19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð, sem hv. frsm. n. lét hér falla í sinni framsöguræðu, að hér er um merkilegt mál að ræða að því leyti, að það lítur út fyrir að vera fyrsta mál sinnar tegundar, sem gerir ráð fyrir því, að Alþ. hlutist til um hagkvæmari nýtingu landhelginnar en áður hefur þekkzt. Samþykktir Alþ. hafa, eins og hann réttilega tók fram, fyrst og fremst beinzt að því á umliðnum árum að stækka landhelgina, en það er augsýnilegt, að að þeim þætti hlýtur að koma, að löggjafinn og stjórnarvöld landsins gera ráðstafanir til þess, að við náum bezta hugsanlegum árangri — bezta afrakstri, sem hægt er að ná úr landhelginni, án þess að gengið sé á stofninn. Ég vil gjarnan undirstrika það, að þetta, sem hann setti fram, er einnig mín skoðun. Ég mun í samræmi við þetta, þar sem ég tel að frv. sé skref í þá átt að koma þessu fram, styðja það.

Hins vegar hef ég, — eins og ég lýsti reyndar hér við 1. umr. málsins, ýmislegt við málið að athuga, og sannleikurinn er sjálfsagt sá, að það finnst trúlega ekki neinn sá aðili á Alþ. hvorki meðal flm. frv. né annarra, sem er alls kostar ánægður með málið, heldur er hér greinilega um samkomulag að ræða, þar sem enginn einn hefur getað haft allt eftir sínu höfði, heldur hafa verið þræddar nokkuð hlykkjóttar götur, til þess að málið ætti frekar lífsvon í meðförum þingsins.

Ég hef látið þess getið, að ég telji það stærstan annmarka á þessu frv., að það kemur til með að raska allverulega þeirri hagkvæmni, sem í því felst, að verstöðvar séu sem næst þeim fiskimiðum, sem skip frá verstöðvunum sækja á. Það er náttúrlega engin hagkvæmni í því að láta bát frá Vestfjörðum sækja mið við Vestmannaeyjar. Að öðru jöfnu felst í þessu bein óhagkvæmni. Og með því að opna fiskveiðilandhelgina eða rýmka veiðirétt skipanna á fáum svæðum verður það auðvitað til þess, að verulegir tilflutningar hljóta að verða á flotanum. Þetta er ekki í hagkvæmnisátt, og þess vegna orðaði ég það hérna við 1. umr., hvort ekki væri möguleiki á að bæta hér úr með því að opna landhelgina almennt fyrir þeim veiðum, sem hér um ræðir, þ. e. botnvörpuveiðum. En það er eins og við þekkjum. Það hræðist það margur þm„ að botnvarpa sé eitthvað allt annað en önnur veiðarfæri, rétt eins og sá fiskur, sem veiðist á línu, í net eða á handfæri, sé ekki drepinn. En þetta er ekki svona. Hann er ekkert meira drepinn — sá, sem veiðist í botnvörpu. Og það hafa fiskifræðingar margsinnis undirstrikað, að sóknin í stofninn er aðalatriðið, en ekki hitt, hvort viðkomandi fiskur sér sitt endadægur hangandi á krók, flæktur í neti eða innbyrtur á þilfar á fiskibát og hvolft úr botnvörpu þangað. N. hefur nú ekki séð sér fært að gera neinar breytingar í þessa átt, og get ég skilið, að það kunni að vera á því verulegir annmarkar. Engu að síður vil ég freista þess með brtt. að spyrna hér nokkuð við í því, að óeðlileg tilfærsla flotans á miðunum eigi sér stað í svo miklum mæli, sem ég þykist sjá fram á, að annars muni verða. Þessa brtt. leyfi ég mér að leggja hér fram skriflega og biðja hæstv. forseta um að leita þeirra afbrigða, sem til þarf, svo að hún fái að koma hér til umr. og atkvgr.

Till. er á þessa leið: „Aftan við ákvæði til bráðabirgða bætíst svo hljóðandi málsgr.: Þær rýmkanir á veiðiheimildum, sem í þessum l. felast, skulu þó aðeins ná til þeirra fiskiskipa, sem gerð eru út frá höfnum á svæðinu frá Horni að Rauðanúpi norðanlands og frá Stokksnesi að Garðsskaga sunnanlands.“ En þetta eru þau svæði, sem rýmkunin á að taka til. Hún á ekki að taka til Vestfjarða, ekki Breiðafjarðar, ekki Faxaflóa og ekki Austfjarða. Þá finnst mér það rökrétt, að skip frá þeim stöðum verði heldur ekki gerð út á botnvörpu eða a. m. k. ekki til að veiða nær landi en þau hingað til hafa mátt. Og auk þess tel ég, að það sé þjóðhagslega engin bót að efna til þess, að helmingur veiðiflotans flengi sjóinn tugi og hundruð mílna í leit að fiski, sem kannske liggur á næstu grösum við þeirra bæjardyr. Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja þessa till. fram.