiðar með fullnægjandi hætti nema fara inn fyrir landhelgislínu.

Upp á þetta hefur ríkisstj. horft árum saman. Alþ. hefur gert það líka, og það hefur ekkert verið gert annað en halda þessum skrípaleik áfram, sem hefur mjög slæm áhrif á alla aðila. Í fyrsta lagi er það ákaflega slæmt, að mjög mikið sé um lögbrot, og skapar ekki virðingu fyrir lögum landsins. Það er sömuleiðis mjög slæmt fyrir stjórnarvöldin sjálf að framkvæma ekki þær refsingar, sem lög fyrirskipa. En verst af öllu er þetta þó fyrir mennina, sem í því hafa staðið að draga afla að landi með þeim ráðum, sem tiltæk voru, alltaf í stöðugum ótta um það, að þeir fái refsingar fyrir.

Þó að það sjónarmið hafi stundum verið ríkjandi hér á Alþ., að landhelgin væri blómagarður og botnvarpan væri einhvers konar skemmdarverkagripur, þá eiga alls ekki allir alþm. sammerkt í því og sjálfsagt ekki heldur ráðh., og á síðari árum hefur sá skilningur farið vaxandi, að þessu væri reyndar ekki þannig farið. Landhelgin væri ekki fyrst og fremst okkar blómagarður, heldur væri hún sá brunnur, sem við verðum að sækja okkar lífsuppihald í, og spurningin er því ekki um það að banna þar veiðar, heldur hitt að nýta hana skynsamlega.

Því frv., sem hér er á ferðinni og ég er nú reyndar ekki alls kostar ánægður með, fylgir grg., og ég verð að telja, að aðaluppistaðan í henni sé sú, sem segir í síðustu mgr. hennar, en þar segir um umsagnir fiskifræðinga um togveiðar: „Eru þær undantekningarlaust á þann veg, að togveiðar út af fyrir sig með þeirri möskvastærð, sem nú er ákveðin, séu fiskstofnunum ekkert hættulegri en sum veiðarfæri önnur, sem notuð eru.“

Ég tek alveg undir það. Mér er kunnugt um það, að þetta er rétt hermt, og ég tel þetta vera veigamestu rökin, sem hér eru fram færð. En ef við viljum taka það gilt, að botnvarpa sé ekki hættulegra veiðarfæri en sum önnur, sem notuð eru, hvers vegna þá að vera að banna hana umfram önnur veiðarfæri? Hvers vegna ekki að nema úr gildi l. um bann við togveiðum? Ég teldi, að það væri tímabært að gera það. Hitt viðurkenni ég og tel enda sjálfsagt, að okkar veiðisvæðum og þá alveg sérstaklega þeim veiðisvæðum, sem liggja innan landhelginnar, sé skipt á sem hagnýtastan hátt og skipt með sem mestri hagræðingu á milli veiðiskipa — máske af tilteknum stærðum. Það er eðlilegt, að stærstu skipunum séu frekar ætluð djúpmiðin og þá smærri skipunum grunnmiðin. En það á ekkert skylt við það, að botnvarpan sé viðsjálsgripur, sem eigi að fjarlægja með öllu af tilteknum svæðum. Þessi vandi er auðvitað ekki nýtilkominn, og það er ákaflega slæmt, að við honum skuli ekki hafa verið brugðizt með röggsemi, heldur dregið að leysa hann allt til þessa.

Frv. er nú fram komið af sérstökum ástæðum vegna þess, að nú er svo komið, að rn. telur sér nauðsynlegt að framfylgja gildandi lögum og hefur sýnt lit á því, að það muni gera það framvegis. Auðvitað verður rn. ekki láð það, þó að einn góðan veðurdag komi að því, að það geti ekki látið hjá líða að framkvæma l. Ég get vel skilið það. Um það má auðvitað deila, hvort sú stefna hafi verið tekin upp á réttum eða skökkum tíma, en hitt vitum við öll. að að því hlaut að koma, að rn. sæi sér ekki fært að láta undan dragast að framkvæma l. Í samræmi við þessi orð, sem ég hef sagt hér, vil ég lýsa því sérstaklega, að vissir hlutar af þessu frv. eru þannig vaxnir, að ég tel ekki vera í þeim réttlæti.

Í fyrsta lagi þetta: Hér á að opna landhelgina að vissu leyti fyrir Norðurlandi og fyrir Suðurlandi, en ekki annars staðar. Ekki er þetta þó, vegna þess að ekki séu til togskip í öðrum landsfjórðungum en þessum tveimur. Á Vestfjörðum er allmikið af togskipum. Sama má segja um Breiðafjörð, og þó er alveg sérstaklega mjög mikið af þeim við Faxaflóa. En á öllum þessum svæðum og einnig á Austfjörðum eiga togskip ekki að fá leyfi til þess að sækja á sín heimamið, en þau mega fara norður fyrir land, og þau mega fara suður fyrir land og fiska þar. Með þessum hætti er greinilega raskað jafnvægi, þannig að það liggur hreinlega fyrir, að það mun koma óeðlilega mikill urmull togveiðiskipa á veiðisvæðin fyrir norðan og þó alveg sérstaklega fyrir sunnan. Ég geri ráð fyrir því, að á Vestfjörðum, Breiðafirði, Faxaflóa og Austfjörðum sé um það bil helmingur og líklega meira en helmingur af þeim togveiðiskipum, sem hér um ræðir. Þar af leiðandi tel ég, að það sé hæpinn ávinningur fyrir Norðlendinga og Sunnlendinga að fá þá alla á sín mið án þess að mega sjálfir víkja sér á þau mið, sem eðlilegust væru þessum bátum, sem nú eru væntanlegir norður fyrir — eða aðallega suður fyrir land. Þess vegna tel ég, að það þurfi að athuga þetta frv. enn og sjá, hvort ekki er hægt að fá rökrænni lausn á þessu máli en hér er gerð till. um í frv. Það er þó ekki ákvarðað með sama hætti, hvar megi leyfa togveiðar fyrir Norðurlandi annars vegar og Suðurlandi hins vegar. Á Suðurlandi er þetta aðallega miðað við, að togveiðarnar megi leyfa 3 mílur frá ströndinni, en þó séu frekari heimildir til þess að fara nær landi á tilteknu afmörkuðu svæði, sem nánar er skilgreint í frv. Ég tel þetta eðlilegt og er því út af fyrir sig samþykkur. Á Norðurlandi er farið svolítið öðruvísi að. Þar er miðað við, að ekki megi fara nær en að 4 mílum.

Mér er næstum óskiljanlegt, hvernig þetta frv. hefur getað farið með því orðalagi, sem á því er, gegnum þrjár umr. í Nd. og gegnum æruverðuga n. þar, án þess að gerð væri á því breyting, þar sem í frv. segir, að leyfa megi togveiðar allt að 4 sjómílum frá grunnlínupunktum. Mér sýnist, að sums staðar megi þá alveg fara upp í grös, því að illa trúi ég því, þó að ég hafi nú ekki á korti fyrir mér, hversu þéttir grunnlínupunktar eru í þessum landsfjórðungi, að hvergi sé lengra á milli þeirra en 8 mílur, og svo virðist vera eftir frv., að draga eigi hring um punktana sjálfa. En ég get ekki ímyndað mér, að það sé það, sem fyrir tillögumönnum vakir, heldur hitt, að ekki megi fara nær landi en allt að 4 mílum frá grunnlínum, sem dregnar eru milli grunnlínupunkta. Ég vil m. a. víkja því að þeirri n., sem um frv. hlýtur að fjalla hér í þessari hv. þd., að leiðrétta þetta, ef rétt er skilið hjá mér, að það vaki fyrir tillögumönnum. að hér sé um að ræða grunnlínur, en ekki grunnlínupunkta. Ef þetta væri hins vegar meint eins og það stendur á blaðinu, þá er þetta eitthvað annað kerfi en ég hef nokkurn tíma heyrt nefnt, og ætla ég, að það verði að kryfja til mergjar, hvort um er að ræða handvömm í frv. eða í því felist eitthvað allt annað en mér sýnist, að vaki fyrir mönnum.

Með því að þessar umr. fara fram á býsna óvenjulegum tíma og nokkuð mikið þykir við liggja, að breytt verði þeim reglum, sem gilda í þessum efnum — og ég er því samþykkur — þá skal ég reyna að stytta mál mitt sem mest og ekki tefja þetta lengur en brýn þörf krefur. En ég vil sem sé biðja n. að athuga það, hvort hún getur ekki komizt að samkomulagi um rökréttara samhengi í lausn þessa vanda í heild en frv. gerir ráð fyrir. þ. e. að hún efni ekki til þess, að skip úr stórum landshlutum og skipmörgum verði endilega send á þau svæði ein, sem opnuð eru, en síðan verði öðrum svæðum haldið lokuðum — óeðlilega lokuðum, eftir að þetta frv. væri samþ. eða þessar hugmyndir gerðar raunhæfar, þar sem ég get ekki betur séð, en jafnmikil rök liggi fyrir því, að togveiðar verði leyfðar eða rýmkað verði um heimild til þeirra eins og gert er ráð fyrir, að gert verði fyrir Suður- og Norðurlandi.

Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Austf. nefndi áðan að hér er ekki tekið á vandanum í heild, heldur aðeins hluta af honum, sem gæti raskað jafnvægi. Nú er mér það alveg ljóst, að hér er ekki um að ræða nema bráðabirgðalausn á þessu máli. En lengi býr að fyrstu gerð, og ég teldi það fullkomlega ómaksins vert að skoða það, hvort hér er ekki hægt að koma við réttlátari háttum um rýmkun á landhelginni en sú rýmkun ein getur talizt, sem frv. gerir ráð fyrir.

Að svo mæltu skal ég láta máli mínu lokið, en ég vænti þess, að hv. sjútvn. — það er sjálfsagt hún, sem fær málið til meðferðar — taki það til athugunar, sem ég hef hér bent á. Hvað líður brtt.-flutningi, læt ég hann bíða, þar til ég sé álit n. hér um. En hitt vil ég leggja áherzlu á, að breytinga er þörf frá gildandi reglum.

Ég get ekki tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér sé gengið of langt í rýmkunum. Þvert á móti tel ég, að hér sé gengið of skammt, en engu að síður get ég mjög tekið undir ýmislegt, sem hann sagði um efnismeðferð málsins. Og ég verð að segja það, að þó að til þess sé ætlazt af okkur alþm., að við komumst af með lítinn tíma til þess að afgreiða svona mál. þá hefur það svo lengi dregizt hjá rn. að gera einhverjar raunhæfar tilraunir til að leysa málið, að mér sýnist, að það mundi allt eins geta dregizt hjá því að setja reglugerð samkv. þessu frv. eða samkv. frv. eins og það verður endanlega, þannig að það sé ekki við því að búast, að það hljóti endilega að verða til að flýta fyrir málinu, þó að Alþ. flaustri því af. Ég tel að það verði þeim mun erfiðara að gera reglugerð samkv. því, sem málið er í rauninni órökréttara, svo að það sé vel til þess vinnandi, að Alþ. skoði málið af nokkurri gaumgæfni, en afgreiði það þó svo fljótt, sem verða má.